Þakkir Bára Gísladóttir, kontrabassaleikari og tónskáld, þakkar hljómsveitarstjóranum fyrir flutninginn í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld.
Þakkir Bára Gísladóttir, kontrabassaleikari og tónskáld, þakkar hljómsveitarstjóranum fyrir flutninginn í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld. — Ljósmynd/Bjarki Vigfússon
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Sinfóníuhljómsveit Danmerkur flutti verk eftir tvær íslenskar konur, Báru Gísladóttur og Önnu Þorvaldsdóttur, á tónleikum í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sinfóníuhljómsveit Danmerkur flutti verk eftir tvær íslenskar konur, Báru Gísladóttur og Önnu Þorvaldsdóttur, á tónleikum í Kaupmannahöfn í fyrrakvöld.

„Þetta var mjög skemmtilegt og mikill heiður,“ segir Bára um valið og flutninginn. Hún segir að samstarf sinfóníuhljómsveitarinnar og Konunglegu tónlistarakademíunnar í Kaupmannahöfn með þessum hætti hafi byrjað í fyrra. Tveir til þrír nemendur hafi verið valdir hvort ár til þess að semja verk fyrir sveitina og hún hafi verið um ár að semja sitt verk.

Frábær upplifun

Margir Íslendingar voru í salnum, þar á meðal Logi Ólafsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í knattspyrnu og stjúpfaðir Báru. „Verkið er magnað og flutningurinn var stórkostlegur, gæsahúða- og vasaklútadæmi,“ segir hann stoltur. „Þetta var frábær upplifun.“

Verk Báru tekur rúmar 12 mínútur í flutningi og er samið fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit. Bára segir það innblásið af hryðjuverkaárásum í Tókýó í Japan 1995. „Besta rennslið var á tónleikunum og ég var mjög glöð,“ segir Bára. „Það var líka gaman að hlusta á verk eftir tvær íslenskar konur á tónleikum með sinfóníuhljómsveitinni.“

Bára lýkur mastersnámi við Konunglegu tónlistarakademíuna í vor. Hún hefur nóg að gera í tónlistinni og er nú að semja verk fyrir hljómsveit í París.