Örbrún Halldórsdóttir fæddist 29. mars 1933. Hún lést 4. mars 2017.

Útför Örbrúnar fór fram 10. mars 2017.

Mikil var gleðin og eftirvæntingin þegar það fréttist að von væri á íslenskum hjónum með þrjú börn til Bonn haustið 1963. Ekki minnkaði ánægjan þegar fjölskyldan birtist og við kynntumst þeim ágætu hjónum Örbrúnu og Guðmundi og börnum þeirra, Halldóri, Örbrúnu og Hrafnhildi, seinna bættist Gunnþórunn í barnahópinn. Varð þetta upphaf að ævilangri vináttu, sem aldrei bar skugga á.

Einhvern veginn reikar hugurinn aftur til fyrsta vetrar okkar í Bonn sem var óvenju kaldur og húsakynni okkar beggja laus við lúxus eins og miðstöðvarhitun. Alltaf dáðist ég að því hve þessi netta og fíngerða kona, Örbrún, gat afkastað miklu. Þrátt fyrir frumstætt húsnæði, húskulda, kolaofna og þrjú börn sem þurfti að annast, kom hún okkur á óvart með því að bjóða upp á minnst tíu sortir af smákökum og laufabrauð um jólin fyrsta veturinn. Margar skemmtilegar minningar eru um heimsóknir til þessara frábæru hjóna. Gestrisnin náði ekki eingöngu til heimilisins, heldur buðu þau okkur oft í bílferðir á Volkswagen-bjöllunni sem þau höfðu eignast. Geta menn reynt að finna út hvernig ein fimm manna og önnur þriggja manna fjölskylda komust fyrir í því farartæki, sem þó tókst vel.

Seinna batnaði húsnæðið og það var alltaf gott að koma til Örbrúnar og Gumbs, hvort sem heimilisfangið var Godesberger Strasse, Skeiðarvogur eða Hæðargarður. En það er einmitt laufabrauðið sem hefur orðið til þess að sívaxandi fjölskyldur okkar beggja hittast reglulega einu sinni á ári til að baka þetta þjóðlega bakkelsi eftir fyrirsögn og uppskrift Örbrúnar.

Það var gott að eiga Örbrúnu að sem vinkonu. Hún hafði þann eiginleika að sjá alltaf skoplegu hliðina á öllum hlutum. Þessum eiginleika hélt hún alveg fram undir það síðasta þrátt fyrir áralanga baráttu við erfið veikindi. Hún hélt alltaf sinni reisn, vildi vera vel til fara og ef tækifæri bauðst að komast í leikhús og veitingahús. Síðustu árin voru henni mjög erfið vegna heilsubrests og þá kom sér vel hve börn og barnabörn sinntu henni vel og aðstoðuðu á allan hátt. Fjölskyldan var henni mjög dýrmæt, enda allt frábært fólk og skemmtilegt. Hún hafði oft á orði hve það væri mikils virði fyrir sig, einkabarnið, að eignast svona stóra og góða fjölskyldu.

Ég þakka Örbrúnu samfylgdina öll þessi ár og kveð hana með söknuði.

Auður Gestsdóttir.

Eftir því sem árin líða fækkar í vinahópnum, vinirnir hverfa á braut. Nú kveðjum við Örbrúnu vinkonu mína til áratuga.

Við kynntumst þegar við vorum 6 og 7 ára. Örbrún var þá send í sveit til mágkonu mömmu sinnar, Guðbjargar Árnadóttur, ráðskonu á Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi. Örbrún átti eftir að eyða mörgum sumrum á Reykjum. Pabbi minn byggði sumarbústað á Reykjum 1927 og var ég þar öll sumur. Á Reykjum voru margir krakkar í sumardvöl og það var alltaf líf og fjör í sveitinni. Við fórum oft í sund í lauginni í Laugaskarði sem Lárus Rist byggði. Hjá honum lærðum við að synda. Á Reykjum var mikill búskapur, stórt fjós sem við komum oft í. Við fórum upp á Reykjafjall og gengum niður Tröllkonugil. Í fjallinu óx mikið af jurtum. Stundum var rigning allt sumarið og þá lékum við okkur inni, lituðum og lásum. Þegar haustaði og skólar byrjuðu var flutt í bæinn. Þetta voru ljúf og góð sumur hjá okkur Örbrúnu.

