[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu um slys í umferðinni árið 2016 voru ferðamenn 16% þeirra sem slösuðust á árinu. Tveir ferðamenn létust í umferðarslysum á Íslandi í fyrra en þeir voru frá Kína og Frakklandi.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu um slys í umferðinni árið 2016 voru ferðamenn 16% þeirra sem slösuðust á árinu. Tveir ferðamenn létust í umferðarslysum á Íslandi í fyrra en þeir voru frá Kína og Frakklandi. Alls slösuðust 174 ferðamenn lítilega og 47 alvarlega í umferðarslysum á Íslandi. Yfir þúsund Íslendingar slösuðust í umferðarslysum í fyrra, þar af 151 alvarlega.

Kínverjar í flestum slysum

Í gögnum Samgöngustofu kemur fram að af erlendum ferðamönnum lentu Kínverjar í flestum umferðarslysum á Íslandi í fyrra. Einn lést, 10 slösuðust alvarlega og 25 lítillega. Bandaríkjamenn eru í öðru sæti yfir slasaða ferðamenn en 4 bandarískir ferðamenn slösuðust alvarlega og 25 lítillega. Hafa verður fjölda ferðamanna frá þessum tveimur löndum í huga. Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu um brottfarir gegnum Keflavíkurflugvöll, sem gefa ágæta mynd af fjölda eftir þjóðerni, voru Bandaríkjamenn fjölmennasti hópur ferðamanna á Íslandi 2016 en alls heimsóttu 415.287 Bandaríkjamenn Ísland í fyrra. Kínverjar voru í 6. sæti yfir ferðamenn á Íslandi og heimsóttu alls 66.781 kínverskir ferðamenn Ísland í fyrra. Bretar voru í öðru sæti yfir þá sem heimsóttu Ísland í fyrra en einungis 10 Bretar slösuðust lítillega í umferðinni og enginn lenti í alvarlegu slysi.

18 létust í umferðarslysum

Alls létust 18 í umferðarslysum á Íslandi í fyrra. Af þeim voru 14 Íslendingar, 2 ferðamenn og 2 innflytjendur.

Samgöngustofa hefur einnig tekið saman tölur um innflytjendur og umferðarslys. Af innflytjendum á Íslandi lentu flestir Pólverjar í umferðarslysi. Tveir létu lífið, fjórir slösuðust alvarlega og 30 lítillega. Það er í samræmi við tölur Hagstofunnar um fjölda innflytjenda hérlendis en Pólverjar eru þar langstærsti hópurinn, 10.993 manns, eða um 37,5% allra innflytjenda.