Árangur Biðlistar eftir ákveðnum læknisverkum hafa styst, en aukin eftirspurn hefur dregið úr styttingunni.
Árangur Biðlistar eftir ákveðnum læknisverkum hafa styst, en aukin eftirspurn hefur dregið úr styttingunni. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Þúsundir manna bíða eftir margvíslegum aðgerðum á sjúkrahúsum hér á landi og eru margir þeirra óvinnufærir á meðan. Af því hlýst mikill kostnaður fyrir einstaklingana og þjóðfélagið í heild.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Þúsundir manna bíða eftir margvíslegum aðgerðum á sjúkrahúsum hér á landi og eru margir þeirra óvinnufærir á meðan. Af því hlýst mikill kostnaður fyrir einstaklingana og þjóðfélagið í heild. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir í skriflegu svari við fyrirspurn á Alþingi að skipulagt átak á vegum heilbrigðisyfirvalda til að stytta biðlista eftir læknisverkum hafi skilað árangri. Hins vegar hafi aukin eftirspurn eftir þjónustu dregið úr styttingu biðlistanna.

Samið við fjóra aðila

Það var í mars í fyrra að Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, samdi við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku þeirra í verkefni sem miðaði að því að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum. Um er að ræða liðskipti á hnjám og mjöðmum, augasteinsaðgerðir og hjartaþræðingar. Varið skyldi 1.663 milljónum króna til verkefnisins á árunum 2016 til 2018. Það markmið var sett að í lok átaksins þyrftu sjúklingar ekki að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.

Í svari ráðherra kemur fram að þegar hafi verið gerðar 486 liðskiptaaðgerðir, 2.494 augasteinsaðgerðir og 12 hjartaþræðingar sem ekki hefðu verið framkvæmdar án átaksins og fjárveitingarinnar að baki því. Um er að ræða 92% af fyrirhuguðum fjölda liðskiptaaðgerða, 85% augasteinsaðgerða en aðeins 24% hjartaþræðinga. Þess ber að geta að hjartaþræðingar voru aðeins um 2% af kostnaði við átakið miðað við upphaflegar áætlanir og um 0,5% af raunkostnaði átaksins árið 2016.

Enn hefur þó ekki tekist að koma biðlistum í það horf að aðgerðir séu framkvæmdar innan þriggja mánaða takmarksins. Í október í fyrra höfðu 2.607 beðið eftir augasteinsaðgerð lengur en þrjá mánuði, 84 eftir hjartaþræðingu, 361 eftir aðgerð á mjöðm og 633 eftir aðgerð á hné.

Þær heilbrigðisstofnanir sem þátt hafa tekið í átakinu eru Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, fyrirtækið Sjónlag hf. og Lasersjón að hluta.

Ráðherra segir í svarinu til Alþingis að helsta ástæða þess að ekki tókst að framkvæma fleiri aðgerðir hafi verið mönnunarvandi á Landspítalanum. Í átakinu var lögð áhersla á að það leiddi ekki til fækkunar annarra aðgerða. Til að styðja við það var reynt að fjölga starfsfólki, kaupa tækjabúnað og nýta umframafkastagetu þar sem hún var til staðar. Niðurstaða Óttars Proppé heilbrigðisráðherra er að þrátt fyrir að átakið hafi enn ekki skilað þeirri niðurstöðu sem stefnt sé að verði að telja árangurinn í heild mjög góðan.