Sterkur Bjarki Már Gunnarsson, á miðri mynd, var akkerið í vörn á HM.
Sterkur Bjarki Már Gunnarsson, á miðri mynd, var akkerið í vörn á HM. — Ljósmynd/Foto Olimpik
Uppgjör Ívar Benediktsson iben@mbl.is Þrátt fyrir að íslenska karlalandsliðið hafi hafnað í 14. sæti á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar þá léku fá eða engin lið betri varnarleik í keppninni. Þetta sagði Geir Sveinsson landsliðsþjálfari m.a.

Uppgjör

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Þrátt fyrir að íslenska karlalandsliðið hafi hafnað í 14. sæti á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar þá léku fá eða engin lið betri varnarleik í keppninni. Þetta sagði Geir Sveinsson landsliðsþjálfari m.a. í erindi sem hann flutti á opnum fundi sem Handknattleikssamband Íslands og Arion banki stóðu fyrir síðdegis og er einn liður í 60 ára afmæli sambandsins á þessu ári. Geir studdi mál sitt með ítarlegri tölfræði þar sem kom skýrt fram að íslenska liðið fékk á sig einna fæst mörk allra liða í mótinu samanborið við nokkur þeirra liða sem lengst náðu í mótinu. Einnig fékk liðið á sig einna flest aukaköst í keppninni.

Geir hefur allt frá því að heimsmeistaramótinu lauk legið yfir og greint leik íslenska landsliðsins á mótinu í þaula.

Þrátt fyrir framúrskarandi varnarleik þá var markvarsla íslenska landsliðsins nokkuð frá því að geta talist viðunandi, eða um 29% hlutfallsmarkvarsla. Því miður er sú staðreynd gömul og ný að íslenskir markverðir hafa lengi átt erfitt uppdráttar á stórmótum þótt vissulega hafi þeir átt góð mót og má þar nefna Ólympíuleikana 2008 og Evrópumeistaramótið tveimur árum síðar. Á báðum mótum vann íslenska landsliðið til verðlauna.

Greining Geirs á kostum og göllum íslenska landsliðsins var afar athyglisverð og svo sem efni í mikið lengri pistil en þennan. Þar kom fram að þriðjungur marka íslenska landsliðsins í mótinu var skoraður eftir hraðaupphlaup eða snöggt upphlaup á varnir andstæðinganna. Einnig var íslenska landsliðið í fremstu röð varðandi varnarleikinn. Þetta er ánægjuleg staðreynd þar sem þetta atriði í sóknarleiknum hefur risið á nýjan leik eftir nokkra lægð. Á blómaskeiði íslenska landsliðsins fyrir fáeinum árum voru hraðar sóknir og hraðaupphlaup eitt helsta vopn þess. Íslenska landsliðið á EM í Svíþjóð, undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, var eitt fyrsta landslið heims til að tileinka sér „hraða miðju“. Næsta áratuginn á eftir var íslenska landsliðið án vafa eitt skemmtilegasta hraðaupphlaupslandslið heimsins. Vel æfð og útfærð hraðaupphlaup íslenska landsliðsins voru eins og svipuhögg á andstæðingana sem stóðu á stundum ráðþrota þegar leikmenn ruku fram völlinn með hraða sínum og útsjónarsemi.

Sóknarleikur í lamasessi

Ekki var þó allt jákvætt sem kom fram hjá Geir. Sóknarleikurinn var að ýmsu leyti í lamasessi þótt hröðu sóknirnar hafi verið vel lukkaðar. Íslenska landsliðið tapaði boltanum mun ofar en samanburðarliðin og kom færri skotum á markið í uppstilltum sóknarleik. Á þessu og markvörslu undir pari töpuðust leikirnir, þar urðu jafnteflin til. Hefði íslensku leikmennirnir gert tveimur eða þremur færri mistök í heildina yfir keppnina og markverðirnir varið tveimur fleiri skot í leik má með rökum telja að íslenska landsliðið hefði náð öðru sæti í sínum riðli, en ekki fjórða, og þá e.t.v. fengið aðeins viðráðanlegri andstæðing en Frakka á heimavelli fyrir framan 28 þúsund manns í 16-liða úrslitum.

Tölfræði er mikilvægur liður í íþróttum til þess að kryfja frammistöðu leikmanna og liða með það fyrir augum að taka framfaraskref. Keppni fremstu íþróttamanna og íþróttaliða verður jafnari með hverju árinu sem líður. Bilið á milli þeirra slakari og betri er alltaf að minnka. Vinna með tölfræði á þann hátt sem Geir hefur tamið sér er einn liður í þeirri vinnu sem hann og margir aðrir sinna til þess að viðhalda þeirri stöðu sem íslenska karlalandsliðið í handknattleik hefur haft á alþjóðlegum vettvangi undanfarin mörg ár.

Endurnýjun á landsliðshópnum hófst undir stjórn Geirs. Um hana hefur verið fjallað á þessum vettvangi áður. Fyrstu skrefin voru ágæt þótt vissulega hafi sumir nýliðanna stundum hlaupið á vegg í keppninni. Það mikilvæga var að nýliðum og öðrum sem voru í nýjum hlutverkum var sýnd þolinmæði þótt það hafi e.t.v. þegar upp var staðið komið niður á tölfræðinni og þar af leiðandi komið í veg fyrir að uppskera liðsins væri betri en 14. sætið. Liðið slapp að minnsta kosti við 16. sætið sem lengi hefur fylgt Íslendingum í annarri keppni.

Áframhaldandi uppbygging

Geir mun vafalaust gefa fleiri nýliðum tækifæri í komandi verkefnum þótt hann eigi ekki eins auðvelt með það, því hafi hver mistök verið dýr á HM þá verða þau enn dýrari í undankeppni EM þar sem krafan er að landsliðið ljúki undankeppni EM með því að tryggja sér sæti í lokakeppninni sem fram fer í Króatíu í janúar. Takist það verður um að ræða fertugustu lokakeppni íslensks A-landsliðs í handknattleik frá árinu 1958. Í margra augum er slíkur árangur varla fréttnæmur lengur þótt það þyki í öðrum greinum. Eða eins og Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðingur velti upp í fróðlegu erindi sínu á fundinum í gær: Getur verið að handboltinn á Íslandi sé orðinn fórnarlamb eigin velgengni?