Guðjón Finnbogason fæddist 2. desember 1927. Hann lést 26. febrúar 2017.

Útför Guðjóns fór fram 10. mars 2017.

Í dag kveð ég hinstu kveðju kæran vin til margra áratuga. Leiðir okkar Guðjóns hafa víða legið saman og þótt aldursmunur hafi verið þó nokkur höfum við alla tíð verið bundnir traustum og einlægum vináttuböndum. Allt frá því ég man fyrst eftir mér sparkandi bolta var Guðjón mitt helsta átrúnaðargoð og fyrirmynd, mér fannst hann hafa alla þá kosti til að bera sem prýða frábæran íþróttamann. Átti sú trú mín aðeins eftir að styrkjast með árunum og kom í ljós að hann var ekki síðri fyrirmynd á öðrum sviðum með alla sína miklu mannkosti.

Á árum áður skiptust knattspyrnumenn á Skaga í tvær fylkingar, KA og Kára og vorum við Guðjón báðir í KA. Hann var mikill vinur okkar litlu pollanna og var óþreytandi að segja okkur til. Á þessum árum var Guðjón einn af okkar bestu knattspyrnumönnum, hann vann fimm Íslandsmeistaratitla með gullaldarliði ÍA og var lengi í landsliðinu. Síðan tók hann við þjálfun liðsins og vann það m.a. Íslandsmeistaratitil undir hans stjórn árið 1960. Þjálfarastarfinu sinnti Guðjón af mikilli ósérhlífni og þáði aldrei krónu í laun fyrir það starf frekar en mörg önnur störf sem hann vann fyrir íþróttahreyfinguna og önnur félagasamtök. Síðar gerðist hann knattspyrnudómari og var m.a. lengi alþjóðlegur dómari.

Guðjón vann lengst af í hinni gamalkunnu Axelsbúð á Akranesi og þar áttum við eftir að binda okkar vináttubönd enn fastar, því þar vann ég í jóla- og sumarleyfum í rúm 10 ár allt frá 13 ára aldri. Það voru skemmtilegir tímar, andrúmsloftið einstakt því þarna var einn helsti samkomustaður margra bæjarbúa. Í landlegum söfnuðust trillukarlar þar saman og fengu sér í tána og var þá oft glatt á hjalla. Þá var það gjarnan Guðjón sem með sinni fumlausu framkomu sá til þess að allt færi vel fram, ef brjóstbirtan var farin að hafa helst til mikil áhrif á einhvern gestanna var séð til þess að sá hinn sami hyrfi hægt og hljótt af vettvangi. Annað sem varð mér sem unglingi í Axelsbúð mikil fyrirmynd var það hversu strangheiðarlegur Guðjón var í öllum viðskiptum.

Á unglingsárum mínum stunduðum við Guðjón grásleppuútgerð saman skamma hríð. Hafði ég sagt honum að ég hefði verið á grásleppu með afa Nesa sem barn en oft verið svo illa haldinn af sjóveiki að hann hefði sett mig á land upp í þarann á Flösinni fremur en að hafa mig ælandi um borð. Guðjón taldi að sjóveikin færi fljótt af mér ef ég yrði eigin atvinnurekandi og við skyldum bara kaupa okkur trillu saman sem við gerðum. Hafði hún á sínum tíma verið smíðuð af Örnólfi Sveinssyni bátasmið en við sjósetningu tókst ekki betur til en svo að trillan skall í jörðina og hællinn brotnaði, fékk hún þá samstundis nafnið Örnólfur hælbrjótur í munni gárunganna. Útgerð okkar entist aðeins eitt sumar því það reyndist ekki fara vel saman að stunda sjóinn og leika knattspyrnu. Guðjón átti samt bátinn áfram og var alltaf auðsótt að fá hann lánaðan til að ná sér í soðið.

Genginn er góður maður en minningarnar lifa og munu ylja um ókomin ár. Votta ég aðstandendum Guðjóns mína dýpstu samúð.

Jóhannes Guðjónsson.

