Efinn Hamborgarar eða burgerar, þar er efinn.
Efinn Hamborgarar eða burgerar, þar er efinn.
Stundum liggur við að mig langi til að kvarta yfir sjónvarps- og útvarpsdagskránni, en ég geri það auðvitað ekki, enda hef ég svo sem enga ástæðu til þess.

Stundum liggur við að mig langi til að kvarta yfir sjónvarps- og útvarpsdagskránni, en ég geri það auðvitað ekki, enda hef ég svo sem enga ástæðu til þess. Ég get bara skipt um stöð eða rás, farið á Netflix eða leigt bíómynd ef mér leiðist það sem boðið er upp á.

En ef ég væri fyrir það að kvarta myndi ég örugglega kvarta yfir stöðugum endursýningum í sjónvarpinu, gömlum bíómyndum, óskiljanlegum framhaldsþáttum á borð við Fortitude, eða óstjórnlegum Eurovisionáhuga þjóðarinnar. Það er því eins gott að ég kvarta aldrei, þó ekki væri nema til þess að tryggja að þeir sem lesa þennan ljósvakapistil gefist ekki upp á tuðinu í miðjum klíðum og leiti að öðru og uppbyggilegra lesefni.

Nei, það er engin þörf að kvarta yfir ljósvakanum enda skein blessuð sólin í fyrrasumar, veturinn var mildur og Herjólfur er farinn að sigla í Landeyjahöfn. Ég ætla til dæmis alls ekki að kvarta yfir tískuorðum í fjölmiðlum á borð við að hjóla í, útsettur fyrir, jaðarsettur, haldlagður, aðili og því að Íslendingar virðast hafa skipt hamborgara út fyrir burger, að minnsta kosti í ljósvakaauglýsingum.

Guðm. Sv. Hermannsson

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson