Sterkur Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson er ávallt drjúgur.
Sterkur Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson er ávallt drjúgur. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úrslitakeppnin Kristján Jónsson kris@mbl.is Úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfuknattleik brestur á hinn 15. mars en á fimmtudagskvöldið lá fyrir hvaða lið myndu mætast í átta liða úrslitunum.

Úrslitakeppnin

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Úrslitakeppni Dominos-deildar karla í körfuknattleik brestur á hinn 15. mars en á fimmtudagskvöldið lá fyrir hvaða lið myndu mætast í átta liða úrslitunum. Deildin var mjög sterk í vetur sem sést einna best á því að stórveldið Njarðvík komst ekki í úrslitakeppnina, Haukar sem léku til úrslita fyrir ári voru í fallhættu og gott lið Skallagríms féll.

Íþróttaunnendur ættu því að geta skemmt sér yfir viðureignunum sem framundan eru en Morgunblaðið fékk Emil Barja, leikstjórnanda Hauka, til að varpa betra ljósi á þær.

KR (1) – Þór Ak (8)

Akureyringar taka nú þátt í úrslitakeppninni í körfubolta í fyrsta skipti í níu ár eða síðan 2008. Og þá fá þeir ekkert smá lið í heimsókn. Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára eru á leiðinni. Þrátt fyrir ýmis skakkaföll hjá KR-ingum náðu þeir samt sem áður deildameistaratitlinum og bikarmeistaratitlinum. Sem stendur virðast allir þeirra menn heilir heilsu og er liðið því sigurstranglegast á Íslandsmótinu.

Þórsarar geta verið ánægðir með sína framgöngu, alla vega í sögulegu samhengi. Er þetta í annað sinn í sögu félagsins sem liðið er með yfir 50% vinningshlutfall í efstu deild 1994-1995. Einu sinni hefur Þór unnið fleiri leiki en Hrannar Hólm náði 18 sigurleikjum með Þór þegar leiknar voru 32 umferðir.

Emil: „Þór hefur staðið sig vel og betur en ég bjóst við. Þótt þeir hafi misst Danero Thomas eftir áramót þá finna þeir alltaf leiðir. Þór er gott lið með Tryggva undir körfunni og vel þjálfað. Ég held samt sem áður að KR sé of stór biti fyrir Þór að kyngja. KR-ingar hafa aðeins verið að ströggla en nú fara þeir í úrslitakeppnisgír. Ég sé Akureyringa ekki slá KR-inga út en gætu unnið leik á heimavelli. KR ætti að fara áfram án teljandi vandræða.“

Stjarnan (2) – ÍR (7)

Garðbæingar fara á góðum nótum inn í úrslitakeppnina eftir sigur á KR á útivelli í lokaumferð deildarinnar. En hins vegar hefur liðið ekki þótt sannfærandi eftir að Justin Shouse dró sig í hlé vegna höfuðáverka. Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson hefur þó skilað frábærum tölum í allan vetur. ÍR er í fantaformi en liðið vann þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. Auk þess er „Hellirinn“ gríðarlegt vígi og hefur ÍR unnið sjö síðustu heimaleikina.

Emil: „Án Justins er eins og eitthvert stjórnleysi geri vart við sig hjá Stjörnunni. Mér liggur við að segja að sókn liðsins hafi verið léleg þegar Justin er ekki með. Þá vantar kannski leikmann til að stýra sókninni þótt þeir séu með fullt af góðum skorurum. Ég gæti trúað því að þessi rimma yrði rosaleg. ÍR hefur verið á siglingu og úrslitakeppnin er eiginlega byrjuð hjá ÍR-ingum því þeir hafa spilað svoleiðis leiki að undanförnu. Mér finnst leikmannahópur Stjörnunnar vera betri. Ef Justin verður eitthvað með þá held ég að Stjarnan fari áfram en ég tek það fram að aldrei er hægt að afskrifa ÍR-inga. Þeir hafa rétt misst af úrslitakeppninni síðustu ár og ég veit að þeir verða tilbúnir. Auk þess fá þeir þvílíkan stuðning frá sínum stuðningsmönnum.“

Tindastóll (3) – Keflavík (6)

Hér mætast tvö firnasterk lið. Lið Tindastóls er vel mannað eins og það hefur verið síðan það kom upp úr 1. deildinni vorið 2014. Christopher Caird hefur þó ekki leikið frá því hann gerði 39 stig gegn Njarðvík í lok janúar. Tvö ár eru síðan Tindastóll fór í úrslitarimmuna gegn KR og þar á bæ eru væntingar í þá áttina. Þeir fá hins vegar andstæðing sem margir vildu líklega sleppa við í 8 liða úrslitunum því Keflvíkingar hafa leikið mjög vel síðustu vikurnar.

Emil: „Þetta virkar á mig sem 50/50 rimma. Heimaleikjarétturinn gæti ráðið úrslitum vegna þess að Tindastóll er með gríðarlega sterkan heimavöll. Mér finnst þessi rimma mjög áhugaverð. Keflvíkingar eru kannski með hávaxnari menn í flestum stöðum en Skagfirðingarnir spila rosalega vel saman. Mér finnst alltaf gaman að sjá Tindastól spila. Keflavík er með besta útlendinginn í deildinni (Amin Stevens) og Hörður Axel er farinn að spila miklu betur. Aðrir leikmenn eru að bæta sig á réttum tíma og liðið er spila miklu betur heldur en fyrir áramót. Þetta verður ekki þriggja leikja rimma. Það verða pottþétt fleiri leikir og ég held því að breiddin geti skipt miklu máli, til dæmis þegar komið er í oddaleik. Þegar Chris Caird er með þá er Tindastóll með mjög góða breidd.“

Grindavík (4) – Þór Þ. (5)

Eins og svo oft áður er mjög erfitt að spá fyrir um úrslit í rimmu liðanna sem höfnuðu í 4. og 5. sæti. Grindavík var spáð 10. sæti í árlegri spá forráðamanna liðanna í september. Grindvíkingar hafa heldur betur afsannað þá spá en þess ber þó að geta að Dag Kára Jónsson rak á fjörurnar í byrjun nóvember. Lítið bit var í Grindvíkingum í úrslitakeppninni í fyrra þegar liðið féll úr keppni eftir 0:3 tap fyrir KR en nú er andstæðingurinn öllu viðráðanlegri. Þór hefur sýnt stöðugleika því liðið hafnaði nú í 5. sæti deildakeppninnar annað árið í röð. Auk þess hefur Þór farið í bikarúrslit tvö ár í röð. Liðið er því sterkt og barátta Tobin Carberry og Lewis Clinch ætti að verða forvitnileg.

Emil: „Þetta gæti orðið skemmtileg rimma. Bæði liðin eru mikil bakvarðalið og því ekki með stóra menn sem skora mikið. Þessi lið eru bæði með útlendinga sem eru bakverðir. Ég á von á því að gaman verði að fylgjast með þessum leikjum. Fyrir tímabilið átti ég ekki von á því að Grindavík gæti náð 4. sæti. Mér finnst þeir ekki vera með mikla breidd en byrjunarliðið er reyndar mjög gott. Þór hefur fleiri leikmenn á bekknum sem geta látið að sér kveða. Þessi rimma verður jöfn og erfitt að spá fyrir um hvort liðið fer áfram.“