Vinnan sem stendur yfir við skráningu tónverka Atla Heimis þarf að ná til tónskálda fyrri tíma.

Fyrir nokkrum árum tók hópur gamalla vina Atla Heimis Sveinssonar, tónskálds, frá æskudögum og hópur vina hans úr tónlistarheiminum höndum saman um að skipuleggja vinnu við að skrá verk hans, stuðla að útgáfu þeirra og flutningi, opna heimasíðu með aðgengilegum upplýsingum um þessi verk og afla fjár til þess að hægt væri að vinna verkið.

Smátt og smátt varð mér ljóst að það verkefni, sem þarna var og er tekizt á við snýr ekki bara að Atla Heimi heldur er mikilvægt að sams konar vinna verði innt af hendi í sambandi við verk helztu tónskálda okkar á 19. og 20. öld og kannski lengra aftur í tímann, þótt ég hafi ekki þekkingu á því.

Í stuttu máli snýst þetta verkefni um varðveizlu ákveðins þáttar í menningu okkar sem þjóðar, sem hugsanlega hefur ekki verið sinnt nema að takmörkuðu leyti, þótt það kunni að vera misjafnt eftir því, hverjir einstaklingarnir eru.

Þegar ég fyrir nokkru las ævisögu Clöru Schumann, eiginkonu tónskáldsins Róberts Schumann, eftir konu að nafni Nancy B. Reich, sem vitnað var til hér á þessum vettvangi fyrir nokkrum vikum, varð mér ljóst að eftir lát eiginmanns hennar stóð hún á seinni hluta 19. aldar í efnislega sama verki og framangreindur hópur hefur unnið að vegna verka Atla Heimis. Eini munurinn er sá, að nú er annars konar tækni beitt við þá vinnu en þá.

Þetta snýst um að skrá öll verk tónskálda með margvíslegum upplýsingum, sem bæði nýtast flytjendum og hafa líka almennt fræðslugildi. Auk þess sem það getur verið verðmætt að hafa tónskáldið við höndina til að upplýsa um tilurð verkanna og hvort þau hafi orðið til af einhverju sérstöku tilefni.

Jafnframt þarf, eftir því sem kostur er, að ná saman upplýsingum um hvort verkin hafi verið flutt og þá hvar og af hverjum. Ennfremur að stuðla að útgáfu verkanna. Þar kemur Íslenzka tónverkamiðstöðin við sögu en hún er eins konar miðstöð sígildrar og samtímatónlistar á Íslandi. Það er hennar hlutverk að geyma afrit af íslenzkum tónverkum og tryggja að þau séu aðgengileg bæði með nótnasölu og nótnaleigu. En eins og gengur á voru landi hefur hún ekki getað sinnt hlutverki sínu sem skyldi vegna fjárskorts.

Til marks um það sem getur komið út úr vinnu af þessu tagi er að við skráningu á verkum Atla Heimis hafa komið í ljós um 200 verk sem ekki hafa verið gefin út og ekki flutt. Ekki er ólíklegt að hið sama kunni að gerast ef farið er ofan í gögn úr fórum genginna tónskálda síðustu tveggja alda.

Atli Heimir hefur skrifað á fimmta hundrað tónverk af ýmsum toga, hljómsveitarverk, kammerverk, kórverk, sönglög, sviðslistaverk, trúarlega tónlist og röpp.

Að þessari skráningu hefur komið eistneskur tónlistarfræðingur og söngkona, Tui Hirv, sem nýlega flutti fyrirlestur um þetta verkefni á vegum Listaháskóla Íslands.

Segja má að þessi forvinna sé forsenda þess að hægt sé að halda úti heimasíðu með upplýsingum um verk Atla Heimis, sem aftur er líklegt að auki áhuga tónlistarmanna í öðrum löndum á flutningi þeirra. Og þá er auðvitað ljóst að hið sama á við um verk annarra tónskálda íslenzkra á fyrrgreindu tímabili. Auðvitað á að koma upp heimasíðum með upplýsingum um verk þeirra til þess að stuðla að því að þau nái til fleiri en okkar Íslendinga.

Reyndar á það við um fleiri en tónskáld. Fyrir og um miðja 20. öld náðu nokkrir íslenzkir rithöfundar fótfestu í öðrum löndum. Þar voru fremstir í flokki Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson. En myndlistarmenn okkar sitja óbættir hjá garði í þessum efnum. Nú þegar athygli fólks beinist að Íslandi á nýjan veg, þ.e. sem ferðamannalands, og talið er að á þriðju milljón útlendinga komi hingað í ár til að skoða land okkar er ekki ólíklegt að í kjölfarið fylgi stóraukinn áhugi á íslenzkri menningu.

Það þýðir að til getur orðið nýr „markaður“ fyrir íslenzka menningu, forna og nýja. Að vísu má segja að yngstu kynslóðirnar hafi þegar brotið sér leið út á þann markað með Björk í fararbroddi.

Hér er raunverulega um að ræða eins konar menningarlega „útrás“. Og þótt útrás fjármálakerfisins íslenzka hafi mistekizt á þann veg að lengi mun lifa í sögu lands og þjóðar eru miklar líkur á að menningarleg útrás takist.

Til þess að svo megi verða þarf að verða hér til alvöru menningarpólitík, sem snýst bæði um að varðveita menningarlega arfleifð fyrri tíðar og halda á lofti menningu okkar samtíma. Slík menningarpólitík mundi bæði stuðla að því að áhugi ferðamanna á Íslandi verði varanlegur auk þess sem engin spurning er um að virk menningarpólitísk útrás mundi stuðla að aukinni sölu á íslenzkum sjávarafurðum, þótt fólk komi kannski ekki auga á þá tengingu við fyrstu sýn. En gleymum ekki erlenda áljöfrinum sem sagði við Davíð Sch. Thorsteinsson fyrir mörgum áratugum: Ef ég á að velja á milli tveggja landa, sem bjóða sömu fjárhagslegu kosti fyrir álver, vel ég það land sem hefur upp á sinfóníuhljómsveit að bjóða.

Og svo vill til að við eigum í hópi okkar afdalafólks hér í Norður-Atlantshafi kjörinn einstakling til að leiða menningarlega útrás okkar Íslendinga, þ.e. að verða eins konar sendiherra íslenzkrar menningar í öðrum löndum. Hann heitir Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari.

Þetta er sú stóra mynd sem orðið hefur til í huga þeirra sem hafa fylgzt með rýni á tónverk Atla Heimis Sveinssonar síðustu ár.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is