Berlín Íslenski básinn er staðsettur á sameiginlegu svæði Norðurlandanna.
Berlín Íslenski básinn er staðsettur á sameiginlegu svæði Norðurlandanna. — Ljósmynd/Íslandsstofa
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Þátttaka okkar í ár er sú langstærsta hingað til, en alls eru hérna 29 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og um 100 Íslendingar – það er því mikið fjör hérna,“ segir Sigríður Ragnarsdóttir, verkefnisstjóri ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, og vísar til þess að nú stendur yfir sýningin ITB, stærsta fag- og ferðasýning heims.

ITB-sýningin er haldin í Berlín í Þýskalandi og hófst hún síðastliðinn miðvikudag og lýkur á morgun, sunnudag. Að sögn Sigríðar sækja að jafnaði um 200.000 manns hátíðina sem haldin er ár hvert. En meðal þeirra sem þátt taka í íslenska básnum eru fulltrúar frá ferðaskrifstofum, hótelum, afþreyingarfyrirtækjum og flugfélögum.

„Þetta er alþjóðleg sýning svo hingað kemur fólk frá öllum heimshornum. Íslenski básinn er staðsettur á sameiginlegu sýningarsvæði allra Norðurlandanna og hefur verið afar vel sóttur og vakið um leið mikla eftirtekt,“ segir Sigríður og bendir á að allt markaðsstarf á vegum Íslandsstofu er undir merkjum Inspired by Iceland.

Almenn jákvæðni ríkjandi

Aðspurð segir hún íslenska hópinn fá fátt annað en jákvæðar athugasemdir frá erlendum gestum. „Ég hef átt fundi með mjög mörgum ferðaheildsölum og hef í raun ekki fengið neitt annað en jákvæð viðhorf. Menn minnast þó sumir á hve erfitt það sé að fá gistingu á suðvesturhorni landsins, en þá reynum við að beina fólki annað og ferðast víðar og allt árið um kring,“ segir hún og nefnir t.a.m. Aust- og Vestfirði í því samhengi.

Nokkuð hefur verið í umræðunni að Ísland sé orðið afar dýr staður til að sækja heim. Sigríður segir fáa kvarta undan háu verðlagi. „Í huga Þjóðverja er Ísland dýr áfangastaður og þeir gera ráð fyrir því, en Ísland þykir sérstakt og fyrir það vilja margir greiða.“