Í Reykjavík bjó Örbrún við Barónsstíg hjá foreldrum sínum, þeim ágætu hjónum Gunnþórunni Karlsdóttur og Halldóri Stefánssyni rithöfundi. Það var mikið menningarheimili. Minnist ég margra skálda og rithöfunda sem þar voru heimagangar, m.a. hjónin Þóra Vigfúsdóttir og Kristinn Andrésson, Ólafur Jóhann Sigurðsson, Sigfús Daðason o.fl.

Á Barónsstíg bjuggu einnig Ella og Anna. Þær urðu góðar vinkonur okkar. Á Leifsgötunni voru hrekkjusvínin, stórháskaleg með Jökul Jakobsson fremstan í flokki. Hann varð síðar skólabróðir okkar í menntaskóla og var þá orðinn hinn spakasti.

Örbrún var í Austurbæjarskóla en ég í æfingadeild Kennaraskólans og Miðbæjarskóla. Síðar urðum við bekkjarsystur í Menntaskólanum í Reykjavík. Þá var Örbrún flutt inn í Hlíðar og við hættar að leika okkur á Barónsstíg. Menntaskólaárin voru skemmtileg, námið, selsferðirnar, félagslífið og ferðir um landið. Að stúdentsprófi loknu starfaði Örbrún á lögfræðiskrifstofu Ragnars Ólafssonar.

Árið 1955 giftist Örbrún Guðmundi Georgssyni, hann var þá við læknanám í Háskólanum. Að námi þar loknu fóru þau til Þýskalands þar sem Guðmundur stundaði nám í meinafræðum við háskólann í Bonn. Þangað heimsóttum við Garðar þau. Tóku þau vel á móti okkur og fóru með okkur vítt og breitt um hina gömlu og fallegu fyrrum höfuðborg.

Eftir heimkomuna hóf Guðmundur störf við Tilraunastöðina að Keldum. Meðan börnin voru lítil var Örbrún heimavinnandi, síðar vann hún sem læknaritari. Örbrún og Guðmundur bjuggu til margra ára í Skeiðarvogi. Þegar hún gat ekki lengur verið ein fór hún á Hjúkrunarheimilið Sóltún. Þar fór vel um hana, en alltaf langaði hana heim.

Á menntaskólaárunum stofnuðum við nokkrar skólasystur saumaklúbb. Eftir að skóla lauk fækkaði í klúbbnum en við vorum sex sem héldum hópinn. Nú hefur enn fækkað í hópnum og erum við einungis þrjár eftir.

Við vinkonurnar fjórar, Anna, Ella, Örbrún og ég, hittumst vikulega. Þetta voru skemmtilegar samverustundir þar sem við rifjuðum upp liðna tíð. Við söknum Örbrúnar og minnumst allra góðu stundanna sem við áttum saman.

Garðar, ég og stelpurnar okkar sendum fjölskyldu Örbrúnar innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún.

Ég heimsótti Örbrúnu, vinkonu okkar hjónanna, á Sóltúni tíu dögum fyrir andlát hennar. Þá var hún glöð og reif og rifjuðum við upp gamla tíð eins og oft vill verða, þegar langt – of langt hefur orðið á milli vinaspjalls.

Við rifjuðum meðal annars upp tímann, þegar þau Gumbur voru í Bonn og við Svana ýmist í München eða Reykjavík. Á þessum árum héldum við Gumbur nokkuð góðu bréfasambandi. Í þessum skrifum okkar var oft meira en helmingur bréfanna tómt bull, grín og vitleysa.

En „Spass muss sein“, segja Þjóðverjar gjarnan og fylgdum við þeirri línu. Örbrún sagðist muna eftir kvöldunum, þegar bréfin voru lesin upphátt, hvort sem pósturinn hafði flutt þau í norður eða suður. „Stundum skellihlógum við þótt það væri við þriðja lestur,“ sagði hún og brosti eyrnanna á milli. Þannig var vinátta okkar; glaðværðin í fyrirrúmi.

Vinátta okkar Gumbs byrjaði í 1. bekk MR og minnkaði síður en svo þegar konurnar bættust í hópinn. Í þennan vinahóp bættust svo Guðmundur Pétursson og Björn Ólafsson.

Við Svana þökkum þessa tryggu hálfrar aldar vináttu.

Megi góður Guð létta börnunum móðurmissinn.

Svana Jörgensdóttir,

Gunnar Torfason.