Áskell Torfi Bjarnason var fæddur í Lágadal Nauteyrarsókn, N-Ísafjarðarsýslu 14. september 1926. Hann lést 24. febrúar 2017.

Foreldrar hans voru þau Bjarni Bjarnason, f. 23. apríl 1889, d. 29. ágúst 1952, og kona hans Anna Guðrún Áskelsdóttir, f. 7. mars 1896, d. 24. febrúar 1977. Áskell var einn af 13 systkinum. Eftirlifandi systir hans er Ásta Vigdís, f. 1932. Hann kvæntist Önnu Guðnýju Jóhannsdóttur, f. 31. júlí 1928, þann 25. maí 1953. Hún er dóttir hjónanna Jóhanns Helgasonar, f. 30. desember 1891, d. 10. febrúar 1972, og Bergrúnar Árnadóttur, f. 3. október 1896, d. 25. júní 1972. Þau bjuggu að Ósi, Borgarfirði eystra. Anna átti þá dótturina Bergrúnu Jóhönnu Borgfjörð, f. 27. júlí 1948, d. 4. desember 2012. Eftirlifandi maki Jóhönnu er Ásgeir Arngrímsson, f. 3. apríl 1949. Bóndi í Brekkubæ Borgarfirði eystri.

Börn Önnu og Áskels eru: Árni, f. 6. febrúar 1953, maki Jóhanna Marín Jónsdóttir. Bjarni, f. 25. október 1954, maki Ingibjörg H. Sigurðardóttir. Guðmundur Sveinn, f. 13. október 1956, maki Þóra Bjarnadóttir. Guðni Torfi, f. 6. apríl 1959, sambýliskona Júlíana Hilmisdóttir, og Gestur, f. 6. júní 1961, maki Sigríður Kjartansdóttir.

Áskell stundaði ýmis störf til sjávar og sveita. Hann fór til Borgarfjarðar eystra árið 1952 með bróður sínum til að stunda sjómennsku. Þar hitti hann Önnu, konuefni sitt. Þau flutt til Vestmannaeyja og bjuggu þar í 10 ár. 1965 fluttu þau til Þorlákshafnar, þar sem þau áttu heima í tæp 50 ár. Síðustu árin áttu þau heima á hjúkrunarheimilinu Lundi, Hellu, og þar lést Áskell.

Útför Áskels Torfa fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 11. mars 2017, klukkan 14.

Okkur langar að minnast Ása, okkar elskulega tengdaföður með örfáum orðum.

Ási var ekki hávær maður samt var alltaf gleði í kringum hann, stutt í stríðnina og mikill húmoristi. Hann var ákaflega hlýr, hjálpsamur og góður tengdapabbi sem gaf mikið af sér.

Tengdaforeldrar okkar voru mjög samrýmd og náin hjón og voru Anna og Ási yfirleitt nefnd í sama orðinu. Það var mjög vinsælt hjá barnabörnunum að fara til ömmu og afa á Reykjarbrautinni meðan að þau bjuggu þar, sérstaklega var heiti potturinn vinsæll, kleinurnar hennar ömmu og kremkexið hans afa. Eins þótti okkur fullorðna fólkinu alltaf gott að koma í kaffi og spjall til þeirra, enda oft gestkvæmt á heimilinu og oft mikið fjör. Ási passaði að hundarnir okkar fengju harðfisk enda voru þeir miklir vinir hans. Það var til marks um umhyggju Ása að hann hringdi til að athuga með fólkið sitt ef það var á ferðinni í vondum veðrum eða t.d. úti á sjó.

Það var alltaf mjög heimilislegt og fínt hjá Önnu og Ása og var Ási alveg sérstakt snyrtimenni. Hann var jafnvígur til verka í garðinum sem í eldhúsinu og fór t.d. aldrei fram í stofu eftir matinn fyrr en öll verk voru búin. Þau afgreiddu heimilisverkin saman eins og flest annað sem þau gerðu. Ef við vorum að framkvæma, mála eða annað á heimilum okkar þá mættu þau bæði til að vinna með okkur óbeðin. Ási með sitt fínlega handbragð, hreinn og snyrtilegur svo hvergi sást á en Anna atorkusöm og kraftmikil en kannski ekki alveg eins fín!

Við eigum margar góðar minningar um samverustundirnar með þeim á Ósi, ættaróðalinu á Borgarfirði eystri. Þangað fóru þau öll sumur á meðan að heilsan leyfði og dvöldu í nokkra mánuði. Þá voru börnin okkar farin að sakna ömmu og afa mikið og orðin mjög spennt að hitta þau sem reyndar var gagnkvæmt. Þá voru ófáir slagirnir teknir við afa í ólsen ólsen eða þjóf.

