Athur Jarmoszko
Athur Jarmoszko
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir á litlu vera að byggja í grennslan eftir Artur Jarmoszko, sem lýst var eftir í fyrradag. Síðast er vitað um ferðir hans rétt fyrir miðnætti 1. mars þegar hann sást í öryggismyndavélum í Lækjargötu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir á litlu vera að byggja í grennslan eftir Artur Jarmoszko, sem lýst var eftir í fyrradag. Síðast er vitað um ferðir hans rétt fyrir miðnætti 1. mars þegar hann sást í öryggismyndavélum í Lækjargötu. Meðal annars hefur verið rætt við ættingja og vini Arturs.

Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi sagði í gær að ekki væri hafin skipulögð leit að Arturi, en bjóst við að lögreglan ynni um helgina í þessu máli. Meðal annars hefur tölva Arturs verið skönnuð, með það fyrir augum að finna upplýsingar sem gagnast gætu lögreglu.

Artur Jarmoszko, sem hefur búið á Íslandi um nokkurt skeið, er 25 ára, grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sm á hæð og með græn augu. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna.