[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Þetta er frábært félag og með eitt af átta bestu liðum Evrópu um þessar mundir.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Þetta er frábært félag og með eitt af átta bestu liðum Evrópu um þessar mundir. Þar af leiðandi er ljóst að ég er að taka skref fram á við með því að ganga til liðs við það,“ sagði Stefán Rafn Sigurmannsson, handknattleiksmaður hjá Aalborg Håndbold, við Morgunblaðið í gær, eftir að opinbert var að hann hefði gert tveggja ára samning við ungverska félagsliðið Pick Szeged. Stefán Rafn gengur til liðs við ungverska liðið í sumar, en það hefur samþykkt að kaupa upp núverandi samning Stefáns við danska úrvalsdeildarliðið en hann er samningsbundinn því fram á mitt árið 2019.

„Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um eftir að hafa fundað með þjálfara Szeged og heyrt hans hugmyndir og hvernig hann hygðist nýta krafta mína með liðinu,“ sagði Stefán Rafn. Ungverska liðið sótti mjög fast að fá Stefán Rafn strax í sumar og var því tilbúið að kaupa upp samning hans við danska liðið. „Úr því að þeir sóttust svo fast að fá mig þá er ljóst að þeir ætla mér hlutverk innan liðsins,“ sagði Stefán Rafn þar sem hann sleikti danska vorsól í Álaborg meðan viðtalið stóð yfir, var þá nýkominn af æfingu með Aalborg Håndbold.

Annað af stóru liðunum

Pick Szeged er annað af tveimur stóru handboltaliðunum í Ungverjalandi. Hitt er Veszprém sem Aron Pálmarsson leikur með. Szeged er frá samnefndri borg sem er sú þriðja fjölmennasta í Ungverjalandi. Liðið er um þessar mundir komið í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu auk þess að vera stigi á undan Veszprém í deildarkeppninni. Stefán Rafn verður annar íslenski handboltamaðurinn til þess að leika með ungversku félagsliði.

„Ég er hrikalega ánægður með að komast á þennan stað á ferlinum. Mikil metnaður ríkir innan félagsins sem ætlar sér enn lengra í evrópskum handbolta en það hefur ennþá náð. Þjálfari liðsins, Juan Carlos Pastor er fyrrverandi landsliðsþjálfari Spánverja. Hann er afar spennandi þjálfari að mínu mati og vill leika handbolta eins og mér hentar vel. Ég er viss um að undir hans stjórn muni ég geta tekið enn meiri framförum,“ sagði Stefán Rafn.

Sænski hornamaðurinn Jonas Källman er aðalleikmaður Pick Szeged í vinstra horninu. Stefán Rafn segir hann eiga eitt ár eftir af samningi sínum við Szeged. Stefán óttast ekki samkeppnina við Svíann sem lengi hefur verið einn besti hornamaður Evrópu. „Pastor þjálfari hefur það fyrir reglu að skipta leiktímann milli manna í hverjum leik og miðað við það forráðamenn félagsins hafa sagt mér þá verður svo áfram. Þannig að ég sé fram á skemmtilega tíma hjá Pick Szeged,“ sagði Stefán Rafn sem hefur átt vaxandi gengi að fagna með Aalborg í dönsku úrvalsdeildinni eftir að hafa átt erfitt uppdráttar vegna meiðsla í haust. Þá var Stefán níu vikur frá keppni vegna meiðsla í upphafi keppnistímabilsins. Aalborg, sem er undir stjórn Arons Kristjánssonar, trónir á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar. Stefán Rafn kom til Álaborgar í fyrra eftir fjögurra ára veru hjá þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen. Hann var þýskur meistari með liðinu á síðasta vori.

Stefán Rafn
» Fæddur árið 1990 og lék með Haukum upp yngri flokka og fram til ársins 2012 að hann samdi við þýska liðið Rhein-Neckar Löwen.
» Gekk til liðs við Aalborg Håndbold sumarið 2016.
» Gerist liðsmaður Pick Szeged í Ungverjalandi 1. júlí í sumar.
» Á að baki 56 A-landsleiki.