Strengjaleikarar Strokkvartettinn Siggi leikur verk eftir Beethoven og íslensk tónskáld, Báru Gísladóttur, Finn Karlsson og Halldór Smárason.
Strengjaleikarar Strokkvartettinn Siggi leikur verk eftir Beethoven og íslensk tónskáld, Báru Gísladóttur, Finn Karlsson og Halldór Smárason.
Strokkvartettinn Siggi heldur tónleika í Norðurljósasal Hörpu á morgun, sunnudag, klukkan 17. Á tónleikunum verða frumfluttir þrír glænýir strengjakvartettar eftir ung íslensk tónskáld, þau Báru Gísladóttur, Finn Karlsson og Halldór Smárason.

Strokkvartettinn Siggi heldur tónleika í Norðurljósasal Hörpu á morgun, sunnudag, klukkan 17. Á tónleikunum verða frumfluttir þrír glænýir strengjakvartettar eftir ung íslensk tónskáld, þau Báru Gísladóttur, Finn Karlsson og Halldór Smárason. Auk þess mun Strokkvartettinn Siggi flytja eitt af síðustu stórvirkjum Beethovens, strengjakvartett í a-moll, ópus 132.

Strokkvartettinn Siggi er skipaður fiðuleikurunum Unu Sveinbjarnardóttur og Helgu Þóru Björgvinsdóttur, Þórunni Ósk Marinósdóttur á víólu og Sigurði Bjarka Gunnarssyni á selló. Öll hafa þau látið mikið að sér kveða í íslensku tónlistarlífi sem einleikarar og flytjendur kammertónlistar auk þess að vera meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Sigurður Bjarki segir að kvartettinn hafi farið í samstarf fyrir þetta starfsár við hóp ungra tónskálda sem hafi samið verk sérstaklega fyrir þau að leika. „Nú leikum við hluta þeirra og lékum önnur ný verk fyrr í vetur,“ segir hann.

„Þau taka kvartettformið rosalega misjöfnum tökum enda eru þau ólík tónskáld. Eitt verkið er elektrónískt að hluta, annað hefðbundnara og þriðja tónskáldið er mjög uppátækjasamt í sinni nálgun. Þetta er óhefðbundið á ýmsa vegu.“

Fyrir vikið, segir Sigurður, þá reynir flutningur þessara verka öðruvísi á flytjendur en flutningur eldri klassískra verka. „Við erum öllu vön en nýju verkin mynda áhugaverðan kontrast við klassíkina. Það hefur verið þema hjá okkur í Sigga að vinna með ný óhefðbundin verk og eldri saman, eins og nú þegar við flytjum þennan stóra kvartett Beethovens. Efnisskráin hjá okkur byggist oft á miklum innbyrðis andstæðum.“

Strokkvartettinn Siggi var stofnaður árið 2012 og hefur síðan frumflutt verk fjölmargra tónskálda auk þess að leggja rækt við tónlist gömlu meistaranna.