[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Lögfræðileg léttúð ráðuneytisins í umgengni við lögfræðilegar spurningar, sem varða fjölda fólks miklu, sætir óneitanlega furðu,“ segir Ólafur K.

Fréttaskýring

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Lögfræðileg léttúð ráðuneytisins í umgengni við lögfræðilegar spurningar, sem varða fjölda fólks miklu, sætir óneitanlega furðu,“ segir Ólafur K. Ólafs, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs bænda, í bréfi til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Tilefni ummælanna er viðbrögð embættismanna í fjármála- og efnahagsráðuneytinu við umsögn stjórnar Lífeyrissjóðsins um lagafrumvarp um að leggja sjóðinn niður.

Stjórn Lífeyrissjóðs bænda hafði í umsögn til Alþingis bent á að þegar 6. grein laganna félli niður skertust réttindi tiltekins hóps sjóðsfélaga til greiðslna úr sjóðnum. Um er að ræða sjóðsfélaga sem voru makar bænda á árunum 1971 til 1983 og ekki hafa sjálfir öðlast réttindi til útgreiðslu úr sjóðnum, hvorki fyrir eigin réttindaávinnslu né fyrir framsal á réttindum hins látna maka. Ráðuneytið benti á það í svari sínu að í samþykktum Lífeyrissjóðs bænda væru ákvæði sem tryggðu umrædd makaréttindi.

„Auðvitað breytir það engu þó áður hafi verið fjallað um tilvitnuð réttindi í samþykktum sjóðsins þar sem réttindin hljóta að falla niður þegar lagastoðinni er kippt undan þeim,“ segir Ólafur í bréfinu. Það sé vissulega rétt hjá ráðuneytinu að hægt sé að veita rýmri rétt til handa sjóðfélögum með samþykktum, en það eigi aðeins við um réttindi sem deilist á fullgilda sjóðfélaga.

Kvenréttindi

Ólafur segir enn fremur að umrædd réttindi séu í raun kvenréttindi. „Konurnar unnu á býlunum til jafns við karlana, en var meinuð aðild að lífeyrissjóðnum allt til ársins 1984 vegna mótframlagsgreiðslna úr ríkissjóði. Ákvæði 6. greinar er tilkomið vegna þeirra hjóna sem ekki skiptu réttindum á milli sín fyrir tímabilið 1971-1983 þegar konunum var ekki heimilt að greiða í sjóðinn. Við fráfall bónda, sem aflaði sér réttinda á þessum árum, á kona hans rétt á venjulegum makalífeyri út á öll réttindi bóndans í tvö ár eins og hefðbundið er. Eftir þann tíma á makinn rétt á ævilöngum lífeyri út á helming þeirra réttinda sem bóndinn aflaði á árunum 1971-1983. Í dag eru breyttir tímar, sem betur fer, þar sem nú eru bæði hjóna talin bændur í öllu tilliti. Það breytir ekki því að enn er við fortíðardrauga að etja í jafnréttismálum. Margumræddri 6. gr. laga nr. 12/1999 var einmitt ætlað að kveða einn slíkan niður. Því er skorað á hið háa Alþingi að hrinda þessari aðför kontórista í kansellíinu og hrapa ekki að neinni lögleysu.“

„Frekar lítill peningur“

Málið kom til umræðu á Alþingi fyrir stuttu. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, tók málið upp og spurði þá Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvernig hann hygðist bregðast við athugasemdum Lífeyrissjóðs bænda. Las þingmaðurinn upp 6. grein laganna og bætti við að skoða þyrfti ákvæði greinarinnar þótt „þessi peningur væri frekar lítill í dag vegna mikillar verðbólgu frá 1983,“ eins og hann komst að orði. Fjármálaráðherra brást við með því að segja að þingmaðurinn hefði svarað spurningu sinni sjálfur með orðum sínum um að málið snerist um litla peninga. „Ég hef sama skilning og hann,“ svaraði ráðherrann.

Ekki urðu frekari umræður um málið og er líklegt að lögin um lífeyrissjóð bænda verði felld úr gildi án þess að ráðstafanir verði gerðar vegna 6. greinarinnar.

Um hvað er deilt?
» Samkvæmt lagafrumvarpi á að leggja Lífeyrissjóð bænda niður.
» Stjórn sjóðsins segir að tryggja þurfi með lögum að 6. grein laganna um makalífeyri haldist.
» Fjármálaráðuneytið segir ákvæðið þegar tryggt í samþykktum sjóðsins.
» Lífeyrissjóðurinn segir það ekki duga. Það þurfi að hafa lagastoð.