Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Á fyrstu tíu vikum ársins sóttu alls 168 manns um hæli hér á landi. Í febrúar sl. voru hælisleitendur 71 af 20 þjóðernum, en til samanburðar sóttu 38 manns um hæli á Íslandi í sama mánuði í fyrra.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Á fyrstu tíu vikum ársins sóttu alls 168 manns um hæli hér á landi. Í febrúar sl. voru hælisleitendur 71 af 20 þjóðernum, en til samanburðar sóttu 38 manns um hæli á Íslandi í sama mánuði í fyrra. Það sem af er mars hafa 30 hælisleitendur komið hingað, samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun.

Fjöldi hælisumsókna á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs var samanlagður 138, en það er rúmlega 50% fleiri umsóknir en á sama tíma í fyrra. Þessi mikli fjöldi umsókna á fyrstu vikum ársins þykir benda til þess að heildarfjöldi hælisumsókna fari fram úr tölum síðasta árs, en þá komu hingað 1.132 hælisleitendur.

Flestir hælisleitendur í febrúar sl. komu frá Albaníu, 18 talsins, og Írak, alls níu. Þá komu sex frá Kósovó og fimm frá Makedóníu, en 41% hælisleitenda komu frá Balkanríkjum.

Umsækjendur voru í langflestum tilfellum karlkyns, 75%, og voru 83% fullorðnir einstaklingar. Þá sögðust þrír vera fylgdarlaus ungmenni.

Balkanríkin koma seinna

Langflestir þeirra sem sóttu um hæli í fyrra, eða rúmlega 60%, komu frá Albaníu og Makedóníu, sem bæði eru skilgreind sem örugg ríki.

„Reynsla okkar og annarra Evrópuríkja sýnir að það er mjög mikil árstíðarsveifla í komu fólks frá Balkanríkjum. Þessir hópar koma með haustinu,“ segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, spurð hvort búast megi við færri hælisumsóknum frá einstaklingum frá Balkanskaga. „Þær tölur sem nú eru komnar fram frá þessum hópi segja lítið sem ekkert til um ástandið í haust.“

Írökum gæti fjölgað enn frekar

Arndís A.K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins, segir marga þeirra Íraka sem hingað koma vera Kúrda. „Umsóknum frá Írak hefur fjölgað undanfarna mánuði, en í flestum tilfellum hafa þeir haft viðkomu í öðru Evrópuríki áður en þeir koma hingað,“ segir hún og bendir á að margir þeirra hafi fengið lokasynjun um hæli á Norðurlöndunum og haldi þá hingað í von um tækifæri.

„Þetta fólk getur ekki snúið aftur heim því ástandið í Írak virðist fara versnandi. Ef önnur lönd halda áfram að synja þessum hópi má búast við að þeir komi í meira mæli hingað,“ segir hún, en nú eru alls um 600 hælisleitendur í landinu.