— Morgunblað/Einar Falur
Jón Kalman Stefánsson fær afar lofsamlega dóma hjá dönskum bókmenntarýnum fyrir skáldsögu sína Eitthvað á stærð við alheiminn sem kom út í Danmörku 3. mars í þýðingu Kims Lembek.

Jón Kalman Stefánsson fær afar lofsamlega dóma hjá dönskum bókmenntarýnum fyrir skáldsögu sína Eitthvað á stærð við alheiminn sem kom út í Danmörku 3. mars í þýðingu Kims Lembek. Henriette Bacher Lind, bókmenntarýnir hjá Jyllands-Posten , gefur skáldsögunni sex stjörnur eða fullt hús stiga, sem er sama stjörnugjöf og hún gaf fyrri skáldsögu tvíleiksins, Fiskarnir hafa enga fætur , sem hún kallaði meistaraverk.

„Ari var sjokkeraður og fullur sektarkenndar þegar við sögðum skilið við hann í Fiskarnir hafa enga fætur . Þetta líktist fullkomnum sögulokum á skáldsögu sem full var af lausum endum og viðkvæmum, óljósum vísbendingum, en Jón Kalman hafði blessunarlega ekki sagt sitt síðasta um manninn á miðri lífsleið og ógleymanlega ættingja hans,“ segir Lind og vísar þar í sögur af ástum, hjónabandi og ótrygglyndi foreldra Ara, föðurömmu, stjúpmóður og gamalla vina.

„Þetta eru yndislegustu sögurnar. Þær eru erótískar, ástúðlegar, fyndnar, sorglegar og bitrar, eins og þær eru sagðar af hinum alltumlykjandi sögumanni, sem svífur út og inn í örlög skáldsögunnar, þar til allt hefur sameinast í hljómmikilli bókmenntafúgu,“ skrifar Lind og heldur áfram. „Geti maður eins og Jón Kalman séð hið stóra í hinu smáa, verður ekki aðeins ástin heldur einnig lífið nokkurn vegin á stærð við alheiminn. Og jafn stjörnutindrandi dásamlegt.“

Liselotte Wiemer, bókmenntarýnir hjá Weekendavisen , hefur dóm sinn á þeim orðum að ár hvert standi aðeins mögulega ein norræn skáldsaga raunverulega upp úr bókaflóðinu og setji markið hærra. Segir hún Eitthvað á stærð við alheiminn vera slíkt verk. „Íslendingurinn Jón Kalman Stefánsson er frumspekilegur litlibróðir Williams Heinesen. Jafn ljóðrænn og fullur af lífskrafti, jafn jarðbundinn og svífandi. En Stefánsson býr yfir meiri örvæntingu, hærra ákalli eftir merkingu. Og sá sem hrópar nógu hátt, virðist fá svar. [...] Jón Kalman hefur verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs alls fjórum sinnum. Síðast fyrir Fiskarnir hafa enga fætur . Enn hefur hann ekki komist gegnum nálaraugað. Mögulega af því að hann á skilið verðlaun sem eru nokkurn veginn á stærð við alheiminn,“ skrifar Wiemer í niðurlagi. silja@mbl.is