Lífsins englar Hjónin og barnabörnin, Sigurbjörn Þorkelsson með Sigrúnu Röfn Þorkelsdóttur, nær tveggja ára, og Laufey G. Geirlaugsdóttir með Laufeyju Lilju Geirlaugsdóttur, eins árs.
Lífsins englar Hjónin og barnabörnin, Sigurbjörn Þorkelsson með Sigrúnu Röfn Þorkelsdóttur, nær tveggja ára, og Laufey G. Geirlaugsdóttir með Laufeyju Lilju Geirlaugsdóttur, eins árs.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sigurbjörn Þorkelsson, ljóðskáld og rithöfundur, hefur gefið út ljóðabókina Lifi lífið . Í bókinni eru 175 ljóð hans og þar af 150, sem ekki hafa birst áður, auk fjölmargra mynda og annars texta.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sigurbjörn Þorkelsson, ljóðskáld og rithöfundur, hefur gefið út ljóðabókina Lifi lífið . Í bókinni eru 175 ljóð hans og þar af 150, sem ekki hafa birst áður, auk fjölmargra mynda og annars texta.

Eins og fram kemur hjá höfundi á bókarkápu eru í bókinni „meðal annars trúarleg ljóð full af sannfæringu og óbilandi trausti en einnig erfiðri glímu og baráttu, einlægu ákalli og hjartanlegri bæn. Ljóð sem tjá fegurð, aðdáun og ást, sorg og trega þar sem von og vonbrigði kallast á. Í bókinni eru einnig ljóð um lífsins engla sem komu líkt og himnasending inn í líf mitt á erfiðum tímum.“

Sigurbjörn segir að þessi texti segi töluvert mikið. „Hann litast af glímu minni við krabbamein undanfarin ár. Hún hefur verið mikill rússíbani upp og niður, ég hef unnið góða sigra en líka fengið slæm högg á milli.“

Baráttan við krabbameinið

Bókin skiptist í þrjá kafla. Í fyrsta og lengsta kaflanum eru ljóð almenns eðlis. „Að syrgja sjálfan sig og aðra“ nefnist annar kaflinn. Í aðfaraorðum lýsir höfundur baráttunni við krabbameinið, sem hann greindist með sumarið 2013. „Ég er ekki aðeins að hugsa um sjálfan mig með þessum skrifum heldur veit ég að það hjálpar öðrum ef maður er tilbúinn að opna sig og deila reynslu sinni,“ segir Sigurbjörn.

Í því sambandi bendir hann á það sem hann skrifaði á Facebook 4. desember sl. og birtir í bókinni. „Einn dimman dag á aðventunni var ég mættur í Áskirkju, þar sem ég átti að lesa ljóð,“ rifjar hann upp. „Ég var sestur inn í kyrrðarstund þegar síminn hringdi. Ég sá að það var læknirinn, ákvað að svara símtalinu, ruddist fram í anddyrið rétt ókynntur og fékk þau tíðindi að krabbameinið væri komið í eitla. Mér fannst ég eiga um tvennt að velja. Að halda út í myrkrið og hríðina og hálkuna og láta mig hverfa eða halda að nýju inn í ljósið og hlýjuna og gera grein fyrir stöðunni og lesa síðan viðkvæm ljóð. Ég valdi sem betur fer seinni kostinn og sé ekki eftir því, það voru ákveðin skilaboð. Það er svo mikilvægt í öllum aðstæðum að velja að ganga inn í ljósið en ekki út í myrkrið.“

„Lífsins englar“ kallast þriðji kaflinn. Sigurbjörn segir að þegar hann greindist með krabbamein hafi hann meðal annars velt því fyrir sér hvort hann lifði það að vera viðstaddur brúðkaup sona sinna og ætti kannski aldrei eftir að verða afi. „Nú hef ég upplifað brúðkaup tveggja sona minna af þremur og eignast tvær litlar afastelpur. Ég er óendanlega þakklátur fyrir það og gef þeim allt sem ég á, en í bókinni fjalla ég um þessa upplifun og fyrstu stundirnar með þeim.“

Þetta er níunda ljóðabók Sigurbjörns og 27. bók hans frá 1995. Hann hefur verið sérlega iðinn undanfarin ár en segir að í augnablikinu sé hann sáttur. „Það er mikill sigur að hafa komið út þessum bókum. Þessi bók átti að heita „Með himininn í hjartanu“ en svo fékk ég einhverja uppljómun að láta hana heita „Lifi lífið“ enda einskonar einkunnarorð mín, og sé ekki eftir því.“

Sigurbjörn segir að skrifin auðveldi sér lífið auk þess sem hann gefi af sér í leiðinni. Áföllin séu samt ólýsanleg, mikið högg, ekki síst þegar allt fari á verri veg eftir að bjartsýni hafi ríkt um stund. „En nú er ég eins góður og mögulegt er miðað við aðstæður og ég er mjög þakklátur fyrir það.“