Einbeittur Eysteinn Bjarni Ævarsson á fullri ferð með Stjörnunni í sigurleiknum á KR. Sigurinn tryggði Stjörnunni annað sæti deildarinnar.
Einbeittur Eysteinn Bjarni Ævarsson á fullri ferð með Stjörnunni í sigurleiknum á KR. Sigurinn tryggði Stjörnunni annað sæti deildarinnar. — Morgunblaðið/Stella Andrea
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
22. umferð Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Þetta var frábært hjá okkur og alveg nauðsynlegt. Við vorum staðráðnir í því fyrir leikinn að koma til leiks af krafti og sýna fólki að við værum komnir í gírinn fyrir úrslitakeppnina.

22. umferð

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Þetta var frábært hjá okkur og alveg nauðsynlegt. Við vorum staðráðnir í því fyrir leikinn að koma til leiks af krafti og sýna fólki að við værum komnir í gírinn fyrir úrslitakeppnina. Senda skýr skilaboð og það tókst,“ sagði Eysteinn Bjarni Ævarsson, einn leikmanna körfuknattleiksliðs Stjörnunnar í samtali við Morgunblaðið í gær. Stjarnan lagði deildarmeistara KR, 78:73, í DHL-höll KR-inga í lokaumferð Dominos-deildarinnar á fimmtudagskvöldið.

„Við hugsuðum ekkert mikið út í hvort það væri betra að hafna í öðru eða þriðja sæti deildarinnar. Okkar markmið var að vinna leikinn og það tókst og með því tryggðum við okkur annað sæti deildarinnar,“ sagði Eysteinn Bjarni sem nú sér fram á að mæta ÍR-ingum í 8 liða úrslitum úrslitakeppninnar sem hefst á miðvikudaginn. Vinna þarf tvo leiki til þess að komast í undanúrslit. Stjarnan á heimaleikjarétt í rimmunni við ÍR-inga.

„Við sýndum og sönnuðum í leiknum við KR að við erum til alls líklegir og enn sætari var sigurinn vegna þess að við eigum Marvin Valdimarsson og Justin Shouse til góða,“ sagði Eysteinn Bjarni. Marvin glímir við meiðsli í ökkla en Eysteinn Bjarni reiknar með að Marvin verði með fljótlega. Óvíst er að segja hvenær Shoues mætir til leiks á ný eftir að hafa ítrekað hlotið höfuðhögg.

Eysteinn Bjarni vakti athygli fyrir vasklega framgöngu í leiknum þar sem hann skoraði m.a. 13 stig og tók átta fráköst. „Ég var mjög sáttur við frammistöðu mína í leiknum. Sjálfstraustið eykst með hverjum leiknum sem líður. Það er gott að finna fyrir vaxandi sjálfstrausti rétt áður en úrslitakeppnin hefst,“ segir Eysteinn Bjarni. Hann gekk til liðs við Stjörnuna í haust sem leið en hans uppeldisfélag í er Höttur á Egilstöðum og með því félagi lék hann í fyrravetur þegar Höttur lék í úrvalsdeildinni. Þegar liðið féll ákvað Eysteinn Bjarni að flytja suður. Hann hafði fengið smjörþefinn af körfuboltanum í efstu deild og vildi meira. Veturinn 2014 til 2015 lék Eysteinn Bjarni með Keflavík.

„Við fórum tveir saman frá Hetti til Keflavíkur. Okkur langaði að spreyta okkur í Dominos-deildinni í fyrsta skipti. Veturinn í Keflavík var mjög góður upp á reynsluna að gera. En þegar Höttur komst upp í efstu deild vorið 2015 þá ákvað ég að fara austur, klára menntaskólann og leika með Hetti í Dominos-deildinni.“

Eysteinn Bjarni, sem er 192 sentímetra hár framherji, sagði að helsta ástæða þess að hann gekk til liðs við Stjörnuna hefði verið þjálfarinn, Hrafn Kristjánsson, og síðan leikmenn liðsins. „Mér leist vel á bæði þjálfarann og liðsfélagana. Eftir á að hyggja er ljóst að ég valdi rétt. Svo er frábært að æfa og leika með Hlyni Bæringssyni. Hann er duglegur að segja manni til.

Eysteinn Bjarni er á 22. aldursári og leggur stund á nám í raungreinum við HR. „Ég er að styrkja mig í raungreinunum um þessar mundir en er með í sigtinu að hefja nám í sjúkraþjálfun á næsta vetri,“ sagði Eysteinn Bjarni Ævarsson, körfuknattleiksmaður hjá Stjörnunni.