Aðskilnaður Nú á að kanna hvort aðskilja eigi að hluta eða öllu leyti starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, eins og gert hefur verið víða.
Aðskilnaður Nú á að kanna hvort aðskilja eigi að hluta eða öllu leyti starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, eins og gert hefur verið víða. — Morgunblaðið/Eggert
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Fram kemur í áfangaskýrsla til fjármála- og efnahagsráðherra frá starfshópi um aðgerðir til að draga úr áhættu í fjármálakerfinu og auka viðnámsþrótt gegn fjármálaáföllum, að stærsta verkefni starfshópsins var að skoða nokkra þætti er varða það atriði að takmarka áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi í alhliða bönkum.

Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, skipaði ofangreindan starfshóp sl. vor, sem skilaði áfangaskýrslu í haust. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur skipað nýjan starfshóp sem á að sinna svipuðu verkefni og skila skýrslu í maímánuði þar um. Starfshópurinn er skipaður sömu mönnum og voru í fyrri starfshópnum, nema hvað Fjóla Agnarsdóttir fjármálaráðuneytinu og Jónas Þórðarson, Seðlabanka, hafa bæst í hópinn.

Í áfangaskýrslunni kemur fram að þau atriði sem hópnum var falið að skoða tengist því markmiði að takmarka áhættu í fjármálakerfinu, annaðhvort með því að tryggja innstæður og setja upp varnarvegg í kringum þær eða með því að skilja frá eða a.m.k. takmarka áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi alhliða banka. Takmörkunin hefði það að markmiði að auðveldara yrði að skilja frá innstæður, tiltekna starfsemi eða eignir frá annarri starfsemi ef fjármálafyrirtæki lendir í vandræðum.

Bandaríkin riðu á vaðið

Fram kemur í skýrslunni að lagareglur hafi verið settar um þessi atriði í nokkrum ríkjum Evrópu og víðar. Bandaríkin hafi riðið á vaðið árið 2010 og sett takmarkanir á ákveðna fjárfestingarbankastarfsemi alhliða banka og sjóða. Bretar hafi 2013 sett lagareglur sem takmarki að bankar þar í landi, sem taka við innstæðum, stundi ákveðna fjárfestingarbankastarfsemi. Árið 2014 hafi verið gerðar lagabreytingar í Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi sem miði að því að takmarka ákveðna fjárfestingarbankastarfsemi, en ólíkar leiðir séu farnar í löndunum. 2016 hafi Svisslendingar svo gert breytingar á þarlendri bankalöggjöf sem bættu við heimildum fyrir Fjármálaeftirlitið þar í landi til að taka á fjárfestingarbankastarfsemi alhliða banka.

Í niðurlagi áfangaskýrslunnar segir: „Enda þótt fjöldi ríkja hafi nú þegar sett lög sem taka eiga á áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi hjá alhliða bönkum eru þær leiðir sem farnar eru að þessu sama markmiði ólíkar. Sem dæmi um ólíka nálgun ríkja má nefna blæbrigðamun á lagareglum í Þýskalandi og Frakklandi og það þrátt fyrir að ríkin hafi sameiginlega unnið að breytingunum. Munurinn skýrist oft af ólíkum verndarhagsmunum og uppbyggingu fjármálamarkaða í löndunum. Mismunurinn liggur einnig í því að ólíkt er milli ríkja hvaða starfsemi fellur undir fjárfestingarbankastarfsemi sem er óheimil alhliða bönkum eða sætir takmörkunum. Þannig falla einungis stærstu bankar sumra ríkja undir takmarkanir en í öðrum ríkjum allir bankar.

Þá er munur á því hvort ákveðin fjárfestingarbankastarfsemi er með öllu óheimil tilteknum fjármálafyrirtækjum eða sætir takmörkunum. Einnig er munur á því hver tengsl félaga mega vera, þ.á m. innan sömu samstæðu, og hvaða reglur gilda um samskipti og viðskipti tengdra félaga.“

Fram kemur að starfshópurinn hafi ekki lagt mat á það hvort og hvaða leiðir gætu hentað íslenskum fjármálamarkaði í þessu efni.