Ragnheiður Ólafsdóttir var fædd í Súðavík 28. desember 1927. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 24. febrúar 2017.

Ragnheiður var dóttir Ólafs Jónssonar kennara og skólastjóra í Súðavík og Margrétar Helgu Þorláksdóttur frá Saurum í Súðavík. Ragnheiður átti eldri systur, Ingibjörgu Marsibil, sem alltaf var kölluð Ebba, en hún er nú látin. Börn Ebbu eru: 1) Hildur sem á dótturina Lindu Báru. 2) Sigríður Hrönn sem á tvö börn og þrjú barnabörn: Öldu Björk sem á soninn Ezekiel Karl og Örvar Snæ sem á börnin Breka og Ísold. 3) Ólafur sem á þrjú börn og þrjú barnabörn. Aldísi Ýr sem á börnin Ragnheiði Helgu, Viktor Huga og Salóme Maríu. Hlyn Berg og Ívar Örn. 4) Margrét Guðrún sem á þrjú börn og eitt barnabarn. Sindra Hans, Gunnhildi Eik, sem á soninn Olav Svavar, Douglas Ben Elias. 5) Sigurjón Vífill sem á tvö börn. Andra og Birtu. Ragna, eins og hún var jafnan kölluð, var sjö ára þegar hún veiktist af lömunarveiki og lamaðist á báðum fótum og hægri hendi. Dvaldi hún nokkur ár vegna þess á sjúkrastofnunum án þess að ná bata. Hún bjó með foreldrum sínum meðan þau lifðu og síðustu ár sem móðir hennar lifði sá hún alfarið um heimili þeirra mæðgna. Ragna var mikil hannyrðakona hvort sem var að sauma út, hekla eða prjóna. Mörgum börnum í Súðavík kenndi hún að lesa áður en þau fóru í Barnaskólann. Ragna eignaðist bíl árið 1957 sem hún átti í nokkur ár og æfði sig að keyra en tók aldrei bílpróf. Hún fór til Noregs og hafði mikla ánægju af þeirri ferð. Einnig ferðaðist hún á bíl um landið. Þegar snjóflóðin féllu á Súðavík árið 1995 missti hún heimili sitt í snjóflóði. Í nýju byggðinni innar í þorpinu eignaðist hún nýtt hús sem hún flutti inn frá Kanada. Var það í fyrsta sinn sem hún komst í húsnæði sem var sniðið að hennar þörfum þá orðin 70 ára gömul. Fótbrotnaði hún nokkrum árum síðar, sem hafði það í för með sér að hún varð að nota hjólastól innanhúss. Áður hafði hún notast við koll til að komast um innanhúss. Síðustu tvö æviárin dvaldi hún á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík og lést þar.

Útför Rögnu fer fram frá Súðavíkurkirkju í dag, 11. mars 2017, klukkan 14.

Minningarnar eru margar sem koma upp í hugsann þegar ég kveð hana Rögnu móðursystur mína í hinsta sinn, en hún var eins og önnur mamma okkar systkinanna og tók þátt í öllu lífi okkar alla ævi. Mamma og Ragna sögðum við systkinin alltaf í æsku því þær voru alltaf nefndar báðar í sömu setningunni enda samgangur milli heimila þeirra ótal sinnum á hverjum degi. Það var alltaf gaman að vera nærri henni Rögnu og í æsku kenndi hún mér svo ótal margt. Hjá henni lærði ég að hekla og prjóna, spila rakka, Olsen Olsen og mörg fleiri spil. Henni féll aldrei verk úr hendi og hannyrðir hennar voru margar algjört listaverk. Upp í hugann koma hekluðu dúkarnir úr þessum líka fíngerða þræði sem og hekluðu gardínukapparnir og allur útsaumurinn. Stundum fékk hún vinnu við að spyrða bönd sem notuð voru þegar hengd var upp skreið og einnig hnýtti hún tauma sem voru notaðir á línuna í lóðabölunum. Við krakkarnir lærðum þetta ung að árum hjá henni og flestir sem kíktu til hennar gerðu þetta með henni meðan spjallað var saman. Það var alltaf gestkvæmt hjá henni Rögnu því fólk laðaðist að henni vegna þess að hún hafði svo hlýja og góða nærveru og svo var hún bara svo skemmtileg. Gestrisni var mikil á heimilinu og alltaf bakkelsi á borðum. Molakaffi var ekki hátt skrifað hjá henni. Það var sama hversu smátt og lítið við gerðum fyrir hana, alltaf var hún svo þakklát. Reyndar var það hún sem gerði svo ótal margt fyrir okkur en það fór aldrei hátt hjá henni þar sem hún var svo hógvær og nægjusöm.

Meðan mamma hennar, hún Magga amma mín, lifði komum við systkinin og fjölskyldur okkar ásamt mömmu alltaf til þeirra seint á aðfangadagskvöld og þá var hlaðborð af hnallþórum um miðnættið, fleiri ættingjar bættust oft í hópinn. það eru hlýjar og ljúfar minningar frá þessum tíma.

Eftir að Ragna missti mömmu sína færðist yfir á mitt heimili að fá að hafa hana og mömmu hjá okkur í kvöldverð á aðfangadagskvöldum og auðvitað voru svo hnallþórur síðar þau kvöld þegar ættingjar og vinir bættust svo í hópinn. Ég kveð þig, kæra Ragna, með söknuði og hjartað fullt af þakklæti fyrir allt í lífinu. Nú ertu komin í draumalandið.

Sigríður Hrönn

Elíasdóttir.