Eyjólfur Guðjónsson fæddist í Hlíð á Djúpavogi 16. janúar 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað 28. febrúar 2017.

Foreldrar hans voru Guðjón Eyjólfsson, bóndi og sjómaður, frá Hlíð, f. 6. apríl 1886, d. 29. september 1942, og Guðrún Aradóttir ljósmóðir frá Fagurhólsmýri, f. 17. júní 1884, d. 12. september 1975. Systkini Eyjólfs eru: a) Guðrún, f. 24. júlí 1926, hún giftist Gunnlaugi Sigurðssyni frá Stafafelli í Lóni, f. 6. janúar 1925, d. 27. september 1962. Þau eignuðust fjögur börn: Guðjón, Sigurð, Tryggva og Önnu Sigrúnu. b) Ari, f. 25. apríl 1929, hann kvæntist Önnu Fíu Hringsdóttur úr Reykjavík, f. 5. júní 1932, d. 7. júní 1964. Þau eignuðust þrjú börn: Guðrúnu, Hring og Gunnlaugu Fíu. c) Sigurður, f. 11. júlí 1930, kvæntur Ragnhildi Garðarsdóttur frá Stekkatúni í Álftafirði, f. 4. október 1942. Þau eignuðust fimm börn: Einar, Sigurbjörgu, Elvu, Karólínu Rögnu og Guðjón Garðar. Eyjólfur bjó í Hlíð til níu ára aldurs ásamt foreldrum sínum og systkinum. Í Hlíð bjuggu líka föðurforeldrar hans, Eyjólfur og Sigurbjörg, Sigríður dóttir þeirra og bróðir hennar Ragnar og fjölskylda hans. Árið 1937 flutti fjölskyldan í Framnes við Berufjörð, þar sem Eyjólfur bjó til æviloka. Eyjólfur gekk í grunnskóla Djúpavogs og var afburða námsmaður. Hann tók við fjárbúi foreldra sinna og stundaði búskap á Framnesi ásamt því að sinna æðarvarpi á jörðinni. Hann vann sem kjötmatsmaður í sláturtíðinni á Djúpavogi í mörg ár og sat í hreppsnefnd staðarins. Eyjólfur var einnig verkstjóri við vatnsveitu Djúpavogs og hreindýraeftirlitsmaður í hreppnum í mörg ár.

Útför Eyjólfs Guðjónssonar verður gerð frá Djúpavogskirkju í dag, 11. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

Við systkinin vildum minnast föðurbróður okkar sem féll frá eftir erfið veikindi 28. febrúar síðastliðinn. Eyjólfur frændi var hæglátur og brosmildur maður, alltaf í góðu skapi og iðulega blístrandi lagstúf. Hann virtist sjá lífið og tilveruna með gleði í hjarta og jákvæðum huga. Eyjólfur var nægjusamur og hafði engar áhyggjur af nútíma tækni og tólum hann var ánægður með að hlusta á útvarp og las mikið.

Á Framnesi bjuggu Eyjólfur og amma okkar. Oft komum við í heimsókn til þeirra þegar við vorum börn sérstaklega meðan amma var á lífi en um hana hugsaði frændi okkar af alúð og natni alla tíð. Jólunum var bjargað þegar mamma keypti konfektkassa handa ömmu og Eyjólfi. Pabbi fór alltaf með okkur krakkana í Framnes á aðfangadagsmorgun. Við vorum ætíð full tilhlökkunar á leiðinni og sátum með fangið fullt af jólakökum og gjöfum. Frænda var réttur innpakkaður konfektkassinn og þegar hann þakkaði okkur ljómaði hann eins og sól í heiði.

Eyjólfur var bóndi að ævistarfi og hugsaði vel um sínar kindur. Hann sinnti líka æðarvarpi og þekkti hverja kollu. Hann fullyrti að hver og ein væri með sín sérkenni og skap. Hann sagði að aldrei mætti ganga hljóðlaust að æðarkollu sem lægi á eggjum, alltaf ætti að tala við hana og sjálfur gat hann strokið þeim og klappað. Einu skiptin sem okkur var bannað að fara út á nesið var þegar æðarvarpið var í gangi annars máttum við valsa að vild um landið hans. Hann var einstakur dýravinur og mikið náttúrubarn ásamt að vera eðal æðarkollubóndi.

Í fjöruferðum kenndi hann okkur meðal annars að þekkja plöntur, hann át skarfakál af bestu lyst og fékk okkur til að smakka það líka. Ekki þótti okkur kálið gott. Fugla kenndi hann okkur að þekkja af útliti og hljóðum, við fundum krossfiska, ígulker og stundum sáum við smákola í fjöruborðinu við húsið hans.

Í minningu bernskunnar skelltum við okkur í gúmmískó og síðan var hlaupið á harðaspretti niður á túnið fyrir neðan húsið okkar þegar við sáum Eyjólf koma á dráttavélinni til að sinna heyskap. Ekki er gott að vita hvað honum fannst um að við værum að þvælast fyrir honum en aldrei nokkurn tíma hastaði hann á okkur, alltaf var hann með bros á vör. Við fengum að sitja uppi á heyvagninum og veltast um heysátur og garða. Hann kenndi okkur að raka og blása í strá svo skar í eyru. Þegar við vorum búin að fá nóg af heyskap var farið að skoða í skurði og læki í leit að hornsílum og brunnklukkum undir vökulu auga frænda okkar.

Við erum þakklát fyrir að hafa átt Eyjólf föðurbróður okkar að. Yndislegri frænda hefði ekki verið hægt að hugsa sér. Þakklát erum við fyrir að fá að kynnast náttúru og dýralífi undir hans leiðsögn sem og ýmsu sem hann kenndi okkur og sýndi sem margt heyrir nú fortíðinni til.

Við þökkum starfsfólki á heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað fyrir að annast vel um og hjúkra frænda okkar þetta síðasta ár í lífi hans. Blessuð sé minning föðurbróður okkar Eyjólfs Guðjónssonar.

Systkinin frá Aski,

Einar, Sigurbjörg, Elva,

Karólína og Guðjón.