Fjóla Björgvinsdóttir fæddist á Djúpavogi hinn 15. febrúar 1937. Hún lést á sjúkrahúsinu á Siglufirði 6. mars 2017.

Foreldrar hennar voru Þorgerður Pétursdóttir, f. í Beinárgerði, Vallanessókn, S-Múlasýslu, 2. ágúst 1913, d. 3. júlí 1997, og Halldór Björgvin Ívarsson, f. á Bjargi við Djúpavog, Hofssókn í Álftafirði, S-Múlasýslu, 18. desember 1904, d. 7. desember 1988. Systir Fjólu sammæðra var Una Stefanía Stefánsdóttir, f. 1931, d. 1995. Alsystkini Fjólu eru Anna Margrét, f. 1933, d. 1951, Haukur, f. 1935, Ragna, f. 1938, Berta, f. 1939, Ívar, f. 1941, Björk Gógó, f. 1942, Pétur, f. 1944, Hrafnhildur, f. 1947, Pálmar, f. 1949, og Anna Margrét, f. 1951. Hinn 14. mars 1959 gekk Fjóla að eiga Jóhannes Blómkvist Jóhannesson, f. 24. október 1924, d. 28. október 2009. Foreldrar hans voru Sigríður Júlíusdóttir og Jóhannes Bjarni Jóhannesson.

Börn Fjólu og Jóhannesar eru: 1) Jóhannes, búsettur í Sola í Noregi, f. 13. janúar 1955. Hann kvæntist Sigríði Óladóttur árið 1983. Börn Jóhannesar eru a) Þórhildur, f. 1985, og b) Ragnhildur, f. 1990. Jóhannes og Sigríður skildu. 2) Anna Rós, búsett í Garðabæ, f. 23. júní 1957, gift Skúla Gunnarssyni. Börn Önnu eru a) Helga Þórey, f. 1975. Faðir hennar er Jón Sævar Grétarsson. Sonur Helgu Þóreyjar er Tindur, f. 2009. Faðir hans er Einar Valur Aðalsteinsson. b) Fjóla Dísa, f. 1980, gift Jóni Thoroddsen, synir þeirra eru Emil, f. 2000 og Kári, f. 2002. c) Jóhannes Gunnar, f. 1990. 3) Hugrún, búsett í Reykjavík, f. 21. nóvember 1959, gift Hilmari Bjarna Ingólfssyni. Synir þeirra eru a) Hilmar Bjarni, f. 1989, og b) Hjalti, f. 1992. Fyrstu hjúskaparár Fjólu og Jóhannesar bjuggu þau í Kópavogi. Árið 1963 hófu þau búskap á æskuheimili Jóhannesar í Kálfsárkoti í Ólafsfirði. Hjónin í Kálfsárkoti ráku fjölbreytt bú. Fyrstu árin voru þau með sauðfjár- og kúabúskap sem þróaðist með árunum yfir í mjólkurbúskap og nautgriparæktun. Á níunda áratugnum gerðust þau fuglabændur og ólu allt frá hænum upp í kalkúna á bænum. Þegar hefðbundnum búskap lauk sneru þau sér alfarið að gróðri og ræktun hans. Fyrr á búskaparárum hafði Fjóla gert ýmsar tilraunir sem fáheyrt var um á þeim árum, eins og að rækta jarðarber. Hjónin ræktuðu skóg á jörðinni og á tímabili framleiddu þau og seldu blómaáburð. Fjóla var mjög bókelsk, hún átti nokkurt safn af bókum og starfaði um tíma sem bókavörður á Bókasafni Ólafsfjarðar. Síðari ár vann Fjóla á Leikskóla Ólafsfjarðar, þar sem hún eignaðist marga góða vini. Fjóla var einnig virk í kvenfélaginu í Ólafsfjarðarsveit og á efri árum tók hún þátt í starfi Félags eldri borgara. Síðasta árið glímdi Fjóla við heilsuleysi og flutti á dvalarheimilið Hornbrekku þar sem hún var búsett til dánardags. Þrátt fyrir heilsubrest hélt Fjóla upp á áttræðisafmæli sitt í febrúar þar sem fjöldi ættingja og vina gladdist með henni í hinsta sinn.