Síðustu árin sem þau bjuggu í Þorlákshöfn eyddu þau jólahátíðinni með okkar fjölskyldum. Þau borðuðu á aðfangadag og gamlársdag hjá okkur og það var orðin alveg ómissandi hefð að halda upp á jól og áramót með ömmu og afa. Eftir að Anna fékk áfallið og heilsu hennar hrakaði var Ási hennar stoð og stytta, eins og hann reyndar var allt til dauðadags. Oft sagði Anna: „Ási gerir þetta, hann hefur bara gott af þessu.“ Það var okkur báðum ljúft og skylt að vera þeim innan handar og aðstoða þau meðan þau bjuggu á Egilsbraut 9. Alltaf var Ási þakklátur fyrir hjálpina þó að honum fyndist fyrirhöfnin of mikil og jafnvel óþörf. Þá kvaddi hann gjarnan með orðunum: „Takk fyrir, ljósið mitt.“

Nú hefur ljósið hans Ása tengdaföður okkar slokknað, hann hefur loksins fengið hvíldina eftir erfið veikindi.

Okkur langar að þakka starfsfólkinu á Egilsbraut 9 og dvalarheimilinu Lundi fyrir umönnunina, einstaklega góða vináttu og hlýhug í þeirra garð.

Blessuð sé minning þín, elsku Ási.

Þínar tengdadætur,

Sigríður og Þóra.

Elsku Ási afi.

Orð fá því ekki lýst hversu mikið mér þykir vænt um þig.

Það er ótrúlega erfitt að hugsa til þess að ég fái ekki að sjá þig aftur.

Þú kenndir mér svo margt um lífið og tilveruna. Þú kenndir mér mikilvægi þess að vera kurteis, góð við aðra og sýna öllum virðingu.

Dýravinur varstu mikill og mér fannst alltaf skemmtilegt þegar þú fræddir mig um hin ýmsu dýr, stór og smá. Við horfðum á marga dýraþætti saman og alltaf pössuðum við upp á að hafa súkkulaði í skál á milli okkar.

Húmorinn þinn var líka einstakur. Þú varst orðheppinn, áttir auðvelt með að slá á létta strengi og hafðir gaman af saklausri stríðni. Brandararnir komu þegar maður átti síst von á þeim og púkasvipurinn fylgdi alltaf með, sem ég mun aldrei gleyma. Þér fannst ekkert skemmtilegra en að skjóta aðeins á ömmu og hún hafði nú gaman af því líka.

Síðustu árin eftir að þið fluttuð frá Þorlákshöfn var ég dugleg að hafa samband við ykkur, bæði með heimsóknum og í síma – mér fannst svo notalegt að heyra í ykkur.

Samband ykkar ömmu var ótrúlega fallegt. Þið gátuð ekki án hvors annars verið og þú varst stoð hennar og stytta.

Ég er þakklát fyrir hvað við vorum ótrúlega náin og miklir vinir.

Við áttum saman skemmtilegar stundir og í dag geymi ég fullt af yndislegum minningum.

Takk afi minn, ég sakna þín svo mikið.

Bergrún.

Mikið sem ég sakna þín, elsku afi. Það var svo gaman að koma í heimsókn til þín og fá hjá þér afakex og mjólk. Alltaf áttir þú líka súkkulaði uppi í skáp, sagðist borða 100 kg af því á hverjum degi.

Þú varst mjög góður við mig og gafst þér mikinn tíma fyrir mig. Þegar ég var lítil kenndir þú mér margt, m.a. Olsen Olsen og leyfðir mér alltaf að vinna – jafnvel þótt ég svindlaði og gæfi mér fjórar áttur á hendi.

Það var svo fyndið þegar þú stríddir ömmu og komst með púkasvipinn þinn og lést tvo fingur við munninn, baugfingur og löngutöng. Þá svaraði amma fyrir sig en þú glottir og sagðir: Hún lætur stundum svona.

Þú varst alltaf glaður þegar ég kom í heimsókn að Lundi og fannst nauðsynlegt að Skuggi kæmi með. Þið voruð einstaklega góðir vinir og var hann alltaf ánægður að hitta þig og fá smá harðfisk.

Ég var heppin að fá að hafa þig öll þessi ár. Minningarnar lifa.

Þín afastelpa,

Kristrún.