Ég var ekki hár í loftinu þegar ég byrjaði fyrst að umgangast Guðjón, bara strákpatti. Þá var Guðjón búinn að vinna í áratugi í verslun á Akranesi og þar setti hann mikinn svip á lífið og umhverfið í kring. Við Guðjón unnum saman hátt í þrjátíu ár í sömu versluninni, sem var Verslunin Axel Sveinbjörnsson ehf. Það var 1943 sem Guðjón byrjaði að vinna í Axelsbúð, eins og hún var almennt kölluð og þar vann hann allan sinn starfsferil, fimmtíu og sex ár. Guðjón var vinsæll í versluninni og það voru margir viðskiptavinir sem vildu aðeins leita til hans.

Það eru ekki margir sem eru svona traustir að starfa hjá sama fyrirtækinu í meira en hálfa öld. Guðjón var mjög traustur maður og ábyggilegur. Enda var Guðjón „hægri hönd“ afa míns, Axels Sveinbjörnssonar. Guðjón var mér alltaf góð fyrirmynd. Ég leit alltaf upp til hans og hann kenndi mér margar góðar lífsreglur sem eru ekki kenndar á skólabekk. Það var mikill skóli að umgangast Guðjón daglega, í tæp þrjátíu ár.

Guðjón var alltaf jafn léttur á sér. Maður hugsaði oft, hann gæti verið allavega 10 til 15 árum yngri. Alltaf jafn kvikk og þjónustulundina vantaði ekki hjá honum. Hann hugsaði vel um viðskiptavinina. Hann passaði alltaf upp á það, að varan væri til, svo að viðskiptavinir færu út með bros á vör. Viðskiptavinir áttu það til að hringja í Guðjón að nóttu til, ef þeir ákváðu að fara á sjóinn og vantaði sjógalla. Þá mætti Guðjón, hvenær sem var sólahrings og afgreiddi þá. Í Axelsbúð var bekkur sem var oft þétt setinn af viðskiptavinum. margt rætt og meðal annars fótboltinn. Þar sem Guðjón var alltaf hinum megin við afgreiðsluborðið var alltaf mikið líf í umræðunum. Ég tala nú ekki um þegar fótboltinn var ræddur.

Hér er bara stiklað á stóru, eftir langan og góðan starfsferil.

Að lokum vill ég vill þakka fyrir þá góðu vináttu sem Guðjón sýndi mér í alla þá áratugi sem við þekktumst og unnum saman.

Vil ég að lokum votta ástvinum Guðjóns einlægustu samúð.

Axel Gústafsson.

Látinn er á Akranesi Guðjón Finnbogason á 90. aldursári.

Ekki er að efa að heimur okkar hefði verið betri og farsælli hefðu fleiri verið í hátt og viðmóti eins og Guðjón Finnbogason. Prúðmennskan, réttsýnin, mildin og glæsileikinn beinlínis stafaði af honum hvar sem hann fór hvort sem það var í einkalífi, starfi eða á knattspyrnuvellinum. Hann var einn af máttarstólpum gullaldarliðs Akurnesinga í knattspyrnu um miðbik síðustu aldar, einn af þessum ellefu sem hlupu hver með annan á bakinu á Langasandi til að styrkja fótvöðvana og geta sparkað fastar og betur. Það skilaði líka árangri, sem þegar hefur verið skráður á spjöld sögunnar. Hann var líka einlægur aðdáandi íþróttarinnar allt til hinzta dags og fylgdist gjörla með öllum helztu viðburðum jafnt á lands- sem á heimsvísu.

Guðjón var skapfestumaður þrátt fyrir ofangreinda mannkosti en engu að síður sanngjarn og viðræðugóður. Hann var góður krati, ekki sízt á meðan þeir voru auðfundnir á landsins yfirborði, en einhvern veginn fannst manni hann aldrei vera tiltakanlega pólitískur. Þar hefur hans sterka dómgreind og skarpa hugsun ráðið miklu um.

Guðjón var kvæntur frænku minni, Helgu Sigurbjörnsdóttur, sem fallin er frá fyrir nokkrum árum. Hann var mikil fjölskyldumaður, sannur Akurnesingur og vildi hvergi annars staðar frekar búa. Þannig var hann á sinn hátt nokkuð vanafastur, sem var aðeins einn margra mannkosta hans. Hjá þeim hjónum var gott að eiga athvarf og ánægjuauki að rækta tengslin í gegnum áratugina.

