Sköpunarkraftur Nemendur þurftu ekki bara að huga að hári heldur líka heildarútlitinu.
Sköpunarkraftur Nemendur þurftu ekki bara að huga að hári heldur líka heildarútlitinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tíu nemendur á hársnyrtibraut Handverksskólans fengu hárin til að rísa á fyrirsætum og trúlega sumum gestanna á útskriftarsýningu sinni. Hver nemandi sýndi fjórar útfærslur; uppgreiðslu á síðu hári, herraklippingu, dömuklippingu og þema í anda ljóssins.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjo@mbl.is

Listgjörningur eða hárgreiðslusýning? Kannski hvort tveggja? Svo virðist a.m.k. vera þegar í hlut á árleg útskriftarsýning nemenda á hársnyrtibraut Handverksskólans. Munurinn kann að felast í að hárgreiðslusýningin tekur að miklu leyti mið af ríkjandi tískustraumum, öfugt við „venjulega“ listgjörninga. Á útskriftarsýningunni í ár, sem haldin var í Vörðuskóla á Skólavörðuholti í fyrrakvöld, var töluverður handagangur í öskjunni, mikið um dýrðir og fjöldi gesta mættur til að berja hana augum.

Tíu útskriftarnemendur létu ljós sitt skína í orðsins fyllstu merkingu. Auk hárlitunar fékk hver og einn fjögur viðfangsefni; uppgreiðslu á síðu hári, dömuklippingu, herraklippingu og þemað ljós og lampar, sem var keppnismódel sýningarinnar.

Fyrirkomulagið þýddi að 40 fyrirsætur mættu til leiks. Þær höfðu reyndar verið nemendunum tiltækar eftir þörfum frá því í janúar þegar undirbúningurinn hófst fyrir alvöru og síðan í hárlitun í vikunni.

Ragnheiður Bjarnadóttir, skólastjóri Handverksskólans, segir sýninguna hápunktinn á námsferli nemenda fyrir sveinsprófið og spegla hæfileika þeirra í sköpun, litun, formi, klippingum og hárgreiðslum ýmiskonar. „Eins og alltaf lögðu nemendur mikinn metnað í sýninguna, þeir sáu um allan undirbúning sem og umgjörðina og höfðu því í mörg horn að líta,“ segir hún, stolt af sínu fólki.

Færri karlar en konur

Hjálmar Gauti Jónsson er eini karlinn sem útskrifast á þessari önn. Eyvindur Þorgilsson – eini karlinn af sjö kennurum á hársnyrtibraut – segir að yfirleitt séu karlar mun færri en konur í náminu. Spurður hvort handbragð þeirra og áherslur séu með öðrum hætti en kvennanna segir hann svo ekki vera. „Í námið sækja skemmtilega ólíkir einstaklingar, sem gaman er að vinna með, einu gildir hvort um karl eða konu er að ræða,“ segir Eyvindur.

„Ég fór aðallega í hársnyrtinám vegna þess að pabbi er rakari og mér hefur alltaf þótt gaman að sniglast um á stofunni hjá honum,“ segir Hjálmar Gauti. Að vísu hóf hann fyrst nám í bifvélavirkjun, en fann fljótt að hann var ekki á réttri hillu og lærði einkaþjálfun áður en hann fór á hársnyrtibrautina. Það blasti vitaskuld við að hann þurfti ekki að leita langt til að komast á vinnusamning eins og lög gera ráð fyrir. Hann gerði einfaldlega samning við föður sinn á Hárgreiðslustofunni Effect. Þar er meiri áhersla lögð á herraklippingu og rakstur en dömuhárgreiðslu. „Við litum einnig og gerum alls konar ondúleringar,“ segir hann. Sjálfum finnst honum skemmtilegast að klippa hár herranna og raka eða snyrta skegg þeirra.

„Mjög heppilegt því undanfarið hefur mikil skeggmenning verið ríkjandi og því nóg að gera hjá hársnyrtum,“ segir hann glaður í bragði. Helstu línur í herraklippingu þessi dægrin eru að hans sögn mjög snöggklippt í hliðunum og síður toppur eða hárbrúskur ofan á höfðinu. Karlar með sítt hár, jafnvel bundið í tagl, þurfi þó ekki að örvænta því þeir séu líka í takti við tískuna. „Mjög fjölbreytt hártíska,“ segir Hjálmar Gauti og jafnframt að útskriftarsýningin sé mikil áskorun og dýrmæt reynsla fyrir nemendur.