Faxaflói Svæði austan bláu línunnar er verndarsvæði hvala, en griðasvæðið var um tíma austan rauðu línunnar og þá mun stærra.
Faxaflói Svæði austan bláu línunnar er verndarsvæði hvala, en griðasvæðið var um tíma austan rauðu línunnar og þá mun stærra.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Borgarstjóri hefur ítrekað áskorun borgarstjórnar til Alþingis frá því í nóvember 2014 um stækkun griðasvæðis hvala í Faxaflóa. Í bréfi Dags B.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Borgarstjóri hefur ítrekað áskorun borgarstjórnar til Alþingis frá því í nóvember 2014 um stækkun griðasvæðis hvala í Faxaflóa. Í bréfi Dags B. Eggertssonar til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra segir að gríðarmiklir hagsmunir íslenskrar ferðaþjónustu séu að veði.

Hrefnuveiðar hafa um árabil verið stundaðar í Faxaflóa og hafa verið deilur milli talsmanna hvalaskoðunarfyrirtækja og hvalveiðimanna um það hvar skuli draga mörkin; hvar megi veiða og hvar ekki. Sumir hafa viljað banna hrefnuveiðar á flóanum öllum eða innan svæðis sem markast nokkurn veginn af Garðskaga á Reykjanesi og Arnarstapa á Snæfellsnesi.

Vorið 2013 stækkaði þáverandi sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, griðasvæðið á Faxaflóa skömmu áður en hann lét af embætti og var þá miðað við griðasvæði austan við beina línu frá Garðskagavita norður í Skógarnes á Snæfellsnesi.

Hvalveiðimönnum fannst þetta of stórt svæði og bentu á að megnið af hrefnuveiðum á flóanum færi fram innan þessara marka og með þessari afmörkun myndu hrefnuveiðar á flóanum leggjast af.

Hvorki horft til vísindalegra sjónarmiða né hagsmuna veiða

Arftaki Steingríms, Sigurður Ingi Jóhannsson, færði mörkin aftur í samt horf sumarið 2013. Nú er því miðað við að ekki megi veiða hvali á svæði sem markast af Akranesi og Garðskagavita.

Í tilkynningu frá sjávarútvegsráðherra í júlí 2013 segir að ákvörðun um stækkun griðasvæðis í maí 2013 hafi ekki verið í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar um afmörkun svæða til hvalaskoðunar frá mars 2009. Eins hafi legið fyrir álit stofnunarinnar frá 2012 um að ekki hafi verið sýnt fram á að meint aukin fælni hrefnu í Faxaflóa stafi af hvalveiðum á veiðisvæðinu. „Það er mat ráðherra að með þessari ákvörðun frá því í maí sl. hafi hvorki verið horft til vísindalegra sjónarmiða né hagsmuna hrefnuveiða á svæðinu,“ segir í tilkynningu ráðherra.

Í fyrrnefndu bréfi borgarstjóra segir meðal annars: „Uppbygging hvalaskoðunarfyrirtækja við Gömlu höfnina hefur styrkt og eflt fyrirtæki og mannlíf á svæðinu, þar sem þúsundir ferðamanna leggja leið sína á svæðið og njóta þar afþreyingar og þjónustu með tilheyrandi tekjuauka fyrir þjónustuaðila og Reykjavíkurborg. Stækkun griðasvæðis og hvalaskoðunarsvæðis í Faxaflóa er því mikið hagsmunamál...,“ segir m.a. í bréfi Dags B. Eggertssonar. Jafnframt minnir hann á að samtök ferðaþjónustunnar hafi ítrekað lagt fram áþekkar áskoranir.