Málfræði Lilja Björk Stefánsdóttir, meistaranemi í málfræði, skoðaði setningafræðibreytingar í máli Steingríms J. Sigfússonar á árunum 1990-2013.
Málfræði Lilja Björk Stefánsdóttir, meistaranemi í málfræði, skoðaði setningafræðibreytingar í máli Steingríms J. Sigfússonar á árunum 1990-2013. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Árin fyrir efnahagshrunið og í hruninu eykst stílfærslan skyndilega í máli Steingríms [J. Sigfússonar]. Ég set það í samhengi við miklar breytingar á félagslegri stöðu.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Árin fyrir efnahagshrunið og í hruninu eykst stílfærslan skyndilega í máli Steingríms [J. Sigfússonar]. Ég set það í samhengi við miklar breytingar á félagslegri stöðu. Hann fór frá því að vera í stjórnarandstöðu frá árinu 1991 yfir í að vera margfaldur ráðherra og fjármálaráðherra sem var opinberlega ábyrgur fyrir örlögum íslensks efnahags á miklum umrótartíma í þjóðfélaginu. Breytingar á félagslegri stöðu hans endurspeglast í málbreytingum,“ segir Lilja Björk Stefánsdóttir, meistaranemi í málfræði.

Lilja Björk skoðaði setningafræðibreytingar í máli Steingríms J. Sigfússonar á árunum 1990-2013 út frá breytingum á félagslegri stöðu hans á þessu tímabili. Hún komst að þeirri niðurstöðu að stílfærslan í máli Steingríms hefði aukist með afgerandi hætti þegar hann komst í ríkisstjórn og varð fjármálaráðherra og náði svo sögulegu lágmarki hjá honum þegar ríkisstjórn hans missti meirihluta og hann hætti sem formaður Vinstri grænna. Stílfærsla er notuð til að gera málið sitt formlegra.

Það sem er nýtt við rannsóknina er hversu mikið efni er til frá sama einstaklingi á samfelldu tímabili frá sama einstaklingi. Rannsóknin er unnin út frá textaskrá sem inniheldur allar þingræður Steingríms á árunum 1990-2013. Hún byggist á yfirgripsmiklum setningafræðigögnum, á samfelldu tímabili og því er hægt að skoða þróun sama einstaklingsins í háskerpu. Textarnir voru keyrðir í gegnum máltækniforrit og greindir út frá því.

„Mér finnst félagsleg hlið tungumálsins mjög áhugaverð og skemmtileg. Það er gaman að skoða hvernig ytri aðstæður hafa áhrif á málnotkun okkar og öfugt,“ segir Lilja Björk sem skoðaði í BA-ritgerð sinni einnig hvernig framburður Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, breyttist eftir að hann komst á þing.

Lilja Björk greinir frá þessum niðurstöðum á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands í dag kl. 10. Erindi hennar nefnist: Háskerpurannsókn á setningafræðibreytingum á lífsleiðinni.

Lengri umfjöllun er á mbl.is.