Matarveisla Gestir í matarboði í Babette's Feast. 17 leikarar eru í sýningunni sem Pálína Jónsdóttir leikstýrir.
Matarveisla Gestir í matarboði í Babette's Feast. 17 leikarar eru í sýningunni sem Pálína Jónsdóttir leikstýrir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Það var sannarlega stór stund fyrir Pálínu Jónsdóttur, leikkonu og leikstjóra, þegar ný leikgerð hennar á hinni þekktu skáldsögu danska rithöfundarins Karenar Blixen, Gestaboð Babettu , eða Babette's Feast eins hún heitir á ensku, var frumsýnd í The Connelly Theater í New York miðvikudaginn 8. mars. Pálína leikstýrir sýningunni sem er meistara- og útskriftarverkefni hennar frá leikstjórnardeild hins virta Columbia-háskóla í New York.

Sýninguna vann Pálína í samstarfi við listamenn frá ýmsum löndum og leikkonan sem fer með hlutverk flóttakonunnar og listakokksins Babettu, Sanam Erfani, þekkir líf flóttamannsins af eigin raun því hún flúði Íran ung að árum með fjölskyldu sinni og settist að í Bandaríkjunum.

Saga Blixen og leikgerð Pálínu eiga brýnt erindi við samtímann og ávarpa ástand heimsins, hinn mikla fjölda flóttamanna sem hvergi finna öruggt skjól og nýtilkomið múslímabann Bandaríkjaforseta, Donalds Trump, því Babetta er pólitísk flóttakona sem á allt sitt undir því að beiðni hennar um innflytjendaleyfi verði samþykkt í framandi landi, eins og Pálína bendir á. En fyrst tölum við um námið í Columbia og hvers vegna hún ákvað að fara í leikstjórnarnám.

Umbreytingar nauðsynlegar

„Þegar ég sótti um að komast inn í námið var ég búin að vera að leikstýra og kenna leiklist í nokkur ár, svo ég er búin að vera í þessari umbreytingu í nokkurn tíma. Lífið er stórt breytingaskeið og umbreytingar nauðsynlegar svo maður staðni ekki og geri ekki annað en að endurtaka sig. Ég var staðráðin í því að sækja mér sérþekkingu í leikstjórn líkt og ég hafði gert með leikaranámi mínu hjá Leiklistarskóla Íslands á sínum tíma og leiklistarkennslunáminu hjá Listaháskóla Íslands sem ég kláraði árið 2009.

Leikstjórn er flókið fyrirbæri sem reynir á aðra vöðva en hefðbundið leikaranám og líkt og með læknanám þurfa læknar að afla sér sérþekkingar og réttinda. Ég veit t.a.m. ekki um neinn hjartaskurðlækni sem ekki hefur lagt á sig sleitulaust nám og símenntun til að geta læknað mannshjörtun,“ segir Pálína. Hún er fyrsta íslenska konan sem lýkur meistarnámi í leikstjórn frá Columbia, þriggja ára námi sem er sérsniðið að þörfum leikstjórans.

„Frá þeirri stund sem maður gengur inn í námið er maður starfandi leikstjóri,“ útskýrir Pálína. Námið samanstandi af verklegri vinnu og sýningum til jafns við akademískar greinar. „Hér er passað upp á að jafnvægi sé á milli sköpunarvinnu leikstjórans og fræðilegrar þekkingar. Sjálft námið tekur tvö stíf ár og svo lokaárið sem er tileinkað vinnslu á meistara- og útskriftarverkefni. Forsendur útskriftar eru leikverk að eigin vali og uppfærsla, auk ritgerðar. Þar að auki þurfa nemendur að finna tvö störf við uppfærslur en ég starfaði með Robert Lepage í Metropolitan-óperunni og aðstoðarleikstýrði nýrri óperu hjá Prototype Festival í NY til að opna inn í óperuheiminn,“ segir Pálína.

Gamall draumur rættist

–Hvers vegna valdirðu þetta tiltekna verk eftir Karen Blixen?

„Ég elska þessa sögu Blixen, Gestaboð Babettu, og ég var búin að láta mig dreyma um að gera sviðsverk upp úr sögunni. Ég var á sínum tíma og áður en ég hóf námið með viljayfirlýsingu frá Tinnu Gunnlaugsdóttur, þáverandi þjóðleikhússtjóra, sem sýndi því mikinn áhuga en verkefnið fékk ekki þann fjárstuðning sem til þurfti svo draumurinn fór í pækil. Við þessi tímamót og tækifæri til að gera svo stóra sýningu varð því náttúrleg ákvörðun að leysa þessa sögu úr pæklinum og gera úr henni „thesis“-verkefni mitt. Þegar maður velur sér verkefni þarf að vera fyrir því stór innistæða og ástríða því maður lifir lengi með svona verkefnum og til þess þarf mikið úthald og vilja til að koma því í höfn.“

Bann Trump stríðsyfirlýsing

–Fylgirðu sögu Blixen ítarlega í leikgerðinni eða tekurðu þér skáldaleyfi?

„Saga Blixen stendur föstum fótum og talar með sláandi skýrum hætti um stöðu okkar í dag líkt og hún gerði á sínum tíma. Vinna mín við leikgerð og sviðsetningu vegur jafnvægið á milli innihalds og raddar höfundar og minnar sýnar á hvað þessi saga er að segja við okkur í dag. Efnið sem ég vinn með býr innra með verkinu og ég er leikstjóri sem vinnur að því að leiða að efni sögunnar. Allar textaviðbætur mínar hef ég kappkostað að skrifa í anda Blixen eins vel og mér hefur verið unnt.

