Anna Hjörtína Vernharðsdóttir fæddist 19. desember 1931. Hún andaðist 25. febrúar 2017.

Útför Önnu var gerð 10. mars 2017.

„Eiríka“ heyri ég kallað framan úr útidyrunum á Smáratúni 12. Ég hleyp af stað innan úr stofu og þá kallarðu aftur: „Komdu og sjáðu, vinkonur þínar eru komnar að heimsækja þig.“ Ég kem til þín út í sólina og sest við hliðina á þér á þrepunum fyrir framan dyrnar. Þú bendir mér á sumarblómin í beðinu þar við hliðina og hunangsflugurnar sveimandi yfir þeim. Við sitjum saman og fylgjumst með þeim vinna. Svo litlar að reyna að fá sem mest út úr öllum þessum litríku blómum sem þær höfðu um að velja. Þetta litla augnablik er ein af mínum uppáhalds minningum með þér. Sólin skein og allt var svo bjart. Alveg eins og þú, amma. Létta og einstaklega ljúfa nærveran þín var alltaf svo þægileg, hún gaf svo mikla öryggistilfinningu. Með ömmu leið mér alltaf vel.

Núna, tæpum tuttugu árum síðar sit ég og skrifa um þig minningargrein. Ég vissi alltaf að ég myndi upplifa það að missa þig og það er hreint ekki sársaukalaust, en efst er mér í huga gleði og þakklæti. Ævin þín var löng og hamingjurík. Þakklátust er ég fyrir þann stóra stað sem ég hef alltaf vitað að ég ætti í hjartanu þínu. Væntumþykjan þín skilaði sér á svo ótalmargan hátt að ég ætla ekki einu sinni að reyna að telja það upp hér. Og ég veit að ég tala fyrir okkur öll barnabörnin þegar ég segi að við hefðum ekki getað óskað okkur betri ömmu. Þennan verndarengil sem var alltaf til staðar fyrir okkur með opinn faðminn og bjarta brosið.

Ég vildi óska þess að ég gæti haft þig innan seilingar að eilífu. Að ég gæti leitað til þín hvenær sem væri og spjallað. En það sem þú skilur eftir er gott. Ekkert nema gott. Börnin þín þrjú og öll þeirra börn, og börnin þeirra. Það sem við eigum að eilífu er minningin um gullfallega, ljúfa og sterka konu sem hafði svo mikið að gefa.

Eins og hunangsflugurnar þennan sumardag sem unnu hart að því að safna fæðu til að tryggja afkomu litlu afkvæmanna heima í búinu sínu, þá tryggðir þú afkvæmum þínum örugga afkomu og bjarta framtíð.

Og eins og fallegu sumarblómin í garðinum þínum, þá blómstrum við eins og þú sáðir.

Takk, amma. Takk fyrir alla væntumþykjuna og þolinmæðina. Takk fyrir bænirnar og hlýjuna. Og helst af öllu, takk fyrir að vera þú.

Þín

Eiríka.

Anna Hjörtína Vernharðsdóttir, eða amma Anna eins og við kölluðum hana, hefur yfirgefið Smáratúnið í síðasta sinn. Hún gerði það nákvæmlega eins og hún ætlaði, hún var borin út. Er ég loka augunum og reyni að sjá hana fyrir mér í gegnum tíðina standa upp úr nokkrar myndir, hún í sólbaði bak við hús, þar fann maður hana alltaf á sólríkum dögum, inni í eldhúsi að fá lagningu og skiptast á sögum við vinkonurnar. Á Siglufirði þar sem hún breyttist alltaf í partí ömmu og söng manna hæst og langt undir morgun. Í seinni tíð breyttust áhugamálin hennar, hún lagði frá sér prjónana og fór t.d. að fylgjast grannt með Formúlu 1, það var aldrei jafn gaman að horfa a formúluna eins og með athugasemdunum hennar ömmu. Amma og afi í Smáratúni voru alltaf klettur í okkar lífi, þar var manni alltaf tekið með opnum örmum, þau áttu alltaf tíma fyrir mann, hvort sem spilað var Ólsen með ömmu eða skellt sér í fjöruferð með afa. Amma fer nú spölkorn frá Smáratúninu og leggst til hvílu við hlið afa Eiríks. Hún amma Anna skilur eftir tómarúm sem verður aldrei fyllt, hennar verður sárt saknað.

Þú, sem eldinn átt í hjarta,

yljar, lýsir, þó þú deyir.

Vald þitt eykst og vonir skarta,

verk þín tala, þótt þú þegir.

Alltaf sjá menn bjarmann bjarta

blika gegnum húmsins tjöld.

Eldurinn hefur æðstu völd;

uppskera hans er þúsundföld.

Mannssálin og myrkrið svarta

mundu án hans dauðaköld.

(Davíð Stefánsson)

Eiríkur Leifsson,

Jóhann Þór Leifsson.

Elsku Anna mín.

Það tók á mig verulega þegar Arnar Már tilkynnti mér að þú hefðir látist, það fyrsta sem hoppaði upp í hugann minn var síðasta skiptið sem við hittumst og að það hafi verið svolítið síðan. Frá því að ég kynntist þér fyrir um sjö árum hefur þú alltaf mætt mér með þínum ótrúlega hlýleika. Mér þótti óskaplega vænt um þig og þann tíma sem maður átti með þér í þessi ár. Þú varst örlát og þótti þér gríðarlega vænt um þína nánustu, og mun minning okkar um þig vera með okkur ævilangt.

Ég á eftir að sakna þess að heyra röddina þína og á eftir að sakna þeirra tíma sem maður eyddi í garðinum á Smáratúninu að snyrta beðin þín og garðinn.

Nú fékkst þú það sem þú vildir, að búa í þínum heimkynnum til æviloka.

Ég mun alltaf sakna þín, elsku Anna.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið,

þín er liðin æviönn,

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg

myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

tengd því sanna og góða,

djúpa hjartahlýju og ást

Þú hafðir fram að bjóða.

Hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst þú aldrei kennd.

Þú komst með gleðigull í mynd

og gafst báðar hendur.

(Höf. ók.)

Ég vil senda mínar dýpstu samúðarkveðjur til

fjölskyldu og aðstandenda Önnu.

Kær kveðja,

Aðalheiður Ásdís (Allý).