Kristín Lúðvíksdóttir fæddist 6. október 1928. Hún andaðist 23. febrúar 2017.

Útför Kristínar var gerð 10. mars 2017.

Í dag kveð ég móður mína Kristínu Lúðvíksdóttur hinstu kveðju. Hún var ávallt kletturinn í lífi mínu, ef ég þurfti að ræða við einhvern um erfið mál fór ég ávallt til hennar og fór frá henni aftur með eitthvað í pokahorninu sem hjálpaði mér til að leysa málin. Mamma var dugleg kona, hún kenndi okkur systkinunum að vera sjálfstæð, sagði að við hefðum enga aðra til að gera hlutina fyrir okkur. Kenndi okkur að lífsbaráttan er aðeins verkefni en ekki vandamál. Foreldrar okkar hlustuðu á okkur og svo komu frá þeim gullkorn til að fara eftir.

Við hjónin ferðuðumst mikið með mömmu og pabba, fyrst innanlands og síðan erlendis. Við fórum oft til Flórída í heimsókn til þeirra og þegar þau fluttu aftur heim fórum við í ferðir saman á skemmtiferðaskipum. Við ferðuðumst um Evrópu, sigldum um Miðjarðarhafið, Atlantshafið og Karíbahafið. Þegar aldurinn fór að færast yfir fannst þeim gott að hafa okkur með til að aðstoða sig. Það var alltaf gaman að ferðast með þeim, oft voru fleiri með í hópnum og gat verið glatt á hjalla.

Hún var glæsileg kona, fylgdist með tísku og hafði skoðanir, þegar við vorum yngri saumaði hún mikið af fötum á okkur og vorum við systurnar oft í eins kjólum sem mamma hafði saumað. Mamma var alltaf snyrtileg og falleg, hugsaði vel um húðina og var því glæsileg fram á síðasta dag. Þegar hún var yngri fannst henni skemmtilegt að kaupa háhælaða skó og fara í rétta parið við kjólana sína.

Sunnudagskaffið hennar mömmu var ógleymanlegt. Mamma bakaði kökur, skonsur og vöfflur og fjölskyldan hittist hjá mömmu og pabba og þá var mikið fjör. Oft urðu fjörugar umræður um málefni líðandi stundar og tóku allir þátt í umræðunum. Mamma sat bara róleg og hélt á litlum börnum en pabbi æsti strákana upp í umræðu um stjórnmál. Ég held að við öll söknum þessara sunnudagskaffitíma. Það voru oft skemmtilegar umræður og háværar en öll höfðum við gaman af þessu. Fjölskyldan var orðinn stór þegar mamma lést. Foreldrar okkar eignuðust fimm börn, barnabörnin voru 16 og barnabarnabörnin orðin 24.

Þegar pabbi var um sextugt fór hann að hafa áhuga á trjárækt og las bækurnar hennar mömmu fram og til baka. Hann sem sagðist á árum áður vilja malbika allar lóðir. Mamma aftur á móti hafði alltaf séð um garðana, setti niður blóm og tré, og svo fór að þau keyptu sumarbústaðaland í Grímsnesinu og þá fékk pabbi líka græna fingur. Það var yndislegt að sjá þau vinna saman í garðinum og að byggja upp sitt annað heimili þar í sveitasælunni. Þau nutu þess að búa þar á sumrin.

Nú er komið að kveðjustund. Báðir foreldrarnir farnir. Mamma sagði alltaf að pabbi biði eftir henni og undir það síðasta sagði hún að nú væri hún á leið til hans. Pabbi lést 2013 og þá voru þau búin að vera gift í 61 ár. Það er von að hún hafi saknað hans og jafnvel verið svolítið einmana þessi 3 ár síðan hann lést þrátt fyrir að margir kæmu í heimsókn.

Ég er óskaplega þakklát fyrir góða foreldra, sem gáfu okkur gott heimili og voru alltaf til staðar fyrir okkur öll. Nú eru þau bæði búin að fá hvíldina miklu, komin á aðrar slóðir, sameinuð og haldast örugglega í hendur, ástfangin eins og þau voru alltaf.

Að mömmu minni verður mikill missir en hún mun lifa í hjarta okkar allra. Guð geymi þig, elsku mamma mín.

Þín dóttir

Sigríður Jóna.