Gullaldarliðsmaðurinn af Skaganum var sannarlega gull af manni. Það er mér mikill heiður að hafa kynnst þessum drenglynda ágætismanni á langri vegferð. Minningin um farsæl kynni við sannan heiðursmann er ljúft að geyma sér í hug til efsta dags.

Sverrir Ólafsson.

Kynni mín af Guðjóni Finnbogasyni spanna yfir 70 ár, fyrst í gegnum bróður hans Pálma, en við erum fermingarbræður, en þá áttu þeir heima í Lindarbrekku, litlu húsi á Vesturgötu hér á Akranesi.

Seinna kynntist ég Guðjóni betur eftir að hann giftist systur minni Helgu 3. október 1953.

Við Lára áttum margar skemmtilegar stundir saman með Guðjóni og Helgu, bæði hér heima og á Spáni þar sem þau áttu lítið sumarhús.

Guðjón gat verið meinfyndinn og sagði hann þá sögur af sérstökum mönnum, oftast trillukörlum sem komu í Axelsbúð, sátu þar á bekk með pilsner og Prins Póló og ræddu heimsmálin.

Guðjón starfaði allan sinn starfsferil í Axelsbúð, eða frá 1943 til 1999, í 57 ár. Ég held að það sé algert einsdæmi að maður starfi í tæp 60 ár, allan sinn starfsaldur, á sama stað og tel þetta sýna skaphöfn Guðjóns því hann var mikill mannkostamaður, stálheiðarlegur, trygglyndur, samviskusamur við allt sem hann tók sér fyrir hendur.

Guðjón var frábær starfsmaður, eldsnöggur við afgreiðslu og gjörþekkti allt sem þar var til sölu og var oft til þess tekið hvað þjónustan þar var góð.

Hann var einnig afskaplega hjálpsamur um afgreiðslu á efni eftir lokunartíma verslunarinnar t.d. ef sjómenn vantaði eitthvað um kvöld eða helgar.

Ég naut þessarar hjálpfýsi hans einnig oft er mig vantaði efni, þegar ég vann fram á kvöld og um helgar við að klára áríðandi verk. Aldrei vissi ég til þess að Guðjón krefðist greiðslu fyrir þessa þjónustu.

Áhugamál Guðjóns voru alla tíð íþróttir og ef ég man rétt þá byrjaði hann að æfa hnefaleika sem unglingur hjá Stefáni Bjarnasyni.

En knattspyrnan var hans aðaláhugamál og var hann einn af lykilmönnum í gullaldarliðinu svonefnda sem blómstraði frá 1950 til 1960.

Eftir að fótboltaferli hans lauk starfaði hann um tíma sem þjálfari, en þó lengst af sem knattspyrnudómari og náði hann að verða milliríkjadómari og dæmdi nokkrum sinnum erlendis.

En nú eru þeir horfnir allir frumkvöðlar gullaldarliðsins, þrír þeir síðustu, Ríkharður, Guðjón og Sveinn Teitsson með innan við mánaðar millibili.

Þegar Hildur Sigurðardóttir, ekkja Donna, sem er tvíburabróðir Helgu, konu Guðjóns, tilkynnti mér lát Sveins Teitssonar þremur dögum eftir lát Guðjóns þá varð henni að orði að það væri eins og almættið væri farið að lengja eftir því að gullaldarliðið kæmi allt yfir móðuna miklu og næði saman á ný til að hefja leik að nýju þarna hinumegin.

Að öllu gamni gengnu veit ég að Guðjón naut virðingar bæði meðal íþróttamanna og allra þeirra sem til hans þekktu.

Að lokum vil ég segja þetta við Margréti, Sigurð og Snorra, börn hans og Helgu

Enginn temur tímans vald

en tamt er því að gleyma.

Að dauðinn hér er aðeins tjald

á milli tveggja heima.

Hafsteinn Sigurbjörnsson.