Reiturinn Svona mun horn Laugavegs og Frakkastígs líta út.
Reiturinn Svona mun horn Laugavegs og Frakkastígs líta út. — Tölvuteikning/Út Inni arkitektar
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Á svokölluðum Frakkastígsreit, milli Laugavegs og Hverfisgötu, hafa staðið yfir miklar byggingaframkvæmdir sem vakið hafa athygli þeirra sem lagt hafa leið sína í Miðbæinn.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á svokölluðum Frakkastígsreit, milli Laugavegs og Hverfisgötu, hafa staðið yfir miklar byggingaframkvæmdir sem vakið hafa athygli þeirra sem lagt hafa leið sína í Miðbæinn.

Fram kemur í frétt á vef Reykjavíkurborgar að verkið sé vel á veg komið en Blómaþing ehf., sem er framkvæmdaraðili á reitnum, reikni með að ljúka uppbyggingunni um næstu áramót.

„Uppbyggingin er hluti af viðamiklum skipulagsbreytingum og endurgerð reita á milli Laugavegar og Hverfisgötu en þar standa nú yfir miklar framkvæmdir,“ segir í fréttinni á vef borgarinnar.

Verslanir og veitingahús

Á Frakkastígsreit eru í byggingu 67 litlar og meðalstórar íbúðir sem munu tengjast skjólgóðum, lokuðum garði, samkvæmt upplýsingum Þórs Þráinssonar, verkefnisstjóra hjá Blómaþingi. Á götuhæðum bygginganna sem snúa að Laugavegi, Frakkastíg og Hverfisgötu verða verslanir, veitingahús og fjölbreytt þjónusta. Á reitnum í heild verða 5-6 verslunarpláss, þar af eru þrjú í leigu nú þegar. Veitingastaðirnir verða tveir. Í húsum við Laugaveg verða hótelíbúðir á efri hæðum, 23 að tölu. Hótelið mun bera nafnið 41. A Town House Hotel.

Íbúðirnar 67 á reitnum skipast þannig milli húsa:

Laugavegur 41a: 8 íbúðir 70-90 fermetrar, Hverfisgata 58-60: 16 íbúðir 70-90 fermetrar. Hverfisgata 62: 18 íbúðir 50-60 m 2 , 1 íbúð 85m 2 og 3 íbúðir 110m 2 , Frakkastígur 8: 17 íbúðir 50-60 m 2 , 2 íbúðir 120 m 2 , 1 þakíbúð 110 m 2 og 1 þakíbúð 130 fermetrar.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort þessar íbúðir fari á almennan markað.

Á Frakkastígsreitnum stóðu eldri steinhús, sem voru rifin, það elsta frá 1925. Í þessum húsum voru veitinga- og skemmtistaðir, t.d. Vegas og ObladíOblada, svo tveir þeirra séu nefndir.

Á síðasta áratug, á árunum fyrir efnahagshrunið, voru hugmyndir um að byggja nýjar höfuðstöðvar Listaháskóla Íslands á Frakkastígsreitnum og haldin var samkeppni meðal arkitekta. Úr þeim áformum varð ekki.