[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Meðal þess fyrsta sem birtist á prenti eftir Halldór Guðjónsson frá Laxnesi var grein þar sem skáldið unga skoraði á æskulýð landsins að hætta að nota blótsyrði. (Æskan, ágúst 1917 bls. 62-64.) Og vissulega er ljótt að blóta og bölva.

Meðal þess fyrsta sem birtist á prenti eftir Halldór Guðjónsson frá Laxnesi var grein þar sem skáldið unga skoraði á æskulýð landsins að hætta að nota blótsyrði. (Æskan, ágúst 1917 bls. 62-64.) Og vissulega er ljótt að blóta og bölva. Hinu er þó ekki að leyna að það er hægt að blóta mjög fallega á íslensku. Persónulega finnst mér tónninn og innstillingin skipta mun meira máli en orðin sjálf. Ef tónninn er geðvonskulegur, þrunginn hatri og beiskju er fátt ljótara en að segja „andskotinn“ eða eitthvað álíka. En ef tónninn er léttur og nettur og vinalegur verður sama orð bráðhuggulegt og getur jafnvel endað sem ljúfasta kjass, ég tala nú ekki um ef með fylgir réttur upptaktur: „Ja hver andskotinn.“

Sjálfur lærði ég að greina þarna á milli í æsku. Var til dæmis kennt að ekki mætti blóta sólinni þótt hún væri eitthvað að angra mann. Slíkt athæfi gæti valdið blindu. En ef ágengni sólargeisla yrði yfir þolmörkum væri þó til hentug hjáleið. Þá væri hægt að segja vingjarnlega og stillilega en þó af festu og dempaðri gremju: „Æ, mikill andskotans ami er að blessaðri sólinni.“ Þetta hefur reynst mér vel, sjónin er enn í besta lagi.

Svo eru líka til þeir sem gert hafa blótsyrði að sérstakri listgrein. Magnús Jónsson Bachmann í Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar getur talist góður fulltrúi þeirra. Það var hann sem kenndi Ugga Greipssyni að tvinna og þrinna. Einhver glæsilegasta syrpa Magnúsar gleymist ekki: „Andskotinn í heitasta og neðsta brennisteinsrjúkandi djöfulsins helvíti.“ Það skal tekið fram að þannig hljómar romsan í íslenskri þýðingu áðurnefnds Halldórs frá Laxnesi.

Íslensk blóthefð er ekki bara kjarnmikil heldur einnig afar blæbrigðarík. Handa viðkvæmum sálum eru til pempíuleg blótsyrði. Dæmi: Horngrýtis, hver þremillinn, ansans, ansvítans.

Þessi stutta hugleiðing um íslenskt bölv og ragn er hvergi nærri tæmandi en er tilkomin vegna áhyggna okkar margra af framrás ömuryrðanna „fokk“ og „fokking“ í ræðu og riti hérlendis. Við eigum betra skilið. Í málfræði sem á að heita íslensk eru þau að auki fullkomin skrípi. „Fokk“ virðist eiga að vera boðháttur (sbr. hið óheppilega slagorð „fokk ofbeldi“ sem sjálft er auðvitað ekkert annað en ofbeldi) og „fokking“ sem er hreinn enskur lýsingarháttur nútíðar reynir að vera lýsingarorð. Hvort tveggja út í hött.

Meira en lítið sérkennileg má hún líka kallast sú árátta Engilsaxa að heyja sér helst blótsyrða af akri kynlífs og ástarfars. Ekki sýnist mikill unaður tengdur bólförum á því heimili. Íslenska og norræna hefðin sækir kraft sinn og þrótt aftur á móti beint til hans í neðra og ótal nafngifta hans með víðri skírskotun til búsetu- og atvinnumála þar á bæ.

Þórarinn Eldjárn thorarinn@eldjarn.net