Laugardagsgátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Fá hann allan viljum við. Veitir slökun, ró og frið. Úr honum margur fylli fær. Fallegt blóm í honum grær. Harpa á Hjarðarfelli svarar: Lottópottinn viljum við. Veitir pottur ró og frið.

Laugardagsgátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Fá hann allan viljum við.

Veitir slökun, ró og frið.

Úr honum margur fylli fær.

Fallegt blóm í honum grær.

Harpa á Hjarðarfelli svarar:

Lottópottinn viljum við.

Veitir pottur ró og frið.

Úr matarpotti fylli fær.

Frítt í potti blómið grær.

Helgi Seljan á þessa lausn:

Lottópottinn allan menn langar oft að fá

og lúinn hverfur víst í potti heitum.

Í potti góðum margan bita löngum líta má

og ljúfast blóm í potti er fegurst veit um.

Pétur Friðrik Þórðarson leysir gátuna þannig:

Ilma betur enginn kann

Ofsa er ‘ann flottur

Ánægja að eiga hann

Þú ert að meina „pottur“?

Guðrún Bjarnadóttir svarar:

Allan bollann, ekki hálfan,

því engiferte róar best.

Með blótbolla ölum Óðin sjálfan.

Engjarós í bolla sést.

Helgi R. Einarsson á þessa lausn:

Að vinna hann og vera í

með vinum þykir gott.

Í honum sýð, um blómin bý

og bendi því á pott.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Pottinn allan viljum við.

Veitt fær heitur pottur frið

Úr potti margur fylli fær.

Fallegt blóm í potti grær.

Þá er limra:

Í lukkupottinn datt Pétur,

sem Pálínu fékk í vetur,

hún fór burt með Svía,

þá fékk hann sér nýja

og hrósað nú happi getur.

Og að lokum ný gáta eftir Guðmund:

Í bólinu ég lengi lá

laugardagins morgni á,

latur fór ég loks á stjá,

líta gátu hérna má:

Varla dæll er við að kljást.

Við það kennt er lítið sparð.

Að því grasi ýmsir dást.

Af þeim bita gott mér varð.

Hér er gömul vísa í lokin:

Margan galla bar og brest

bágt mun varla að sanna.

Drottinn alla dæmir best;

dómar falla manna.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is