Miklabraut Nýir göngu- og hjólastígar verða lagðir við Klambratún.
Miklabraut Nýir göngu- og hjólastígar verða lagðir við Klambratún. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn að bjóða út framkvæmdir sem eiga að auðvelda ferðir strætisvagna um Miklubraut.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn að bjóða út framkvæmdir sem eiga að auðvelda ferðir strætisvagna um Miklubraut.

Í fyrsta lagi var samþykkt að bjóða út framkvæmdir vegna nýrrar forgangsakreinar fyrir strætó á Miklubraut gegnt Klambratúni, lagningu á nýjum göngu- og hjólastígum og hljóðvarna. Framkvæmdatími er maí til október 2017. Í öðru lagi var samþykkt að bjóða út framkvæmdir vegna nýrrar forgangsakreinar fyrir Strætó á Miklubraut við Rauðagerði, lagningu á nýjum göngu- og hjólastíg og hljóðvarna. Framkvæmdatími er einnig maí til október.

Nýir göngu- og hjólastígar

Fram kemur í bréfi skrifstofu framkvæmda og viðhalds til borgarráðs að nýja forgangsakreinin fyrir Strætó á Miklubraut gegnt Klambratúni muni liggja til austurs, milli Rauðarárstígs og Lönguhlíðar.

Jafnframt verður lokað fyrir akstur inn á Miklubraut frá Reykjahlíð og komið fyrir biðstöð Strætó, þar sem nú eru gatnamót Reykjahlíðar og Miklubrautar. Beggja vegna Miklubrautar verða gerðar hljóðvarnir. Norðan Miklubrautar, við Klambratún, verður komið fyrir nýjum göngu- og hjólastígum. Þá verður götulýsing endurnýjuð eftir þörfum og veitulagnir endurnýjaðar. Kostnaður við verkið í heild er áætlaður 350 milljónir króna og er hlutur borgarinnar af þeirri upphæð 170 milljónir.

Hin nýja forgangsakrein fyrir Strætó við Rauðagerði mun liggja frá göngubrú við Skeiðarvog til austurs að rampa að Reykjanesbraut. Komið verður fyrir hljóðvörnum úr jarðvegi og grjótbúrum til að minnka hávaða frá umferð í og við íbúðarbyggðina við Rauðagerði. Innan við hljóðvarnir verður komið fyrir nýjum göngu- og hjólastígum. Áætlaður kostnaður er 213 milljónir, þar af hlutur borgarinnar 100 milljónir.

Þessar framkvæmdir eru samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og Veitna ohf.