Hvernig á að verja sparifé almennings fyrir áhættu fjárfestingabankastarfsemi?

Fjármálakreppan 2008 vakti umræður víða um heim um hvernig ætti að draga úr líkum á að slíkt gerðist aftur. Í þeirri umræðu er ítrekað talað um að skilja eigi á milli viðskiptastarfsemi bankanna og fjárfestingastarfsemi þeirra. Lög um slíkan aðskilnað voru í gildi í Bandaríkjunum lengi vel. Þau voru sett árið 1933 eftir kreppuna miklu og voru afnumin í forsetatíð Bills Clintons í nafni nútímavæðingar. Á Bandaríkjaþingi var reynt að innleiða hluta þeirra á ný eftir kreppuna 2008, en þeir, sem stóðu að baki því, höfðu ekki erindi sem erfiði.

Slíkur aðskilnaður kom til tals hér á landi strax eftir að íslensku bankarnir fóru á hliðina og hafa ýmsir tekið upp þráðinn. Þar má nefna Pétur Einarsson, sem vakið hefur athygli með heimildamynd sinni Ránsfengur. Pétur er þeirrar hyggju að hinir venjulegu viðskiptamenn bankanna hafi af því ríka hagsmuni að skilja á milli viðskiptastarfsemi og fjárfestingastarfsemi bankanna. Auk þess sé umgjörð bankakerfisins hér á landi þannig að einstakt tækifæri sé til að skilja þessa starfsemi að, ekki síst vegna stórs eignarhlutar ríkisins í bankakerfinu.

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur nú skipað starfshóp, sem á að skoða erlenda löggjöf um aðskilnað eða takmörkun á viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, eignarhald á bönkum, hverjir megi eiga banka, hversu stóran hlut og fleira.

Benedikt segir í viðtali við Morgunblaðið að í þessu efni verði að horfa til þess að fjárfestingarbankastarfsemi geti verið af ýmsum toga og ákveðnir þættir hennar séu eiginlega alveg lausir við áhættu. Bendir hann á að í Belgíu sé leyfilegt að reka saman fjárfestingar- og viðskiptabanka að því tilskildu að fjárfestingarstarfseminn sé innan tiltekinna marka. Eins og hann bendir á felst áhættan í fjárfestingarbankastarfsemi í því þegar þeir taki stöður í fyrirtækjum með beinum hætti eða óbeint með því að lána fé til hlutabréfakaupa.

Í sömu frétt segir að komin sé fram þingsályktunartillaga um aðskilnað fjárfestingarbanka- og viðskiptabanka. Kemur einnig fram að þingsályktunartillaga sama efnis hafi verið flutt átta sinnum áður á þingi án þess að afgreiðslu hafi verið lokið. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu. Katrín átti sæti í ríkisstjórninni, sem mynduð var í upphafi árs 2009 og sat í fjögur ár. Sé það rétt hjá Pétri Einarssyni að nú sé einstakt tækifæri til að skilja þessa þætti bankastarfsemi að, voru aðstæður fullkomnar þegar vinstri stjórnin tók við. Þá var hafist handa með hreint borð. Nýir bankar risu á rústum bankakerfisins. Aðskilnaður gat farið fram án þess að skaða hagsmuni eða stíga á tær. Sagt er að það sé erfitt að setja tannkremið aftur í túpuna þegar það hefur verið kreist úr henni. Þarna var tannkremið enn í túpunni. Það er ráðgáta hvers vegna ekki var ráðist í þennan aðskilnað þá. Er hér um að ræða hagsmuni, sem aðeins skipta máli í stjórnarandstöðu? Hafi það ekki verið talið brýnt í upphafi hefði kannski mátt rumska áður en tveir bankar af þremur voru settir í hendur vogunarsjóða, sem allt kapp leggja á ógagnsæi. Það er í það minnsta ljóst að tæpum áratug síðar er mun flóknara að ráðast í þennan aðskilnað þótt enn sé lag.

Þegar fjármálakreppan skall á var bönkum heims líkt við spilavíti og rifjuð voru upp fleyg orð á borð við ummæli Bertolts Brechts um að aðeins viðvaningar fremdu bankarán, sannir atvinnumenn stofnuðu banka.

Markmiðið með því að skilja að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka er að verja sparifé almennings fyrir áhættu og glannaskap. Oft er talað um að bankar geti orðið of stórir til að hægt sé að láta þá fara á hausinn. Með aðskilnaði verður það auðveldara lendi bankar í vanda vegna fjárfestingarstarfsemi. Bankakreppan skaðaði ekki aðeins viðskiptamenn banka víða um heim. Björgunaraðgerðirnar lögðust einnig þungt á pyngju skattborgara. Hér gekkst ríkið í ábyrgð fyrir innistæður almennings á Íslandi á reikningum föllnu bankanna. Það er því full ástæða til að skoða þessi mál rækilega áður en lengra er haldið.