Hús atvinnulífsins Gríðarlegur viðsnúningur var í afkomu SI milli ára.
Hús atvinnulífsins Gríðarlegur viðsnúningur var í afkomu SI milli ára. — Morgunblaðið/Golli
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Samtök iðnaðarins skiluðu tapi upp á ríflega hálfan milljarð í fyrra og fól það í sér gríðarlegan viðsnúning frá fyrra ári þegar hagnaður af starfsemi þess og fjárfestingum nam ríflega 800 milljónum króna.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Samtök iðnaðarins skiluðu tapi upp á ríflega hálfan milljarð í fyrra og fól það í sér gríðarlegan viðsnúning frá fyrra ári þegar hagnaður af starfsemi þess og fjárfestingum nam ríflega 800 milljónum króna. Rekstrartekjur samtakanna námu ríflega 308 milljónum í fyrra og jukust um 34 milljónir milli ára. Þar af skiluðu félagsgjöld tæpum 285 milljónum og jukust um 26 milljónir. Aðrar tekjur reyndust tæpar 24 milljónir króna og jukust um 9 milljónir. Hins vegar námu rekstrargjöld tæpum 603 milljónum og jukust þau um 144 milljónir frá 2015. Munaði þar mest um aukinn kostnað við útgáfu- og kynningarmál, sem námu 102 milljónum samanborið við 37 milljónir árið á undan. Þá hækkuðu laun og launatengd gjöld, sem reyndust rúmar 290 milljónir króna en höfðu verið tæpar 252 milljónir árið á undan. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður nam 84 milljónum rúmum og lækkaði um 4 milljónir, sérverkefni kostuðu ríflega 59 milljónir en höfðu verið 33 milljónir og föst verkefni kostuðu 53 milljónir og hækkuðu um 15 milljónir milli ára.

Rekstrartap reyndist því tæplega 295 milljónir króna en hafði verið tæpar 185 milljónir árið 2015.

Ofan á rekstrartap síðasta árs lagðist svo tap dótturfélags samtakanna, sem nefnist Akkur SI. Eignir þess rýrnuðu um ríflega 637 milljónir í fyrra. Námu þær í árslok í fyrra tæpum 5 milljörðum króna. Þar er um að ræða félag sem heldur utan um verðbréfa- og bankainnstæður samtakanna, sem meðal annars eru komnar til vegna söluhagnaðar af hlut SI í Íslandsbanka á sínum tíma og sölu á eignarhlut SI í Húsfélagi iðnaðarins.

Nýta ávöxtun til rekstrarins

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, segir að Akkur SI hafi verið hugsaður sem bakhjarl starfsemi samtakanna og að með ávöxtun fjáreigna hans sé þeim gert kleift að halda félagsgjaldinu lægra en ella væri.

„Þessir fjármunir eru nýttir til ýmissa þeirra verkefna sem við sinnum á hverjum tíma. Almennt reynum við að halda launakostnaði á svipuðu róli og félagsgjöldunum en arðurinn sem fæst af starfsemi Akks er nýttur til þeirra mörgu stóru verkefna sem við sinnum, meðal annars kynningarmála og fræðslustarfsemi af ýmsum toga.“

Í rekstri SI mun vera miðað við að ganga ekki á höfuðstól eigna Akks og að aðeins ávöxtunin sé nýtt til verkefna samtakanna. Þá mun vera ákveðið hver lágmarkseignastaða Akks skuli vera og að ekki megi skerða eignir hans umfram það mark. Almar vill hins vegar ekki gefa upp hvert það gólf sé.

Gríðarlegur viðsnúningur

Þrátt fyrir mikið tap af fjárfestingum Akks SI í fyrra stendur félagið vel og til samanburðar við síðastliðið ár sýna reikningar Samtaka iðnaðarins að Akkur SI skilaði samtökunum tæplega milljarðs tekjum á árinu 2015. Sýnir reikningurinn að það ár hafi eignir Akks aukist úr tæpum 4,1 milljarði króna í ríflega 5,1 milljarð.

Almar segir að þegar litið sé yfir nafnávöxtun fjármuna Akks SI á síðustu árum þá reynist hún 10,31% að meðaltali frá árinu 2012. Hæst hafi hún farið í 21,8% árið 2015 en lægst í fyrra þegar ávöxtunin reyndist neikvæð um 5,3%.

Hann segir að stjórn Akks og framkvæmdastjóri hans, sem er Jón Bjarni Gunnarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SI, reyni á hverjum tíma að tryggja sem besta ávöxtun eigna.

„Þannig tókum við til dæmis ákvörðun um það í ársbyrjun 2016 að draga mjög úr vægi eignar okkar í íslenskum hlutabréfum og færðum yfir í skuldabréf. Það reyndist mjög farsæl ákvörðun.“

Í dag skiptist eignasafnið þannig að um milljarður er ávaxtaður í erlendum hlutabréfum en 3,5 milljarðar í innlendum eignum. Skuldabréf og laust fé telji um 1,3 milljarða og hlutabréf séu um 2,2 milljarðar.

Engir ársreikningar eru til skráðir opinberlega yfir Akk SI þar sem félagið lýtur reglum um skráningu félagasamtaka.

Akkur SI
» Eignir Akks nema 4,5 milljörðum króna.
» Akkur er að fullu og öllu leyti í eigu Samtaka iðnaðarins.
» Framkvæmdastjóri sjóðsins er Jón Bjarni Gunnarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SI.
» Í stjórn Akks sitja Almar Guðmundsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Eyjólfur Árni Rafnsson.