Friðrik Þór Gunnarsson
Friðrik Þór Gunnarsson
Friðrik Þór Gunnarsson, hagfræðinemi við Háskóla Íslands, var í gær kjörinn formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á aðalfundi félagsins sem fór fram í Valhöll.

Friðrik Þór Gunnarsson, hagfræðinemi við Háskóla Íslands, var í gær kjörinn formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á aðalfundi félagsins sem fór fram í Valhöll. Elísabet Inga Sigurðardóttir var kosin varaformaður félagsins og með þeim í stjórn verða þau Aron Freyr Lárusson, Einar Karl Jónsson, Jafet Máni Magnúsarson, Jónína Sigurðardóttir, Kristín Lilja Sigurðardóttir, Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir, Oddur Þórðarson, Steinar Ingi Kolbeins, Vaka Vigfúsdóttir og Þorsteinn Friðrik Halldórsson sem gáfu kost á sér til stjórnarsetu fyrir hönd framboðs Friðriks og Elísabetar.

Framboðið vann afgerandi sigur í kosningunum með 70,37% greiddra atkvæða gegn 29% sem féllu í hlut Lísbetar Sigurðardóttur og framboðslista hennar.

Tveir listar voru í framboði en Albert Guðmundsson, fráfarandi formaður félagsins, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Félagið fagnar 90 ára afmæli í ár og verður blásið til veislu í Valhöll í dag af því tilefni. Þar mun Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars flytja hátíðarræðu og fráfarandi formaður Heimdallar veitir gullmerki félagsins.