Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Vinstrimenn á þingi og í sveitarstjórnum eru yfirleitt miklir áhugamenn um að „fullnýta tekjustofna“.

Vinstrimenn á þingi og í sveitarstjórnum eru yfirleitt miklir áhugamenn um að „fullnýta tekjustofna“. Þessi sakleysislegu orð þýða að taka þurfi allar þær krónur af skattgreiðendum sem mögulegt er og skilja sem allra minnst eftir í vasa þeirra sem krónanna afla.

Þessi orðanotkun er til dæmis þekkt úr umræðum um útsvar sveitarfélaganna, en flest þeirra hafa kosið að „fullnýta tekjustofninn“ með því að skattleggja íbúana eins og lög frekast leyfa.

Stöku sveitarfélag kýs að fullnýta ekki þennan tekjustofn og fá sveitarstjórnarmenn þar jafnvel bágt fyrir frá kollegum annars staðar.

Nú hefur komið fram frumvarp á þingi frá fyrrverandi skattheimtumethafa Steingrími J. Sigfússyni og nokkrum öðrum vinstri grænum.

Þau hafa þungar áhyggjur af því að ríkisvaldið hafi ekki fullnýtt mögulega gjaldtöku af eldsneyti á bíla og að það sé „mikill slaki í þessum tekjustofnum til vegamála“.

Ástæðan fyrir þessum áhyggjum er að eldsneytisgjöldin hafi ekki hækkað til samræmis við verðlag og þetta þurfi að leiðrétta.

Þingmennirnir telja að í það minnsta tveir milljarðar króna hafi í ógáti verið skildir eftir í vösum eigenda sinna og vilja að Alþingi bæti úr. Viðeigandi er að þeir vilja að þetta gerist 1. apríl.