— Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Nokkrir vaskir nemendur Menntaskólans á Akureyri ýttu (og drógu) fólksbíl Eyjafjarðarhringinn í gær í þágu góðs málstaðar. Góðgerðarvika er í skólanum og fé safnað með ýmsu móti til styrktar geðdeild Sjúkrahússins, m.a.
Nokkrir vaskir nemendur Menntaskólans á Akureyri ýttu (og drógu) fólksbíl Eyjafjarðarhringinn í gær í þágu góðs málstaðar. Góðgerðarvika er í skólanum og fé safnað með ýmsu móti til styrktar geðdeild Sjúkrahússins, m.a. með áheitum á þá sem fóru þessa frægðarför í gær. Lagt var í hann frá bílastæði við heimavistina í bítið. Leiðin lá inn að Hrafnagili, yfir brúna á Eyjafjarðará, upp langa brekku við Laugaland og þaðan aftur til Akureyrar austan yfir fjörðinn. Loka-„spretturinn“ var upp Gilið, framhjá Akureyrarkirkju og upp að Gamla skóla. Ferðin tók um fjórar og hálfa klukkustund. Í gærkvöldi höfðu safnast alls 810.000 krónur að sögn Björns Jónssonar, formanns Skólafélagsins Hugins.