Fjóla verður jarðsungin frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 11. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

„Góða ferð og gæfan fylgi þér,“ sagði mamma þegar ég flutti til Noregs í nám fyrir tæpum þrjátíu árum. „Mundu eftir að heilsa, kveðja og þakka fyrir þig,“ sagði hún við okkur sem börn þegar við fórum á bæi. Við fórum á bæi því að við vorum svo lánsöm að eiga heima í sveit. Mamma kenndi okkur nöfnin á blómunum, fuglunum, hún kenndi okkur vísur og kvæði og söng mikið. Hún safnaði myndum af listaverkum og kenndi okkur að þekkja verk íslenskra listmálara. Hún var skapandi og listræn í því sem hún gerði, hvort sem það var í matargerð, saumaskap eða í ræktun blóma og trjágróðurs.

Þegar litið er til baka finnst mér hún alltaf hafa verið að leiðbeina, uppfræða og að búa eitthvað til.

Hugmyndir mömmu um lífsgæði voru fólgnar i að afla þekkingar, lesa bækur, stunda búskap og að rækta tré og gróður. Foreldrar mínir lifðu samkvæmt því og voru bæði samverkamenn og vinir.

Að leiðarlokum eigum við minningar um listræna og hugmyndaríka mömmu sem ætíð stóð vörð um hagsmuni barna sinna og afkomenda.

Góða ferð, elsku mamma mín, og takk fyrir allt.

Anna Rós Jóhannesdóttir.

Elsku tengdamamma.

Þú varst um fimmtugt þegar við hittumst í fyrsta skipti. Þá varst þú bóndakona í Kálfsárkoti og bæjarbókavörður á Ólafsfirði. Hugrún var mjög tengd ykkur foreldrunum og æskustöðvunum og fórum við fjölskyldan því eins oft í heimsókn til ykkar og mögulegt var. Þú varst mikil húsmóðir og afbragðskokkur. Það var því alltaf tilhlökkun að koma og borða hjá þér. Þú hafðir gaman af því að taka á móti gestum og varst höfðingi heim að sækja. Það vakti athygli mína strax í fyrstu ferð minni norður hve mikinn áhuga þú hafðir á plöntum og trjám, enda gerðist þú skógarbóndi og plöntuðuð þið hjónin þúsundum trjáa í Kálfsárkoti.

Þú áttir þinn sælureit sunnan við íbúðarhúsið þar sem skrúðgarðurinn var. Þar var ótrúleg fjölbreytni af plöntum en merkilegast þótti mér þó þegar þú bauðst upp á heimaræktuð jarðarber sem þú hafðir ræktað í heimasmíðuðu gróðurhúsi.

Vinnan á bókasafninu átti vel við þig enda varstu bæði fróð og víðlesin. Það sýnir vel víðsýni þína að þú hættir á bókasafninu þegar ung kona, menntuð í bókasafnsfræðum, var ráðin til bæjarins og eftirlést henni starfið. Þá fórst þú í starf í leikskólanum og átti það vel við þig. Þetta reyndist þér góður vinnustaður enda varstu vel liðin af samstarfsfólkinu, foreldrum og börnunum.

Okkar ánægjulegustu stundir saman voru þegar við fórum í búðarferðir saman og stundum á veitingastað í leiðinni. Þú vildir alltaf eiga nóg til og varst því stundum stórtæk í innkaupum.

Þú varst bæði ættrækin og dugleg og varst í góðu sambandi við systkini þín og aðra ættingja enda stóðum við fyrir því að halda upp á hundrað ára afmæli mömmu þinnar á Djúpavogi. Það átti vel við þig að vera í hita og þú hefðir kannski átt að vera meira á suðrænum slóðum. Þegar þú fórst með okkur Hugrúnu til Krítar fyrir þremur árum varstu orðin stirð og áttir erfitt með gang. Eftir að hafa verið þar í viku gekkstu um ein og óstudd og stjórnaðir sundleikfimi í sundlauginni við hótelið. Þetta var góð ferð og mun ekki gleymast og verður góð minning um samveru okkar.