Til að verkið ávarpi okkur og sé um okkur hér og nú hef ég valið íranska leikkonu í hlutverk Babette til að styrkja samtímalega skírskotun og skýrleika sögunnar og um leið mótmæli ég múslímabanni núverandi forseta Bandaríkjanna sem er hryðjuverk í sjálfu sér og stríðsyfirlýsing beint gegn þjóðaranda Bandaríkjanna,“ segir Pálína.

–Segðu mér frá leikurunum í sýningunni, hverjir eru þeir og hvar fannstu þá?

„Það eru 17 leikarar í sýningunni og þeir hafa ratað til mín með ýmsum hætti. Þeir eru blanda af leikurum sem ég hef starfað með á meðan á námi mínu hefur staðið og flestir þeirra komið í gegnum auglýstar leikprufur eða í gegnum tengslanet mitt hér. Leikstjóraprógrammið er vel þekkt hér á meðal starfandi leikara í borginni sem sækjast eftir því að vinna með nýjum leikstjórum, sem eykur líkur þeirra á framtíðarsamstarfi og því að koma fyrir sjónir bæði fagaðila í greininni og nýrra áhorfenda.

Sögumaður sýningarinnar kom í gegnum vináttu mína við Aimee Mullins sem nefndi leit mína við Salman Rushdie rithöfund sem sagði mér að leita til Joan Juliet Buck. Hún tók boði mínu fagnandi og það er mikil blessun fyrir gæðastandard sýningarinnar en hún er tvítyngd á ameríska og franska tungu, sem var grundvallaratriði fyrir hlutverkið,“ segir Pálína.

Hún hafi áttað sig á því að val á leikkonu frá Mið-Austurlöndum væri hið rétta í stöðunni því með því myndi verkið tala beint inn í samtíma sinn. „Með þeim hætti gat ég ávarpað með hárri rödd hið móralska og húmaníska efni sögunnar og lagt mitt af mörkum gegn þeim tortímandi niðurrifsöflum sem nú stuðla að og ögra frelsi okkar, bræðralagi og jafnræði með beinum hætti. Sanam Erfani flúði hingað eftir langt og strangt ferli foreldra hennar við leit og ótal beiðnir um griðastað fjölskyldunnar í nýjum heimi og þetta ferli hefur verið henni afar persónulegt og á margan hátt dramatískt. Hún er stórkostleg leikkona sem hefur mikið að gefa og hlutverkið er í hárréttum höndum. Hún flaug frá heimili sínu í Englaborginni til að taka hlutverkið að sér, það segir meira en mörg orð um merkingarmátt þess.“

Baráttuandi í listamönnum

–Núverandi stjórnvöld hóta niðurskurði til lista, hver er umræðan úti? Óttast fólk að starfsumhverfið sé að verða verra eða er baráttuhugur í listamönnum?

„Já, það er mikill baráttuandi í listamönnum Bandaríkjanna eins og fram hefur komið í heimsfréttum. Á tímum sem þessum kristallast hversu mikilvægt afl listin er og hlutverk okkar sem þjónum henni. Listin er í eðli sínu pólitísk því hún ávarpar, sýnir og spáir fyrir um framhald okkar. Hér eru listirnar bornar uppi af stofnunum og fjársterkum aðilum sem ég veit frá fyrstu hendi að taka stöðuna alvarlega til sín og þá ábyrgð að styðja listamenn og listsköpun þeirra.

Það er grundvallarmisskilningur og fáviska að halda því fram að listirnar séu ekki gagn og nauðsynjar. Líf án listar eins og líf án ástar er innihaldslaust. Listin er lífið sem býr innra með okkur og listaverkið er kraftbirting tilfinninga og skynjunar okkar á heiminum. Þessi öfl stýra því hvernig við lifum og breytum.“

–Má ekki búast við því að þessi sýning hljóti mikla athygli, í ljósi efnisins?

Ég vona það því þessi sýning er stærsta gjöfin sem ég á handa heiminum í dag og hún er mitt framlag til að stuðla að ást, friði og sameiningu. Ég finn fyrir miklum áhuga og stuðningi sem ég er ólýsanlega þakklát fyrir og ég óska þess sannarlega að sýningin eigi sér framhaldslíf fyrir höndum.“

Atvinnuleikhús áhugasamt

–Verður sýningin sett upp á Íslandi?

„Það er áhugi heima á Íslandi fyrir sýningunni hjá atvinnuleikhúsi, sem gleður mig mikið. Við sjáum hvað setur.“

–Áttu von á því að fá fleiri verkefni í Bandaríkjunum eða ætlarðu að snúa aftur til Íslands og leikstýra?

„Já, ég á von á því og ég mun starfa alþjóðlega. Ég fagna því að fá að gefa af mér þar sem krafta minna er óskað. Ísland á einstakan stað í hjarta mínu og það yrði heiður að starfa með öllu því góða listafólki sem þar er að nýjum verkefnum til handa þeim frábæra áhorfendahópi sem þar er en það er stórkostlegt hvað við eigum öflugt listalíf á Íslandi, það heldur í okkur lífinu og voninni um betri heim,“ segir Pálína.