[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ríkisstjórnin fól á fundi sínum í gær Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra og Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra að leita leiða svo veita megi til vegamála meiri fjármuni en nú eru fyrir hendi.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ríkisstjórnin fól á fundi sínum í gær Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra og Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra að leita leiða svo veita megi til vegamála meiri fjármuni en nú eru fyrir hendi. Áður hefur komið fram að tíu milljarða króna vanti upp á að samræmi sé á milli fyrirhugaðra verkefna á samgönguáætlun og fjárlaga þessa árs. „Við fjármálaráðherra setjumst yfir þetta eftir helgina og vonandi fást meiri fjármunir í verkefnin sem bíða. Vonandi skýrast málin strax í næstu viku, þannig að Vegagerðin geti farið í þau verkefni sem til stóð,“ sagði Jón Gunnarsson við Morgunblaðið.

Þegar í ljós kom að fjármunir ætlaðir til vegamála dygðu hvergi nærri til áformaðra verkefna voru nokkur þeirra lögð til hliðar. Þær framkvæmdir sem Jón telur mikilvægt að fara af stað með í ár eru til dæmis Teigsskógur og endurbætur á vegunum um Uxahryggi, Kjósarskarð, Skógarströnd á norðanverðu Snæfellsnesi og Dettifossvegur. Ekki megi heldur bíða að fara í vegabætur innst í Berufjarðarbotni, en íbúar á þeim slóðum efndu til mótmælaaðgerða nú í vikunni vegna bágs ástands vega þar. Þá hafa sveitarstjórnir og hagsmunasamtök ályktað og mótmælt niðurskurði. „Ég skil þessa gremju vel,“ segir Jón og segist einnig telja áríðandi að í ár verði hafist handa um byggingu nýrrar brúar yfir Hornafjarðarfljót. Fyrir liggi samþykkt mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar, sem renni út verði ekki hafist handa á árinu.

Koma málum af stað

„Nei, ég treysti mér ekki til að segja hve mikla fjármuni við þurfum eða getum vænst að fá til aukinna framkvæmda. Mestu skiptir þó að geta koma verkefnum af stað og svo gildir bara það gamla góða, að hálfnað er verk þá hafið er,“ segir Jón.