Hella Flugbjörgunarsveitin á Hellu stendur í stórræðum. Verið er að stækka húsið og nýr sérútbúinn bíll á leiðinni.
Hella Flugbjörgunarsveitin á Hellu stendur í stórræðum. Verið er að stækka húsið og nýr sérútbúinn bíll á leiðinni. — Morgunblaðið/Óli Már Aronsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr Bæjarlífinu Óli Már Aronsson Hellu Sveitagrill Míu heitir veitingavagn Stefaníu Björgvinsdóttur og Stefáns Ólafssonar, sem búa á Hellu. Þau gera út vagninn á Skógum undir Eyjafjöllum, steinsnar frá Skógafossi.

Úr Bæjarlífinu

Óli Már Aronsson

Hellu

Sveitagrill Míu heitir veitingavagn Stefaníu Björgvinsdóttur og Stefáns Ólafssonar, sem búa á Hellu. Þau gera út vagninn á Skógum undir Eyjafjöllum, steinsnar frá Skógafossi. Þar er eingöngu seldur fiskur og franskar eða „Fish & chips“. Þau hafa verið með vagninn á Skógum sl. 2 ár og nú er svo komið að TripAdvisor-ferðamannasíðan, sem er orðin hálfgerð biblía ferðaiðnaðarins, hefur gefið það út að Sveitagrill Míu sé einn vinsælasti veitingastaður landsins skv. umsögnum viðskiptavina síðunnar.

Athafnamaðurinn Steinn Ólason hefur sótt um lóðir fyrir 40 íbúðir á Hellu. Á fundi sveitarstjórnar 8. mars sl. var umsóknin samþykkt og úthlutað 10 raðhúsalóðum eða öllum lausum lóðum við Skyggnisöldu, Snjóöldu og Sporðöldu. Að sögn Steins stendur nú yfir arkitektavinna við hönnun með tilliti til útlits og mismunandi stærða á íbúðunum. Áætlað er að íbúðirnar verði á stærðarbilinu 50-100 fermetrar og að þar verði um að ræða bæði íbúðir til leigu og sölu. Fyrirhugað er að byggja góð og hugguleg einingahús sem verði á hóflegu verði. Hafist verður handa með vorinu þegar byggingarleyfi hafa verið staðfest.

Önnur lóðaúthlutun var samþykkt á fundi sveitarstjórnar, en þar lá fyrir umsókn frá Hugo ehf. um lóðina Rangárbakka 4, á milli Árhúsa og Vörufells á eystri bakka Ytri-Rangár. Sótt er um lóðina með það að markmiði að byggja þar gistihús og var umsóknin samþykkt. Að sögn forsvarsmanns þess fyrirtækis eru plön ekki komin vel á veg varðandi gistihúsið, en fyrirtækið hefur nú þegar keypt íbúðarhús á Hellu til gististarfsemi.

Flugklúbbur Rangárþings hélt nýlega aðalfund sinn og er nýkjörinn formaður Guðni Ragnarsson á Guðnastöðum í A-Landeyjum. Í stuttu samtali við hann kom fram að hugmyndir eru hjá klúbbnum um að auka starfsemi á flugvellinum á Hellu, ásamt því að fá flugvöllinn á Hvolsvelli viðurkenndan og skráðan hjá flugmálayfirvöldum. Flugklúbburinn er að taka við sölu á flugvélabensíni á Hellu, en Olís er að hætta slíkri starfsemi á landsbyggðinni. Að auki er fyrirhugað að fyrirtækið Arctic Wings komi upp starfsemi með útsýnisflug frá Hellu, í viðbót við starfsemina á Selfossi í dag. Að auki má nefna að Fallhlífaklúbbur Reykjavíkur heldur úti svipaðri starfsemi í sumar á Helluflugvelli og áður.

Hótel Rangá kom færandi hendi í Grunnskólann á Hellu nýlega og gaf skólanum tvær saumavélar. Rekstrarstjórinn og yfirkokkurinn mættu í textilval skólans með þessa gjöf. Tilefnið var að þakka fyrir jólapoka sem nemendur í textilvali og miðstigi saumuðu fyrir hótelið á haustönninni. Þetta samstarf hefur staðið í nokkur ár og nú þegar er búið að semja um pokagerð fyrir næstu jól. Skemmtilegt samstarf.

Hellubíó er nú að taka miklum stakkaskiptum, en þar er verið að innrétta gistiherbergi sem verða um 20 talsins. Fyrirtækið Welcome apartments ehf. sem er eigandi Hellubíós hefur líka keypt fleiri eignir við Þrúðvang, bæði húsið sem hýsti áður Kristján X. og gamla sláturhúsið vestan við Þrúðvanginn, ásamt gistiheimilinu Brennu. Að sögn Stefáns Aðalsteinssonar, sem er einn eigenda, er þetta fjölskyldufyrirtæki og fyrirhugað að hafa ferðatengda starfsemi í öllum húsunum með tíð og tíma. Gistihúsið í Hellubíói hefur starfsemi í júní nk.

Flugbjörgunarsveitin á Hellu stendur í ströngu þessa dagana. Sveitin er að stækka hús sitt á Hellu um þessar mundir um nærri þriðjung og þar að auki er von á nýjum sérbúnum fjallasjúkrabíl, árgerð 2016. Eldri bíllinn sem sá nýi leysir af er orðinn um það bil aldarfjórðungs gamall og hefur skilað sínu hlutverki með miklum sóma. Þess má geta að húsnæði FBSH á Hellu er nýtt sem stjórnstöð á svæðinu fyrir Almannavarnir ef til náttúruhamfara kemur.