Sigurður Guðmundsson fæddist 1. febrúar 1942. Hann lést 1. mars 2017.

Útför Sigurðar fór fram 10. mars 2017.

Mig langar í örfáum orðum að minnast Sigga vinar míns, hans Sigga hennar Áslaugar. Lífinu er of oft tekið sem sjálfgefnu og eilífu en þegar vinur er kvaddur á brott birtast í huganum ýmis minningarbrot og maður gerir sér grein fyrir hve vináttan er dýrmæt og aldrei sjálfgefin. Ég kynntist Áslaugu hans Sigga í Fóstruskólanum fyrir tæplega 40 árum og um leið eignaðist ég vin í honum Sigga. Ég man setur okkar við eldhúsborð þeirra hjóna á Langholtsvegi. Eldhúsborðið fluttist síðan í önnur hús við aðrar götur og við fluttum með. Við fluttum með okkar spjall um heima og geima, vorum ekki alltaf sammála en alltaf vinir. Ég man þegar við fórum á grímuball. Ég man úrvalsferðir okkar í Valsskálann sáluga þar sem Siggi bauð Salvöru minni í sína fyrstu vélsleðaferð. Ég man fróðleiksfúsa Sigga. Sem skemmti sér ætíð svo vel með bók, bók sem fræddi hann um aðra heima, gamla tíma, vísindin. Fróðleiksþyrstari mann en Sigga hef ég ekki kynnst. Ég man heimsóknir mínar í Hálsakot, draumastað þeirra hjóna í sveitinni, þar sem alúð var lögð í hverja spýtu og hvern nagla. Ég man ferðina okkar til Austurríkis fyrir fáum árum. Hvar sem var, og hvenær sem var, var alltaf gaman að hitta hann Sigga með sína þægilegu og ljúfu nærveru. Ég sendi Áslaugu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. Minningin um góðan mann lifir.

Hólmfríður Gunnlaugsdóttir.

Sigurður Guðmundsson, löggiltur endurskoðandi, er látinn eftir erfið veikindi.

Sigga höfum við hjónin þekkt í mörg ár. Siggi gaf okkur vináttu sína og hjálpaði okkur í áravís, m.a. á meðan við vorum við nám erlendis. Var það ómetanlegt.

Við kveðjum hann með virðingu og sendum Áslaugu konu hans og börnum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Sagt er

að fæðing

til lífsins

sé mestur lífsháskinn

frá vöggu

til grafar

aðeins eitt

lítið andartak

við dauðans dyr

er háskinn að baki.

(Á. Ben.)

Björn Árdal og

Kolbrún Sæmundsdóttir.

Það var við Langholtsveg 86 fyrir um það bil 45 árum sem ég hitti Sigga fyrst. Hann var með kontórinn í kjallaranum og þegar ég spurði vin minn, elsta son Sigurðar, hvað endurskoðandi gerði var svarið stutt og laggott: „hann skoðar endur“.

Siggi var ekki bara flinkur endurskoðandi. Hann kunni ýmislegt fyrir sér sem okkur guttunum fannst spennandi, hvort heldur sem var að smíða, keyra eða skjóta. Siggi hafði hæfileika til að segja frá og sögur af vinnuferðum austan fjalls niður Kambana án þess að slá af eða í ófærð vestur á fjörðum lifa í minningunni. Siggi var að sjálfsögðu alltaf vel akandi, hann var töffari og maður leit upp til hans.

Það var við Langholtsveginn sem Siggi og Áslaug komu börnum sínum á legg þó svo Fossvogurinn hafi heillað meira er fram liðu stundir. Sem órjúfanlegur hluti af æskuárunum var maður inni á heimili Sigurðar og Áslaugar og fékk að taka þátt í margvíslegum verkefnum sem Siggi treysti strákunum sínum til að sinna. Grafa skurð út í nýja skúrinn, setja útvarp í ameríska kaggann, saga tré eða reisa fánastöngina sem Siggi var að gera upp. Siggi var handlaginn með eindæmum og vílaði ekki fyrir sér að endursmíða og breyta húsnæði, smíða skúr, gera upp fjallaskála, byggja sumarbústað eða standsetja einbýli. Maður fékk að njóta góðs af verkum Sigurðar hvort heldur sem það var að göslast upp í Valsskála sem Siggi endurbyggði eða hýsa fyrir mann hest í hesthúsinu í Hafnarfirði. Sömuleiðis fékk maður að vera í kjallaraíbúðinni við Eiríksgötu ef maður „bara nennti að bóna ganginn“. Greiðvikni er orð sem lýsir Sigga vel. Það var passað upp á bókhaldið og skattaskýrsluna til margra ára og sömuleiðis þar var ekki verið að rukka fyrir ómakið. Nýkominn frá Kúbu þar sem ég keypti nokkra pakka af Havana-vindlum, sem ég hafði ráðstafað Sigga, en því miður vannst ekki tími til að koma þeim til skila. Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til Sigga og fjölskyldu hans. Innilegar samúðarkveðjur, elsku Áslaug, Gummi, Benni, Eyþór og Maggý.

Jón Svan.

Frændi minn og vinur, Sigurður Guðmundsson endurskoðandi, er látinn, eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Sú barátta stóð með hléum í nokkur ár, en yfir lauk 1. mars síðastliðinn.

Sigurður var félagsmálamaður mikill fyrr á árum og lagði mikla vinnu til þeirra mála. Hann sinnti mörgum störfum fyrir Val og starfaði fyrir Skíðadeild Vals um áraraðir.

Áhugamál Sigurðar voru margvísleg síðari árin og er helst að geta áhuga hans á skógrækt, gróðursetningu og ræktun. Hann hóf ásamt eiginkonu sinni Áslaugu Benediktsdóttur framkvæmdir á landareign þeirra í Miðhúsaskógi í Biskupstungum, byggðu þau þar stóran sumarbústað er varð um árabil annað heimili þeirra á sumrin.

Hafist var strax handa við skógrækt og gróðursetningu. Í dag setur staðurinn þeirra í Biskupstungum svip á umhverfið og er helgur í hugum skapara sinna. Þar hugsa menn öðruvísi en í borgunum, á lygnum kvöldum sameinast himinninn landinu, og hver er svo tilvistin og tilgangur lífsins.

Að lokum vottum við eiginkonu og fjölskyldu dýpstu samúð.

Ó, réttið að mér drúfu,

er bliknar brá,

úr björtum veigum laugið

stirðan ná,

og leggið mig í vínlaufs

svala sæng

mót suðri, þar sem vindar

rósum strá.

(O. Khayyám. Magnús Ásgeirsson)

Heimir Brynjúlfur

Jóhannsson og fjölskylda.