Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Alþýðusamband Íslands sendi í gær Þorsteini Víglundssyni félagsmálaráðherra sameiginlega ósk aðila vinnumarkaðarins um að fá að láta á það reyna til hlítar hvort ekki væri með kjarasamningum hægt að sammælast um að upp verði tekin jafnlaunavottun á íslenskum vinnumarkaði.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri og deildarstjóri félagsmáladeildar ASÍ, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að umræður hefðu staðið um málið á milli aðila vinnumarkaðarins um nokkurt skeið og niðurstaðan hefði orðið sú að senda þetta formlega erindi til félagsmálaráðherra um að óska eftir því við hann að samtökin taki innleiðinguna að sér með gerð kjarasamnings en eins og kunnugt er hefur félagsmálaráðherra boðað lagasetningu um jafnlaunavottun.

Allir aðilar á vinnumarkaði

„Við erum búin að vera í töluvert miklum samtölum að undanförnu og allir aðilar á vinnumarkaði sem eru í kjarasamningagerð koma að þessu, þ.e. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins á almenna vinnumarkaðinum, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kennarasamband Íslands og fjármálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Það var fyrir hönd þessa hóps sem ég sendi félagsmálaráðherra þetta formlega erindi nú fyrir hádegi,“ sagði Halldór.

„Þessi hugmynd kom frá okkur í Alþýðusambandinu, eftir að hafa rætt málið við SA. Það sem að baki býr, er sú hugsun að við aðilar á vinnumarkaðnum berum ábyrgð á honum. Við berum ábyrgð á því sem þar gerist og við viljum gjarnan láta reyna á það hvort það sé þá ekki aðila vinnumarkaðarins líka að halda áfram að vinna að þessum jafnlaunamálum,“ sagði Halldór.

Halldór rifjar upp að staðlavinnan hafi komið í framhaldi af bókun sem gerð hafi verið af verkalýðshreyfingunni í kjarasamningunum í febrúar 2008. „Þetta hefur eiginlega verið okkar „baby“ allan tímann og við viljum því láta reyna á það, hvort við getum ekki tekið þetta alla leið.

Við höfum trú á að ef okkur tekst á annað borð að ná svona samningum um þetta, þá sé það líklegra til árangurs en fara einhverja þvingunarleið í gegnum lagasetningu,“ sagði Halldór.

Í anda þess sem að er stefnt

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann tæki jákvætt í erindi aðila vinnumarkaðarins, enda væri þetta algjörlega í anda þess sem ráðuneytið stefndi að. „Ef vinnumarkaðurinn vill semja um þessa leið, án þess að markmiðinu um lögbindingu jafnlaunavottunar sé fórnað, þá er ráðuneytið algjörlega opið fyrir því. Ég setti bara tvö skilyrði, sem eru þau að við viljum gott samstarf um innleiðinguna og endanlega útfærslu. Við erum opin fyrir leiðum sem gætu einfaldað ferlið gagnvart fyrirtækjum og stofnunum og eins verður þetta að gerast innan mjög þröngs tímaramma, því þetta á að klárast á vorþingi. Aðilar vinnumarkaðarins hafa því ekki nema út þennan mánuð til þess að semja um jafnlaunavottun í kjarasamningi, sem síðan yrði lagður fram sem frumvarp og lögfestur, og næði þannig til allra, sem er nauðsynlegt, vegna þess að kjarasamningar aðilanna ná ekki til alls vinnumarkaðarins. Þeir hafa lagalegt gildi sem lágmarkskjör á vinnumarkaði hvað launaþáttinn varðar, en ekki hvað varðar ýmis réttindi og skyldur,“ sagði ráðherra.

Formið yrði þá þannig að gerður yrði kjarasamningur milli aðila á vinnumarkaði, sem síðan yrði færður í lög, samkvæmt því sem Þorsteinn segir og hann bætir við að það yrði lítið mál að laga frumvarp ráðuneytisins í jafnlaunavottun að niðurstöðu kjarasamnings milli aðila.