Áhugafólk um frjálsar íþróttir, eins og raunar landsmenn allir, gat glaðst um síðustu helgi þegar Aníta Hinriksdóttir vann til sinna fyrstu verðlauna á stórmóti í flokki fullorðinna.
Áhugafólk um frjálsar íþróttir, eins og raunar landsmenn allir, gat glaðst um síðustu helgi þegar Aníta Hinriksdóttir vann til sinna fyrstu verðlauna á stórmóti í flokki fullorðinna. Mikið er ég ánægður að við skulum eiga þessa frjálsíþróttastjörnu sem virðist á svo hárréttri leið.

Það var vel við hæfi hjá Frjálsíþróttasambandinu, í samvinnu við Mennta- og menningarmálaráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, að boða til samkomu í vikunni til að heiðra Anítu. Til máls tóku Kristján, Freyr Ólafsson formaður FRÍ og Lárus Blöndal forseti ÍSÍ, og þökkuðu Anítu fyrir hennar frábæra árangur. Þeir nýttu líka tækifærið og þökkuðu fleiri gestum, því þarna var meðal annars mætt fjölskylda Anítu og félagar hennar og þjálfarar úr ÍR. Fólkið sem hefur staðið þétt við bak hennar á leið í fremstu röð.

Já, þarna var fólk sko mætt til að samgleðjast Anítu. Þess vegna get ég ekki með nokkru móti skilið að Gunnar Svavarsson, stjórnarmaður hjá FRÍ og fyrrverandi alþingismaður, sem stýrði hófinu, skuli hafa viljað nýta þetta tækifæri til að segja, í merkilega löngu máli, einhverjar gamansögur af menntamálaráðherra. Ekki nóg með það heldur var Kristjáni við þetta tækifæri, sem nota bene var ekki sextugsafmæli hans heldur hóf til heiðurs Anítu Hinriksdóttur, afhent einhver mynd af því þegar hann tók skóflustungu að sjúkrahóteli Landspítalans. Ef þið sjáið tenginguna þá bara endilega látið mig vita.

Ég get alveg reynt að hlæja að þessu ævintýralega mikla taktleysi, en mér finnst þetta að sama skapi sorglega mikil vanvirðing við Anítu. Hún átti þessa stund.