[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins og liðsmaður þýsku meistaranna Rhein-Neckar Löwen, er í öðru sæti yfir markahæstu landsliðsmenn sögunnar samkvæmt samantekt Morgunblaðsins sem birt var í síðustu viku. Hann hefur skorað 1.751 mark í 334 landsleikjum á 18 árum. Aðeins Ungverjinn Peter Kovács hefur skorað fleiri mörk, 1.797 mörk í 323 á árunum 1973-1995, af þeim sem hægt var að grafa upp staðfestar upplýsingar um.

Ólafur Stefánsson er í þriðja sæti með 1.570 mörk í 330 landsleikjum.

„Ég hefði nú ekki leitt hugann að því að ég gæti verið svona ofarlega enda ekki það sem mér er efst í huga, heldur fyrst og fremst að leggja mitt af mörkum í hverjum leik sem ég tek þátt í. Ég hef á stundum skoðað lista yfir leikjafjölda og markaskor sem legið hafa frammi á stórmótum en á þeim listum hafa upplýsingarnar oft verið misvísandi,“ sagði Guðjón Valur þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða hans við þessum upplýsingum.

„Ef til vill lítur maður staðreyndir eins og þessar öðrum augum eftir að ferlinum lýkur en rétt á meðan maður er á fullu í boltanum og hefur enn gaman af því sem maður er að gera.

Þessi tölfræði er ekki eitthvað sem ég hef haft í huga heldur er þetta mikið frekar eitthvað sem fylgir mér vegna þess að ég hef leikið marga landsleiki og verið lengi að með íslenska landsliðinu. Það á reyndar við um alla sem eru á þessum lista. Þeir eiga það sammerkt að hafa lengi verið í eldlínunni,“ sagði Guðjón Valur.

Ólafur var óeigingjarn

„Það var greint frá því þegar ég fór fram úr Óla [Ólafur Stefánsson] á listanum yfir markahæstu landsliðmenn Íslands. Þá sagði ég að það væri honum sjálfum að kenna því hann var svo óeigingjarn og gaf boltann svo oft fram á mig í hraðaupphlaupum,“ sagði Guðjón Valur og bætti við:

„Mér finnst ég engan veginn eiga heima í þessum hópi sem er skipaður goðsögnum í handboltaheiminum í gegnum árin. Leikmenn sem maður hefur alist upp við að fylgjast með í gegnum tíðina. Þegar maður les yfir listann þá er hann eins og kirkjugarður handboltamanna,“ sagði Guðjón Valur léttur í bragði. „Úr því að maður er kominn svona ofarlega á hann þá styttist kannski í eigin jarðarför á handboltavellinum, það kom óneitanlega upp í hugann þegar ég las þetta yfir,“ sagði Guðjón Valur sem einnig er einn allra markahæsti leikmaður í sögu Evrópu- og heimsmeistaramótanna. Til viðbótar við landsliðsmörkin 1.751 þá hefur hann skorað ríflega annað eins með félagsliðum sínum á Íslandi, í Danmörku, Þýskalandi og á Spáni. Hann er hvergi nærri hættur enda hefur hann ævinlega hugsað vel um sig og er fyrir vikið í toppæfingu nú sem fyrr.

Hraðinn hefur aukist og mörkum fjölgað

Guðjón Valur segir að handboltinn hafi breyst mikið í gegnum árin og nú hin síðari ár sé hraðinn meiri en áður og fyrir vikið eru skoruð fleiri mörk að jafnaði í leik síðustu 15-20 ár en árin 20 þar á undan, svo dæmi sé tekið.

„Það er alltaf gaman að lesa efni í þessum dúr í kringum handboltann en ég hef aldrei verið upptekinn af tölfræði í kringum minn feril. Ég er í liðsíþrótt þar sem allir leggjast á eitt í liði til þess að ná árangri. Vissulega vil ég standa mig vel í vinnunni,“ sagði Guðjón Valur sem viðurkennir þó að hafa staldrað við einn áfanga á landsliðsferlinum og það var að komast í hóp þeirra Íslendinga sem leikið hafa 300 landsleiki eða fleiri. „Mér þótti það ekki merkilegt vegna fjölda leikjanna heldur mikið frekar að hafa komist í hóp með handboltamönnum sem eru goðsagnir hafa gefið mikið af sér til íslensks handbolta. Að komast í hóp þessara merku manna hafði mikla þýðingu fyrir mig.“

Ef vel gengur hjá Guðjóni Val þá getur hann náð þeim áfanga fyrir lok þessa árs að verða markahæsti landsliðsmaður sögunnar. „Ég ætla ekki að skapa neina pressu í þeim efnum, ef það gerist þá verður það ákveðinn áfangi en ég get alveg lofað því að ég mun ekki hætta að gefa á samherja mína. Ef ég næ ekki efsta sætinu áður en landsliðsferillinn verður úti þá vona ég að hann verði ekkert minna virði fyrir vikið. Það verður aldrei markmið mitt að ná efsta sætinu,“ sagði Guðjón Valur.

Í baráttu á þrennum vígstöðvum

Guðjón Valur og félagar í þýska meistaraliðinu Rhein-Neckar Löwen eru í harðri baráttu á þrennum vígstöðum um þessar mundir. Auk þess að verja meistaratitilinn er liðið komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu auk þess sem það er eitt fjögurra liða sem komin eru í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar. Úrslit hennar verða leikin með sama hætti og hér á landi með undanúrslitum og úrslitaleik á einni helgi.

Guðjón Valur segir liðið hafa hikstað upp á síðkastið. Ástæða þess sé sú helst að leikmannahópurinn sé þunnskipaðri nú en stundum áður vegna meiðsla og einnig sé andlegri þreytu um að kenna. Hún gerði oft vart við sig á þessum tíma árs þegar stórmót landsliða væri að baki og mikið álag á leikmönnum á mörgum vígstöðvum á sama tíma. „Við rífum okkur upp úr því, það gengur yfir þegar nær dregur vori. Annars hefur keppnistímabilið gengið nokkuð vel.

Framundan er leikur á laugardaginn [í dag] við Minden í deildinni. Það skiptir okkur miklu máli að ná okkur aftur á skrið ná að nýju að stilla okkur inn á þann leik sem við voru að leika í október, nóvember og desember þegar við lékum alveg sérstaklega vel.

Það eru alltaf hæðir og lægðir hjá liðum á löngu og strögnu keppnistímabili. Framundan í lok mars og í byrjun apríl eru afar erfiðir og mikilvægir leikir, meðal annars í bikarkeppninni og margir deildarleikir.“

Guðjón Valur segir Flensburg standa best að vígi í þýsku deildinni um þessar mundir. Mikið vatn eigi hinsvegar eftir að renna til sjávar áður en deildarkeppninni lýkur í júní. „Flensburg hefur bestu spilin á hendi sem stendur en veður geta skipast fljótt í lofti. Það er of snemmt að afskrifa okkur eða Kiel. Ég var nú í Kiel-liðinu 2014 þegar það vann þýska meistaratitilinn á markatölu í síðasta leik eftir æsilegt kapphlaup við Rhein-Neckar. Þá höfðu sumir afskrifað Kiel-liðið. Menn þurfa bara að halda hausnum köldum, taka einn leik fyrir í einu,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði og leikmaður þýska meistaraliðsins Rhein-Neckar Löwen.