Það er merkilegt hvernig veðrið getur sameinað fólk, bæði gott veður og slæmt veður eins og sannaðist í snjókomunni miklu nýverið. Í götunni hjá Víkverja fóru allir út að morgni sunnudagsins 26.

Það er merkilegt hvernig veðrið getur sameinað fólk, bæði gott veður og slæmt veður eins og sannaðist í snjókomunni miklu nýverið. Í götunni hjá Víkverja fóru allir út að morgni sunnudagsins 26. febrúar að virða fyrir sér náttúruundrið, hálfan metra af nýföllnum snjó. Börn og fullorðnir sameinuðust við leik og störf í þessu einstaklega fallega veðri, sól og logni.

Snjórinn lá eins og hjúpur yfir öllu og var nauðsynlegt að vaða snjóinn upp á mið læri til að komast leiðar sinnar. Víkverji fór út með börnum sínum að leika og upplifði barnslega gleði þegar hann lét sig falla á bakið djúpt ofan í snjóinn. Snjóbreiðan var enn meira ævintýri fyrir börnin enda þau töluvert lægri í loftinu en fullorðna fólkið.

Víkverji spjallaði við alla nágrannana enda lá engum á að komast í burtu þar sem það var sunnudagur. Fólk hófst handa við að moka innkeyrslurnar og leita að bílunum sínum undir snjóbreiðunni. Sáu einhverjir eftir því að hafa ekki fjárfest í snjóblásara.

Síðasta skiptið sem álíka margir nágrannar streymdu út á götu var í tengslum við EM í knattspyrnu síðasta sumar, eftir frækinn sigur strákanna okkar á Englendingum. Þá var gatan líka full af fólki að spjalla og fagna saman.

Það er eitthvað við svona ótrúlega viðburði sem lætur fólk langa til að deila þeim með öðrum. Þeir verða einhvern veginn sannari og dýpri í sameiginlegri upplifun.

Núna er snjórinn orðinn að hálfgerðu slabbi og allt nýjabrum farið af honum. Það var ágætt að fá hann eftir þennan góða vetur en nú er bara kominn tími á vorið. Þá streymir fólkið út á ný með tilheyrandi grillilmi og garðslætti.