— Morgunblaðið/Eggert
Hagnaður Ríkisútvarpsins ohf. nam 1.429 milljónum króna í fyrra, og er hann einkum til kominn vegna 1.535 milljóna króna hagnaðar af sölu á byggingarrétti. Hagnaður af reglulegri starfsemi var hins vegar 95 milljónir króna fyrir skatta.

Hagnaður Ríkisútvarpsins ohf. nam 1.429 milljónum króna í fyrra, og er hann einkum til kominn vegna 1.535 milljóna króna hagnaðar af sölu á byggingarrétti. Hagnaður af reglulegri starfsemi var hins vegar 95 milljónir króna fyrir skatta. Fram kemur í tilkynningu RÚV til Kauphallar að félagið muni ekki greiða skatta af hagnaðinum vegna uppsafnaðs taps frá fyrri tíð.

Markmið RÚV með sölu byggingarréttarins er að greiða niður skuldir félagsins. Í árslok var eiginfjárhlutfallið komið í 23,8% en það var 6,2% ári fyrr.

Tekjur af samkeppnisrekstri, sem einkum eru auglýsingatekjur, námu liðlega 2,2 milljörðum króna á síðasta ári. Þjónustutekjur frá ríkinu námu hins vegar um 3,8 milljörðum króna. Nýr þjónustusamningur RÚV og mennta- og menningarmálaráðuneytisins var undirritaður á síðasta ári og gildir hann til ársloka 2019.

Í afkomutilkynningunni segir að jafnvægi hafi náðst í rekstri félagsins á árinu 2015 sem haldist hafi á árinu 2016. Útlit sé fyrir að svo verði í náinni framtíð. Stöðugildi voru að meðaltali 258 á liðnu ári en þau voru 259 árið 2015.

Fram kemur í tilkynningunni að RÚV hafi átt í viðræðum við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um möguleika á skilmálabreytingu láns sem er tilkomið vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga.