Geldinganes Nesið fylgdi með þegar Reykjavíkurborg keypti eigninrnar af Faxaflóahöfnum árið 2015.
Geldinganes Nesið fylgdi með þegar Reykjavíkurborg keypti eigninrnar af Faxaflóahöfnum árið 2015. — Morgunblaðið/Ingó
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Á fundi stjórnar Faxaflóahafna í gær var tekið fyrir erindi Akraneskaupstaðar dagsett 3. mars sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum og gögnum vegna sölu lands Faxaflóahafna sf.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á fundi stjórnar Faxaflóahafna í gær var tekið fyrir erindi Akraneskaupstaðar dagsett 3. mars sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum og gögnum vegna sölu lands Faxaflóahafna sf. í Geldinganesi og Gufunesi til Reykjavíkurborgar.

Með erindi Akraneskaupstaðar fylgdi bréf frá Libra lögmönnum með ósk um svör við spurningum og afhendingu gagna með vísan til upplýsingalaga frá árinu 2012. Fram kemur í bréfinu að til lögmannsstofunnar hafi leitað íbúi á Akranesi, Ingólfur Árnason, og falið undirrituðum lögmanni, Árna Ármanni Árnasyni hrl., að óska eftir upplýsingum og afla tiltekinna gagna frá Akraneskaupstað vegna sölu Faxaflóahafna sf. á eignum til Reykjavíkurborgar. Fyrir liggi að Akraneskaupstaður eigi 10,7793% eignahlut í Faxaflóahöfnum sf. og hafi því fjárhagslega hagsmuni af sölunni.

Í bréfinu segir orðrétt:

„Samkvæmt fréttum sem birtust þann 17. júlí 2015 seldu Faxaflóahafnir sf. þrjár lóðir til Reykjavíkurborgar, sem er langstærsti eigandi Faxaflóahafna sf., fyrir kr. 346.292.146. Nánar tiltekið var um að ræða lóð Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, land á Geldinganesi og Eiðsvík, sem er vík milli Viðeyjar, Gufuness og Geldinganess.“

Í tilefni af framangreindri eignarsölu er nokkrum spurningum beint til Ólafs Adolfssonar, bæjarfulltrúa á Akranesi, sem sæti á í stjórn Faxaflóhafna fyrir hönd bæjarins.

Meðal annars vill Ingólfur vita hvernig söluverð eignanna var ákveðið, hvert var bókfært virði eignanna, hvort verðmat fasteignasala hafi legið fyrir, hvort eignirnar hafi verið boðnar til sölu í opnu söluferli og hvort fulltrúar Reykjavíkurborgar hafi vikið af stjórnarfundi þegar ákvörðun um söluna var tekin.

Stjórn Faxaflóahafna fól hafnarstjóra að svara bréfritara.