Hilmar Ingólfsson.

Ég er elst af barnabörnum ömmu og afa. Ég fæddist þegar börnin þeirra voru sjálf hálfgerð börn, mamma var bara átján ára. Mér skilst á mömmu og systkinum hennar að ég hafi fengið ansi góða þjónustu hjá ömmu enda var ég barnabarn og þeirri stöðu geta fylgt talsverð fríðindi. Mamma og pabbi skildu þegar ég var þriggja ára og þá fluttum við í Kálfsárkot til ömmu og afa. Amma passaði mig mjög mikið. Hún passaði mig þegar mamma var í vinnunni og seinna, þegar við vorum fluttar niður í bæ á Ólafsfirði með stjúpföður mínum, Skúla, þá hélt amma áfram að passa mig. Ég var hjá henni í eldhúsinu þegar allir hinir voru í heyskap og hámaði í mig kremkex frá Frón. Ég hjálpaði henni með ungana í útungunarvélunum og fór með henni í gróðurhúsið þar sem við biðum í ofvæni eftir að pínulítil ljósrauð jarðarber myndu springa út.

Amma kenndi mér að prjóna og hún hvatti mig alltaf til að lesa. Hún keypti ævintýri og þjóðsögur sem ég gat gengið í að vild og þegar ég var búin með allar bækurnar sem hentuðu aldri og þroska fór ég bara að lesa hinar. Þess vegna var ég búin að lesa allar Sidney Sheldon-bækurnar þegar ég var 12 ára. Minnisstæðust er samt ást mín á Þyrnifuglunum, sem ég las og las, aftur og aftur, og endað það ástarsamband með að ég flutti til Ástralíu um stund. Þegar ég var um 11 ára leyfði amma mér að vinna hjá sér á bókasafninu, þar las ég allt sem ég komst í. Anais Nin, Barböru Cartland og hverja einustu unglingabók sem safnið hafði að geyma. Þetta voru dýrðardagar hjá okkur ömmu.

Þegar ég var tæplega þrettán ára fluttum við frá Ólafsfirði, fyrst til Noregs og svo til Reykjavíkur. En samband okkar ömmu hélst áfram gott. Hún kunni alltaf að vera amman. Þegar hún kom suður og henni fannst of mikið drasl í herberginu mínu, þá lagaði hún til. Þegar henni fannst ég ekki nógu smekkleg til fara þá lá hún ekki á því heldur. Með árunum breyttist samband okkar þó mikið og markaðist í seinni tíð fremur af vináttu en öðru, enda var mig farið að langa til að sjá um hana. Þegar ég kom til hennar fyrir nokkrum árum í fjólubláu stígvélunum mínum sagði hún: „þessi stígvél eru einmitt það sem mig vantar, þau passa líka við nafnið mitt því þau eru fjólublá“ – og amma fékk stígvélin.

Síðustu ár voru oft erfið fyrir ömmu. Eftir að afi dó var eins og allur vindur væri úr henni, hún varð svo viðkvæm og lítil í sér án hans. Við Tindur sonur minn heimsóttum hana eins og við gátum og núna í janúar fórum við sérstaklega til hennar svo hún gætti kvatt hann áður en hann færi til pabba síns í Ástralíu. Við áttum yndislegar stundir saman og Tindur ók henni milli herbergja á Hornbrekku í hjólastólnum. Þegar ég sýndi henni gult og fjólublátt garn sem ég ætlaði að nota í prjónað sjal á sjálfa mig þá sá ég á svipnum á henni að henni þættu litirnir henta sér mun betur en mér. Ég kláraði sjalið hennar daginn sem hún dó og hún ætlar að hafa það með sér í síðustu ferðina.

Eftir stendur þakklæti fyrir rúm fjörutíu ár af skilyrðislausri ást og vináttu. Því mun ég aldrei gleyma.

Helga Þórey Jónsdóttir.

Elsku amma.

