Brúnaþungur Sigtryggur Berg Sigmarsson við teikniborðið.
Brúnaþungur Sigtryggur Berg Sigmarsson við teikniborðið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

„Sumar af þessum myndum eru verk sem ég sýndi úti í Belgíu árið 2013 með belgíska titlinum Maar ik zie de dingen anders og mig langaði til að sýna þessar myndir hérna og þýddi því þennan titil yfir á íslensku,“ segir Sigtryggur Berg Sigmarsson, myndlistar- og tónlistarmaður, sem opnar í dag kl. 17 einkasýninguna En ég sé hlutina öðruvísi í Gallery Port að Laugavegi 23b. Sigtryggur sýnir ný verk í bland við úrval verka af fyrrnefndri sýningu sinni í Galerie Tatjana Pieters í Gent í Belgíu.

Sigtryggur segir að sér þyki sýningartitillinn falleg setning. „Maður heyrði þetta oft sem krakki – ég veit ekki hvort þetta er mikið notað í dag – þegar fólk var að deila eða rífast. Þá heyrði maður þetta stundum: Já en ég sé hlutina öðruvísi!“ segir Sigtryggur og hlær. „Þetta getur táknað svo margt og ég var líka að pæla í því þarna úti, þegar ég var með þessa sýningu, að þetta hefði ég líka upplifað með sjálfan mig alveg frá því í æsku. Kannski var verið að skamma mann fyrir eitthvað sem maður vissi ekki alveg hvað var því maður upplifði það sem sjálfsagðan hlut,“ segir Sigtryggur.

Erfitt að teikna eftir pöntun

–Eru þá átök í þessum verkum eða kannski bara átök þín við sjálfan þig?

„Ja, það er nú alltaf eitthvað þannig, það eru m.a.s. líka átök í hedónisma,“ segir Sigtryggur og hlær. „En það eru náttúrlega svolítil átök að vinna myndlist, maður er svolítið berskjaldaður fyrir þessu.“

–Þetta eru teikningar og þá í anda ósjálfráðrar teikningar, er það ekki?

„Jú, jú, ég vinn þær yfirleitt alltaf þannig. Ég sest ekki niður og ætla að teikna hund. Ég hef fengið fyrirspurnir frá fólki sem ætlar að gefa út bók eða plötu um hvort ég vilji gera kápuna og er með ákveðna hugmynd um hvað ég eigi að teikna. Það hefur stundum gengið en mér finnst það rosalega erfitt, að setjast niður og eiga að teikna hund að dansa við kráku.“

Þægilegt að vinna einn

–Þarftu að koma þér í ákveðið stuð eða undirbúa þig með einhverjum hætti áður en þú byrjar að teikna?

„Já, yfirleitt er það tónlist sem setur tóninn og mér finnst líka þægilegt að vinna einn. Mörgum finnst ómögulegt að vinna einir, þurfa alltaf að vera í samskiptum við aðra á vinnustofunni, vera í einhverju spjalli eða álíka en ef ég þarf á slíku að halda opna ég bara tölvuna og sé hvað er að gerast á Facebook. Svo loka ég henni aftur og fer aftur inn í minn eigin heim,“ segir Sigtryggur. Honum þykir erfitt að hafa fólk í kringum sig þegar hann er að teikna.

–Þú gætir ekki verið götuteiknari með ferðamennina ofan í þér?

Sigtryggur skellihlær. „Neeeei, ég er viss um að fólk myndi ekki einu sinni vilja sjá það sem ég er að teikna.“

B-myndir og hryllingsmyndir

Sigtryggur segist hlusta á alls konar tónlist við listsköpunina, oft klassíska tónlist. En hefur hann komið auga á einhvers konar mynstur, t.d. að hann teikni með ákveðnum hætti þegar hann hlustar á Beethoven? „Jú, ég sé það. Ég gerði líka seríu þar sem ég teiknaði eftir verki John Cage, Variations II, vann í kringum ryþmann. Þegar kom þögn prófaði ég að taka snöggar strokur og hætti því þegar tónlistin byrjaði aftur. Ég sýndi þessi verk 2012 í galleríinu Kunstschlager og það var í eina skiptið sem ég vann eftir ákveðnu tónverki.“

Sigtryggur segir kvikmyndir líka veita honum mikla orku til listsköpunar og þá helst B-myndir og hryllingsmyndir. „En þá er það ekki að ég sé að reyna að teikna eftir einhverju sem ég sé heldur er þarna á ferðinni einhver orka eða fáránleiki sem ég soga í mig,“ segir hann.