Sú var tíð, að ég reyndi að lesa allt það, sem birst hafði erlendis um bankahrunið íslenska 2008. Ég komst þá að því, að flest var það sótt til fámennrar innlendrar klíku, sem sjálf studdi skrif sín tilvitnunum í aðra úr sömu klíku.

Sú var tíð, að ég reyndi að lesa allt það, sem birst hafði erlendis um bankahrunið íslenska 2008. Ég komst þá að því, að flest var það sótt til fámennrar innlendrar klíku, sem sjálf studdi skrif sín tilvitnunum í aðra úr sömu klíku. Þetta var ekki sannleiksbraut, heldur hringekja. Saklausir erlendir blaðamenn höfðu samband við starfssystkini sín á RÚV og öðrum fjölmiðlum, og þau vísuðu þeim á Þorvald Gylfason, Stefán Ólafsson, Gylfa Magnússon, Katrínu Ólafsdóttur, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, Baldur Þórhallsson, Vilhjálm Árnason og aðra slíka spekinga. Þetta fólk sagði blaðamönnunum í stórum dráttum hið sama: Íslendingar eru fákænir skussar og margir hverjir spilltir, en verstur er Davíð Oddsson. Og blessaðir blaðamennirnir sneru sannfærðir heim til sín. Hvernig gátu þeir vitað, að þeir heyrðu aðeins bergmál, ekki raddir?

Líklega væri réttasta samheitið um þetta fólk Hrunmangarafélagið. Það hefur allt frá bankahruninu reynt eftir megni að gera sér mat úr því. Eins og hið alræmda Hörmangarafélag, sem hafði einkaleyfi á verslun við Ísland á átjándu öld, selur Hrunmangarafélagið skemmda vöru, en sá er munurinn, að Hörmangarafélagið prangaði henni upp á Íslendinga, en Hrunmangarafélagið á skipti sín við útlendinga. Líklega eru villurnar hjá Hrunmangarafélaginu þó jafnmargar og maðkarnir í mjöli Hörmangarafélagsins. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir fræddi útlendinga til dæmis á því, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði barist hart gegn leiðréttingum á kjördæmaskipan þéttbýlinu í vil. Stefán Ólafsson sagði Íslendinga hafa losnað undan nýlenduáþján Dana 1945. Þorvaldur Gylfason kvað Framsóknarflokkinn hafa fengið þingmeirihluta 1927. Katrín Ólafsdóttir upplýsti, að auk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu Rússar ásamt ýmsum öðrum þjóðum veitt Íslandi lán eftir bankahrun. Svo má lengi telja.

Öllum villum verra er þó, hvernig Hrunmangarafélagið reynir sífellt að tala Ísland niður. Íslendingar eru almennt ekki fákænir skussar. Þeir eru hvorki betri né verri en aðrar þjóðir, og á það líka við um íslenska bankamenn, embættismenn og stjórnmálamenn. Spilling er ekki heldur veruleg á Íslandi, þótt hvergi á byggðu bóli geti hún horfið, á meðan menn eru misjafnir og freistingar margar.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is