Athafnamaðurinn Róbert er með skýra framtíðarsýn fyrir Siglufjörð.
Athafnamaðurinn Róbert er með skýra framtíðarsýn fyrir Siglufjörð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Við höfum stefnt að því að hér á Siglufirði verði fjölbreytt atvinnulíf sem byggist á ferðamennsku, líftækni,sjávarútvegi og þjónustu með öflugri menningu. Okkur miðar ágætlega í því,“ segir Róbert Guðfinnsson sem á 60 ára afmæli í dag.

Við höfum stefnt að því að hér á Siglufirði verði fjölbreytt atvinnulíf sem byggist á ferðamennsku, líftækni,sjávarútvegi og þjónustu með öflugri menningu. Okkur miðar ágætlega í því,“ segir Róbert Guðfinnsson sem á 60 ára afmæli í dag. „Veturinn hefur verið frekar rólegur en það tekur tíma að byggja upp vetrarferðamennsku hér fyrir norðan en við erum aftar í því en Reykjavík og Suðurlandið.

Hugsjónin gengur út á að Siglufjörður verði eftirsóknarverður staður fyrir ungt og vel menntað fólk.“ Líftæknifyrirtækið Genís er stór hluti af þeirri hugsjón en Róbert og félagar hafa verið að byggja það upp síðastliðin tólf ár. „Við erum núna með fimmtán starfsmenn á Siglufirði og fimm starfsmenn í Reykjavík og erum með stórar hugmyndir að fyrirtækið verði á endanum með fjölda starfsmanna.“ Róbert rekur einnig Hótel Sigló, Kaffi Rauðku og veitingastaðinn Hannes Boy. Róbert hefur unnið að margvíslegri annarri uppbyggingu á Siglufirði.

„Hvað mig sjálfan varðar þá er aðalmarkmiðið að halda heilsu svo ég geti notið sem lengst að umgangast barnabörnin mín og fjórar dætur. Þær hafa allar ákveðið að búa hér á Íslandi þrátt fyrir að sumar hafi búið hluta ævinnar erlendis, svo það er eitthvað við landið okkar sem heillar. Ég hef gaman af því að grúska í tónlist og á ferðalögum mínum er ég með lagalista, oftast með gömlu efni, og rifja upp ferla ýmissa tónlistarmanna og les mér til um þá. Ég er nú á ferðalagi en við konan strukum af landi brott á afmælinu.“

Eiginkona Róberts er Steinunn R. Árnadóttir og dætur þeirra eru Gunnhildur, Sigríður María, Ragnheiður Steina og Bryndís Erla.