Það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég hugsa til þín eru kökur. Alls konar kökur. Það var og er ekki venja að hafa eftirmiðdagskaffi heima hjá mér; mamma er ekki hlynnt svoleiðis kolvetnavitleysu og ég komst aldrei upp á lagið með það að baka. En alltaf þegar komið var í Kálfsárkot var gefin kaka og mjólk. Í minningunni a.m.k. Ég held að kannski verði ég einn daginn jafn góður kokkur og þú, því þú kenndir mömmu vel og ég læri af henni en ég veit að ég mun aldrei baka jafnvel og þú gerðir.

Ég man að það var alltaf stillt á Rás 1, þar sem menningarþættir og klassísk tónlist réði ríkjum. Fyndið hvað ég pældi aldrei í því, né hve mikið þér líkaði við ljóðið sem ég gaf þér og afa. Allar bækurnar þínar, með ljóðum í og ég las þær aldrei. Var kannski ekki með aldur og þroska til þess þá og svo seinna kom ég alltaf frekar með mínar eigin bækur. Kannski les ég þær núna en ég mun ekki tala við þig um þær.

Ég spurði þig aldrei hvernig það var, að flytja ung til Kópavogs frá Djúpavogi og svo til Ólafsfjarðar. Hvernig það var í þá daga. Hvernig það var að vera kona, að vera móðir, áður en Ísland varð eins og það er, áður en fjölskyldan fór að hafa það betra (ef það að hafa aðeins meiri pening er þá betra). Hvernig leið þér? Þetta gat ekki hafa verið létt. En ég vildi ekki spyrja þig að því eftir að afi dó því mér fannst það ekki rétti tíminn og svo ekki heldur þegar þú varst veik, því ég vildi ekki koma þér í ójafnvægi og nú mun ég aldrei geta spurt þig um það.

Þú ert dáin en minningarnar um þig og eftirsjá mín er það ekki. Ég vona að eftirsjáin dofni en minningarnar ekki, en ég veit að þau munu það bæði þar til ég mun svo deyja líka. Þannig er það bara.

Ég sakna þín, elsku amma Fjóla. Og ég mun aldrei sjá þig aftur.

Hilmar Bjarni Hilmarsson.

Við viljum minnast einstakrar manneskju, systur og mágkonu, Fjólu Björgvinsdóttur, Kálfsárkoti, Ólafsfirði, eftirlifandi eiginkonu Jóhannesar Jóhannessonar, en þau bjuggu um áratuga skeið í Kálfsárkoti og ráku þar ýmsan búskap af mikilli alúð og myndarbrag. Tveir synir okkar dvöldust hjá þeim „í sveit“ um nokkur sumur á uppvaxtarárum sínum og þar öðluðust þeir reynslu og þroska sem eflaust hefur reynst þeim mjög vel síðar á lífsbrautinni.

Þegar þessi ágætu hjón voru bæði á lífi voru þau oftast nefnd saman „Fjóla og Jói“. Þau voru mjög samrýnd en samt fremur ólík, Fjóla fremur alvarlega þenkjandi en Jói glaðvær og hrókur alls fagnaðar. Þau voru bæði einstakir gestgjafar hvort sem heimsóknir til þeirra stóðu um dagspart eða nokkurra dægra skeið. Það var oft glatt á Hjalla, mikið talað og hlegið, í heimsóknum okkar í Kálfsárkot.

Jóhannes var mjög virkur Rótarýfélagi um áratuga skeið. Hann var hagvirkur og hafði þann einstaka hæfileika að geta kveðið fram með mjög skömmum fyrirvara. Fjóla var mjög hugulsöm húsmóðir og hún tók einnig þátt í öllum bústörfum af heilum hug. Fjóla fagnaði nýlega áttatíu ára afmæli sínu á höfðinglegan hátt.

Við minnumst Fjólu og Jóa sem tveggja sannra manneskja, með vinsemd, virðingu og þakklæti fyrir allar stundir sem við nutum með þeim á lífsbrautinni.

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fira;

drottinn minn

gefi dauðum ró,

hinum líkn, er lifa.

(Úr Sólarljóðum)

Blessuð sé minning Fjólu Björgvinsdóttur.

Berta og Guðni.